Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Ferðaklúbburinn 4x4 tekur til hendinni í Þjórsárdal

14. júlí 2025

Árleg landgræðsluferð Ferðaklúbbsins 4x4 var að þessu sinni farin að Sandárstungu í Þjórsárdal 7. júní. Klúbburinn hefur í yfir 20 ár tekið virkan þátt í landgræðslu með því að dreifa áburði og sá fræi á gróðursnauð svæði, auk þess að gróðursetja birki, fyrst á Þórsmörk og nú í Þjórsárdal.

Frábær hópur fólks á öllum aldri kom til að leggja hönd á plóg, að sögn Berglindar Guðjónsdóttur, verkefnastjóra Bonn-verkefna hjá Landi og skógi. Í upphafi hafi verið haldin stutt kynning þar sem leiðbeint var um dreifingu tilbúins áburðar og hvaða svæði væru best fallin til gróðursetningar birkis. Einnig hafi verið leiðbeint um dreifingu á hvítsmárafræi. Smáranum sé ætlað að framleiða nitur sem auðgar jarðveginn og styður þannig við vöxt birkisins. Loks var farið yfir aðferðir við gróðursetningu víðistiklinga, sem lifa ásamt birkinu í svepprótarsamlífi sem styrkir vistkerfið sem verið er að byggja upp.

Birki gróðursett. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir

Þegar borin höfðu verið á 600 kíló af áburði, gróðursettar 1.400 birkiplöntur, stungið stiklingum af loðvíði og gulvíði og hvítsmárafræi sáð sem niturgjafa til framtíðar, tók hópurinn verðskuldaða nestispásu í fallegum lundi þar nálægt. Að því loknu var farið í sund og dagurinn endaði á grilluðu lambakjöti á hinu skógi vaxna og notalega tjaldsvæði í Sandártungu í Þjórsárdal.

Lagt upp í áburðardreifingu. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir

Berglind segir að starf Ferðaklúbbsins sé ómetanlegt þegar kemur að endurheimt gróðurlenda og sýnir vel hvernig útivistarfólk getur lagt sitt af mörkum til náttúruverndar. Um leið undirstrikar það ábyrgð á ferðalögum um landið í sátt og samlyndi við náttúruna.

Hlé frá gróðursetningarvinnu. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir

Ferðaklúbburinn 4x4 er félag áhugafólks um jeppaferðir og útivist sem stofnaður var árið 1980. Klúbburinn leggur áherslu á öryggi, náttúruvernd og fræðslu. Hann stendur reglulega fyrir ferðum og viðburðum sem styðja við ábyrga ferðamennsku og sjálfbæra umgengni við íslenska náttúru.

Við hlökkum til næstu landgræðsluferða með 4x4!

Vefur Ferðaklúbbsins 4x4

Meðfylgjandi myndir tók Berglind Guðjónsdóttir.

Hraustlegar bakkaplöntur bornar saman við efnilegt birki úr eldri gróðursetningu. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir
Ungt Jeppaklúbbsfólk við birkigróðursetningu. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir
Gróðursett með geispu. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir
Áburði dreift. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir
Dreifing á hvítsmárafræi. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir
Kvöldverður í Þjórsárdalsskógi eftir gróðursetningardag. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir