Íslenskt loftslagsverkefni stenst strangar alþjóðlegar kröfur
8. janúar 2025
Skógræktarverkefnið Álfabrekka í Grímsnes- og Grafningshreppi hefur hlotið vottun frá alþjóðlega faggiltu vottunarstofunni Enviance Services Private Limited. Það er fyrsta verkefnið skipulagt samkvæmt kröfusettinu Skógarkolefni sem hlýtur slíka alþjóðlega vottun. Með þessu hefur verið staðfest að verkefnið uppfyllir kröfur ISO 14064-2:2019 og er þar með í samræmi við helstu alþjóðlega staðla fyrir loftslagsverkefni.
Frá þessu er sagt í frétt á vef International Carbon Registry (ICR). Nýverið var einnig greint þar frá því að ICR hefði formfest samstarf sitt við Land og skóg um kröfusett fyrir kolefnisverkefni. Í því felst að áframhaldandi vinna við kröfur og aðferðafræði kolefnisverkefna með nýskógrækt verður byggð á kröfusettinu Skógarkolefni og þar með verður það hluti af kerfi ICR. Auk þess styður ICR nú við þá vinnu sem er í gangi við smíði kröfusetts fyrir sambærileg verkefni með endurheimt votlendis.
Verkefnið Álfabrekka sem nú hefur hlotið alþjóðlega Enviance-vottun felur í sér nýskógrækt á 97 hektara landi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Þar er áætlað að bindist ríflega 52 þúsund tonn af koltvísýringi næstu fimmtíu árin. Með vottuninni er staðfest að íslensk loftslagsverkefni geta staðist strangar alþjóðlegar kröfur, auk þess að stuðla að sjálfbærri landnotkun og styðja við samfélagið á viðkomandi svæði.
Í frétt ICR er sagt frá því samstarfi við Land og skóg sem nú er í gangi við að þróa áfram kröfusettið Skógarkolefni í samræmi við staðalinn ISO 14064-2 fyrir kolefnisverkefni. Haft er eftir Guðmundi Sigbergssyni, framkvæmdastjóra ICR, að þessi áfangi sé alþjóðleg viðurkenning á því frumkvöðlastarfi sem unnið er undir merkjum Skógarkolefnis og hófst hjá Skógræktinni árið 2019. Það endurspegli styrk samstarfsins milli ICR og Lands og skógar.
Einnig er rætt við Gunnlaug Guðjónsson, sviðstjóra gagna, miðlunar og nýsköpunar hjá Landi og skógi. Hann segir verkefnið Álfabrekku sýna að íslensk verkefni geti fylgt alþjóðlegum stöðlum og skilað mælanlegum og gegnsæjum árangri í loftslagsmálum. „Þetta er mikilvægur liður í yfirfærslu Skógarkolefnis yfir í ICR-kerfið,“ segir Gunnlaugur.
Með vottun Álfabrekkuverkefnisins má segja að Ísland sé komið á hinn alþjóðlega kolefnismarkað sem varðar leiðina fyrir fleiri loftslagsverkefni sem heyra undir ICR, „þar á meðal nýstárlegar aðferðir eins og endurheimt votlendis, sem nú eru þegar í þróun,“ eins og segir orðrétt í frétt ICR. Með ítarlegri úttekt Enviance Services á verkefninu Álfabrekku segir Pankaj Kumar, framkvæmdastjóri Enviance, að staðfest sé að verkefnið sé í samræmi við bæði alþjóðlega staðalinn ISO 14064-2:2019 og kröfusettið Skógarkolefni 2.0. Það sýni getu íslenskrar skógræktar að leggja raunverulegt framlag til loftslagsmálanna.
Nánar um verkefnið Álfabrekku og íslensk kolefnisverkefni í skógrækt: