Glæsilegar plöntur í haustgróðursetningu
28. ágúst 2025
Dreifing skógarplantna til haustgróðursetningar stendur nú sem hæst hjá Landi og skógi. Í vikunni var tekið á móti plöntum í dreifingarstöðinni í Björnskoti á Skeiðum til verkefna í Árnessýslu. Ríflega tvö hundruð þúsund plöntur verða settar niður í ýmsum verkefnum í sýslunni á komandi vikum. Plönturnar þykja sérlega fallegar að þessu sinni sem lofar góðu um árangurinn.

Valgerður Erlingsdóttir skógræktarráðgjafi sendi meðfylgjandi myndir af vinnunni í dreifingarstöðinni í Björnskoti. Hún segir að þá hafi verið tekið á móti plöntum frá Kvistabæ í Reykholti sem fara í haustgróðursetningu hjá skógarbændum og í lönd Lands og skógar.

Á myndunum má sjá Jón Þór Birgisson skógræktarráðgjafa og Hörpu Dís Harðardóttur sem sinnir plöntudreifingarmálum með meiru hjá Landi og skógi. Með þeim eru franskir starfsnemar sem eru um það bil hálfnaðir með þriggja mánaða dvöl hjá Landi og skógi í Þjórsárdal og segjast hæstánægðir með allt á Íslandi nema veðrið. Ekki þurfti þó að kvarta undan veðrinu í gær. Þennan dag var líka staddur í Björnskoti Björn Bjarndal Jónsson, skógfræðingur og skógarbóndi, kominn til að sækja plöntur til gróðursetningar á jörð sinni Kluftum í Hrunamannahreppi.

Harpa Dís segir að einnig séu komnar plöntur frá Sólskógum á Akureyri og tekur hún sérstaklega fram að plönturnar bæði þaðan og frá Kvistabæ séu mjög glæsilegar að þessu sinni. Það lofi góðu um árangurinn. Um áttatíu þúsund plöntur af blönduðum tegundum fara í bændaskógræktina, Segir Harpa Dís, og um tíu þúsund í verkefni hjá félagasamtökum með stuðningi Vorviðar. Stærsti hlutinn eða um 120 þúsund plöntur verði svo settur niður á Þjórsárdalssvæðinu, bæði í Hekluskógum og fleiri verkefnum.
Harpa segir að dreifingin gangi vel enda sé tíðin góð og aðstæður hinar bestu. Bændur séu duglegir að sækja plöntur sínar og þessa dagana séu verktakar að gera sig klára fyrir gróðursetningu í Þjórsárdal.
