Fyrsta útnefning sérstæðra birkiskóga
12. júní 2025
Land og skógur hefur gefið út fyrstu skrá um sérstæða eða vistfræðilega mikilvæga birkiskóga á Íslandi og leifar þeirra. Skógana má skoða í sérstakri vefsjá stofnunarinnar.

Afmörkun og skráning birkiskóglendis sem nýtur sérstakrar verndar er lögbundið hlutverk Lands og skógar samkvæmt lögum um náttúruvernd frá 2013 með síðari breytingum og einnig samkvæmt lögum um skóga og skógrækt frá 2019. Með birkiskógum er samkvæmt greinargerð með náttúruverndarlögum átt við þá skóga sem einkennast af náttúrulegri nýliðun og aldursdreifingu, þar sem eru meðal annars gömul tré og þar sem vex dæmigerður botngróður birkiskóga. Birki sé ein af fáum náttúrulegum trjátegundum á Íslandi og teljist birkiskógar til lykilvistkerfa á Íslandi. Besta leiðin til að vernda erfðalindir íslenska birkisins sé að stuðla að náttúrulegri útbreiðslu þess og varðveita leifar gamalla birkiskóga og erfðaefni þeirra.
Sérstakur vinnuhópur hjá Landi og skógi hefur það hlutverk að skilgreina sérstæða birkiskóga í samræmi við áðurnefnd lagaákvæði og í fyrstu atrennu hefur hópurinn afmarkað tíu skóga í þessum tilgangi. Þessar fyrstu tillögur stofnunarinnar sem hlotið hafa samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins eru nokkuð dreifðar um landið. Heildarflatarmál svæðanna er 7.396 hektarar af skógi og kjarri; það eru um 5% af flatarmáli birkiskóga á Íslandi. Sérstök vefsjá hefur verið sett upp þar sem skoða má þessa skóga á korti og finna upplýsingar um þá.
Tillögurnar eru unnar með hliðsjón af aldri skóga og sérstaklega er horft til svæða sem eru landfræðilega einangruð eða afskekkt en einnig svæða sem stendur ógn af uppblæstri og beit. Þar sem rannsóknir skortir á lífríki einstakra birkiskóga er ekki hægt að fullyrða um vistfræðilega sérstöðu hvers og eins.
Helstu gögn sem notuð voru við mat á aldri skóganna voru:
Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Íslandi sem gerður var upp úr mælingum hans frá árunum 1831 til 1843 og Hið íslenska bókmenntafélag gaf út í Kaupmannahöfn árið 1849.
Svokölluð herforingjaráðskort af Íslandi sem unnin voru í upphafi 20. aldar.
Birkikortlagning sem framkvæmd var af Skógræktinni og lauk árið 2015.
Af þeim tíu svæðum sem tilnefnd voru á þennan fyrsta lista yfir séstæða birkiskóga eru sex í einkaeigu. Þar vill Land og skógur vinna að verndun og friðun í samvinnu við eigendur og umráðendur lands.
Þessu starfi er alls ekki lokið því nefndur vinnuhópur hjá Landi og skógi verður áfram starfandi og er stefnt er að því að bæta við listann fleiri birkiskógum í fyllingu tímans.