Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Gullgrafararnir sigruðu!

6. mars 2024

Starfsfólk Lands og skógar stóð sig vel í landsátakinu Lífshlaupinu sem er nýlokið. Stofnunin lenti í áttunda sæti í flokki stofnana með 70-149 starfsmenn. Þrettán lið mættu til leiks fyrir hönd Lands og skógar og þar sýndi liðið The Gold Diggers besta frammistöðu.

Gullgrafararnir eða The Gold Diggers

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. ÍSÍ styðst við ráðleggingar Embættis landlæknis um hreyfingu.

Að sjálfsögðu mætti hin nýja stofnun, Land og skógur, öflug til leiks og tefldi fram þrettán liðum sem dreifðust um landið og liðsfélagar sömuleiðis. Skipað var í liðin eftir frjálsri aðferð ef svo má segja. Fjöldi í liði var frá fimm upp í tíu. Öll liðin tóku virkan þátt í átakinu og eru því öll sigurvegarar á sinn hátt. Alls voru þátttakendur 87 sem er um tveir þriðju starfsfólks Lands og skógar.

  1. Eitt af fámennustu liðunum stóð sig þó best, lið gullgrafara eða The Gold Diggers. Félagarnir fimm skiluðu 102 dögum sem þýðir að hlutfall daga var ríflega tuttugu á mann.

  2. Í öðru sæti var sex manna liðið Keðjurnar með jafnmarga daga og dagahlutfallið 17.

  3. Í þriðja sæti lenti lið sem kenndi sig við handspritt, HANDEX 85. Þar var dagahlutfallið 16.

Fleiri lið hétu skemmtilegum nöfnum eins og Febrúarflippkisar og Leikfimifélag ríkisins en aðalatriðið er að öll liðin voru mjög virk og dagahlutfallið hvergi undir tíu.

Athyglisvert er að skoða hvaða hreyfing var algengust. Mestum tíma varði fólk á göngu og næstoftast merkti fólk við líkamsrækt. Þar á eftir komu sveitastörf, hjólreiðar og hestamennska. En þótt snjór væri yfir öllu landinu í febrúar voru ekki nema tæp sex prósent skráðra mínútna skráðar á skíði eða skíðagöngu. Hins vegar var tæpt prósent skráð á snjómokstur en alls skráði starfsfólk hreyfimínútur í 38 flokka hreyfingar.

Myndin að ofan er samsett mynd af sigurliði gullgrafara, The Gold Diggers. Landogskogur.is óskar liðinu til hamingju með sigurinn!

Tegundir hreyfingar 2024