Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Hvernig rækta má skóg í skóglausu landi

11. ágúst 2025

Nýkominn er út á vefnum þáttur í sjónvarpsþáttaröðinni Razor Science Show þar sem fjallað er um skógareyðingu og skógleysi á Íslandi og hvernig Íslendingar vinna nú að því að klæða landið skógi á ný. Fjallað er um Bonn-verkefni eins og Hekluskóga, hvernig eyðingaröflin voru stöðvuð á Þórsmörk og ræktun fjölbreyttra skóga á landinu.

Þáttaröðin Razor Science Show er framleidd í Evrópudeild kínversku ríkissjónvarpsstöðvarinnar CGTN. Í titli þáttarins sem tekinn var upp á Íslandi er spurt hvernig megi rækta skóg í skóglausu landi, How do you grow trees in a treeless land.

Í þættinum ræðir dagskrárgerðarkonan Gabrielle Lawrence við nokkra fulltrúa Lands og skógar. Samson Bjarnar Harðarson og Hrefna Jensdóttir segja henni frá hnignun landgæða á Íslandi, hvernig skógarnir hurfu og landið blés upp og hvernig unnið er að því að klæða landið á ný, til dæmis með Bonn-verkefnum í grennd við Heklu og víðar. Aðalsteinn Sigurgeirsson útskýrir meðal annars hvernig nýta má harðgerar frumherjategundir á svæðum nærri sjó til að búa til skjól sem býr með tímanum kröfuharðari tegundum skilyrði til að vaxa upp. Loks er í þættinum farið á Þórsmörk þar sem Hreinn Óskarsson og Chas Goemans segja frá því hvernig svæðinu var bjargað á síðustu stundu frá því að blása upp með öllu og hvernig birki og annar gróður hefur náð að breiðast þar um á ný. Þátturinn gefur góða hugmynd um markmiðin og aðferðirnar sem beitt er.

Sjá þáttinn How do you grow trees in a treeless land