Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Íslenskur skógræktarstaðall kominn út

27. júní 2025

Staðlaráð hefur gefið út frumvarp að staðlinum ÍST 95 – Leiðbeiningar um sjálfbæra skógrækt. Staðallinn er unninn í samræmi við viðeigandi verklagsreglur Staðlaráðs Íslands og alþjóðleg viðmið um staðlastarf. Umsagnarfrestur um frumvarpið er til 25. ágúst kl. 13.

Staðallinn var saminn af tækninefnd um sjálfbæra skógrækt undir stjórn Staðlaráðs Íslands og kom út á vef Staðlaráðs 25. júní. Hann er byggður á vísindalegri þekkingu, alþjóðlegum viðmiðum og bestu starfsvenjum í sjálfbærri skógrækt með sérstakri áherslu á íslenskar aðstæður og löggjöf. Honum er ætlað að veita samræmdan ramma fyrir skipulag og framkvæmd skógræktar í takti við sjálfbærnimarkmið stjórnvalda, alþjóðasamninga og hagsmunaaðila.

Í staðlinum eru skilgreindar grunnkröfur fyrir sjálfbæra skógrækt á Íslandi og getur staðallinn því nýst sem grundvöllur fyrir stjórnsýslu, stefnumótun og faglegt mat á skógræktarverkefnum, þar með talið skráningu skógræktarverkefna í Skógarkolefni og þróun vottunarferla fyrir kolefniseiningar.

Markmið staðalsins er að stuðla að sjálfbærri nýtingu skóga, verndun vistkerfa, jarðvegsvernd og endurnýjun skóga í samræmi við efnahagslega, félagslega og umhverfislega þætti. Staðallinn nær til allra tegunda skóga, bæði náttúrulegra og ræktaðra, og tekur til alls lífsferils skóga, þar á meðal:

  • skipulagningar og stjórnunar

  • framkvæmda

  • umhirðu og varðveislu

  • mats á áhrifum skógræktar

  • endurheimtar skóga og umhirðu raskaðra svæða

  • samspils skógræktar við samfélög og haghafa

Í staðlinum eru veittar leiðbeiningar þar sem tekið er mið af mismunandi aðstæðum, vistkerfum og efnahagslegum forsendum. Hann er ætlaður sem grunnur fyrir stefnumótun, framkvæmdir og mat á sjálfbærni skógræktarstarfs.
Staðallinn nær ekki til sérstakra vottunarkerfa eða reglugerða, heldur er hann ætlaður til notkunar hjá aðilum sem vinna að skipulagi, stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum til að stuðla að ábyrgri skógræktarstarfsemi.

Staðallinn verður endurskoðaður reglulega með tilliti til þróunar í löggjöf, stefnumótunar og vísindalegrar þekkingar á skógrækt. Kaupa má staðalinn í staðlabúðinni á vef Staðlaráðs og kostar hann 11.378 krónur.

Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarp að staðlinum er til 28. ágúst klukkan 13 og má gera athugasemdir á vef Staðlaráðs.

Gera athugasemd


Að athugasemdarfresti loknum fer staðlanefndin sem vann frumvarpið yfir allar athugasemdir og ábendingar sem borist hafa. Nefndin metur hvort og hvernig þær skuli leiða til breytinga á drögum að staðlinum. Þegar umsagnir hafa verið teknar til greina og nauðsynlegar breytingar gerðar fer fram lokayfirferð í staðlanefndinni. Að síðustu þarf nefndin að samþykkja lokaútgáfu staðalsins áður en hann fer til formlegrar staðfestingar af hálfu Staðlaráðs Íslands.