Lífið í skóginum - Fagráðstefna skógræktar 2026
26. janúar 2026
Skráning er hafin á Fagráðstefnu skógræktar 2026 fer fram á Stracta hótel Hellu dagana 18. og 19. mars. Þema fyrri dags ráðstefnunnar að þessu sinni verður lífið í skóginum í sinni fjölbreyttu mynd. Drög að dagskrá fyrri dagsins liggja nú fyrir og auglýst hefur verið eftir tillögum að erindum og veggspjöldum.

Skráning á ráðstefnuna fer fram á sérstöku eyðublaði – smellið hér.
Um ráðstefnuna
Fagráðstefna skógræktar er haldin í samstarfi Lands og skógar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Ráðstefnan er eins og heitið gefur til kynna vettvangur þekkingarmiðlunar og umræðu í skógargeiranum. Ráðstefnan hefur verið haldin frá því um aldamótin og hleypur til milli landshluta frá ári til árs. Síðast var hún haldin á Hallormsstað og þar áður á Akureyri.
Fyrirlestrar og umræður um eitt ákveðið þema mynda jafnan dagskrá fyrri dags ráðstefnunnar, sem að þessu sinni er „lífið í skóginum“ og snýr að þeim ótal þáttum sem snerta lífríki skóga í samhengi við bæði náttúru og mannlíf.
Seinni daginn er rými fyrir hvers kyns málefni sem tengjast skógum og skógrækt, rannsóknum, menntun, nýsköpun og tækni, með öðrum orðum öllu sem lýtur að skógartengdum málefnum. Opið er fyrir tillögur að erindum og veggspjöldum – sjá hér.
Dagskrá Fagráðstefnu skógræktar 2026 (drög)
Skráning
Ráðstefnugjaldið er kr. 28.000 og er hátíðarkvöldverður fyrri dag ráðstefnunnar innifalinn í verðinu. Ef honum er sleppt er gjaldið 20.000 krónur. Skráning fer fram á sérstöku eyðublaði. Krafa verður send í heimabanka.
Nemar greiða kr. 18.000 en kr. 10.000 ef hátíðarkvöldverði er sleppt. Skráning fyrir nema fer fram á sama eyðublaðinu.
Gisting
Gisting er í boði á Stracta hótel Hellu þar sem ráðstefnan fer fram. Þar má bóka gistingu með því að:
Senda skeyti á netfangið info@stractahotels.is.
Vitna skal í bókunarnúmer 70932468
Upplýsingar um greiðanda (er greiðandi fyrirtæki/félag/stofnun eða verður staðgreitt?)
