Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Írskir búfræðinemar taka til hendinni

11. júní 2025

Land og skógur fékk góða heimsókn nýverið þegar hópur ungra búfræðinema frá Írlandi tók til hendinni við uppgræðslustörf í Hítardal.

Gestirnir voru hér á landi í hálfan mánuð í heimsókn hjá Landbúnaðarháskóla Íslands en höfðu óskað eftir því við Land og skóg að fá verkefni til að spreyta sig á. Þriðjudaginn 27. maí fór Iðunn Hauksdóttir héraðsfulltrúi með hópinn í Hítardal þar sem hún hafði rætt við Gísla Friðjónsson, bónda á Helgastöðum um aðstoð við verkefnið. Finnbogi Leifsson, landeigandi í Hítardal, lét í té þrjátíu heyrúllur sem Gísli flutti á uppgræðslusvæðið innar í dalnum. Hann var svo til aðstoðar á traktornum þennan dag, skar á rúllurnar og setti þær í rofabörð.

Dreift úr heyrúllu í rofabarð í Hítardal. Ljósmynd: Iðunn Hauksdóttir

Írsku nemarnir tóku sér svo heykvíslar í hönd og dreifðu betur úr rúllunum. Einnig gengu þau með fræ og áburð sem þau dreifðu þar sem erfitt er að komast að með vélar.

Írskir búfræðingar taka til hendinni við uppgræðslu í Hítardal. Ljósmynd: Iðunn Hauksdóttir

Í Hítardal er umfangsmikið uppgræðslusvæði í umsjón Lands og skógar. Þar hefur verið unnið að virkri uppgræðslu frá árinu 2019. Að þessu sinni var gömlu heyi dreift í rofabörð á svokölluðum Skógarhól þar sem eru gróðursælar „eyjar“ með runnum og lynggróðri en sums staðar líka skógarbotnsgróðri. Á milli eru svo mjög rofin svæði þar sem ekkert vex. Markmiðið með vinnu írsku nemanna þennan fallega dag í maí var að hlúa að nefndum gróðureyjum og stöðva frekara rof á þeim. Meðfylgjandi myndir tók Iðunn Hauksdóttir.

Gamalt hey komið í rofsvæði í Hítardal. Ljósmynd: Iðunn Hauksdóttir

Land og skógur þakkar kærlega fyrir hjálpina!