Gæðaviðmið um val á landi til skógræktar
23. september 2025
Fyrstu útgáfu gæðaviðmiða Lands og skógar um val á landi til skógræktar er nú beitt til reynslu hjá stofnuninni. Gert er ráð fyrir að viðmiðin verði endurskoðuð fljótlega með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur við notkun þeirra í sumar og haust. Gæðaviðmiðin eru aðgengileg á vef Lands og skógar.

Skjalið er afrakstur vinnu á vegum stýrihóps hjá Landi og skógi sem settur var á laggirnar 27. ágúst 2024 með það hlutverk að samræma þau verkefni hjá stofnuninni sem falla undir staðla og gæðaviðmið, skipuleggja vinnulag og tryggja nauðsynlegt samráð við stofnanir, sérfróða aðila sem og hagaðila. Þessi vinna er í samræmi við stefnu stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt (Land og líf) þar sem kveðið er á um aðgerð 2.3 sem felur í sér að þróa og innleiða ný gæðaviðmið við val á landi til skógræktar. Gæðviðmiðin eru unnin í nánu samráði við fagráðuneyti Lands og skógar.
Í stýrihópnum sátu Birkir Snær Fannarsson lögfræðingur (formaður), Bryndís Marteinsdóttir, sviðstjóri sjálfbærrar landnýtingar, og Brynjar Skúlason sviðstjóri rannsókna og þróunar. Með hópnum starfaði Páll Sigurðsson skipulagsfulltrúi.
Þessi fyrsta útgáfa er niðurstaða af samráði við aðila, bæði innan- og utanhúss. Stefnt er að því að viðmiðin verði endurskoðuð innan ársins, meðal annars í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur við notkun þeirra í sumar og haust.
