Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Færri tré – heitari Ósló

6. ágúst 2025

Talið er að hitabylgja sem geisaði í Ósló í Noregi í sumar hefði ekki þurft að koma eins hart niður á fólki í borginni eins og raunin varð. Mikið hefur verið fellt af trjám í borginni undanfarin ár sem gerir að verkum að sólin hitar meira en ella hefði verið. Borgaryfirvöld vilja snúa þróuninni við með auknum gróðri með fram götum og fleiri grænum svæðum.

Frá þessu var sagt í frétt á vef norska ríkisútvarpsins NRK 31. júlí. Fram kemur að frá árinu 2017 til 2021 hafi verið fjarlægð krónuþekja trjáa í Óslóarborg sem nemur samanlagt einum og hálfum ferkílómetra. Þetta samsvarar yfir 200 fótboltavöllum. Í júlí fór hitinn í borginni hæst í 32,9 gráður í forsælu samkvæmt mælingum norsku veðurstofunnar Meteorologisk institutt. Haft er eftir Håkon Mjelstad, veðurfræðingi hjá stofnuninni, að við slíkar aðstæður geti fólki stafað hætta af hitanum enda megi gera ráð fyrir að í sólinni hafi hitinn verið tíu gráðum hærri en í skugganum eða um 43 gráður.

Rætt er einnig við vísindamanninn Sourangsu Chowdhury sem hefur rannsakað hitafar í Ósló og meðal annars komist að því að meðalhiti að sumrinu sé 1,6 stigum hærri á gróðurlausum stöðum í borginni en þar sem vex gróður. Og það er ekki aðeins skugginn af trjánum sem dregur úr sólarhitanum heldur segir Schowdhury að jarðvegsraki skipti ekki síður miklu máli. Þar sem umhverfið er þurrt fer sólarorkan aðallega í að hita upp andrúmsloftið en þar sem er gróður og raki í jarðvegi fer hluti orkunnar í að breyta raka í gufu. Þetta þýðir að svæði í borginni þar sem er gróður og rök jörð eru svalari en þurr og gróðurlaus svæði.

Chowdhury hefur skoðað þrjú þúsund fjölmennustu borgir heims og í ljós kemur að gróður hefur farið minnkandi í fleiri norður-evrópskum borgum en Ósló, svo sem Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Helsinki og Gautaborg. Samhliða verða heitu svæðin í þessum borgum æ heitari. Af Suður-Evrópu er svolítið aðra sögu að segja. Hann nefnir sem dæmi að í Barselóna, Portó og Aþenu hafi heit svæði hitnað þrátt fyrir aukna gróðurþekju og jarðvegsraka. Það er talið skýrast af öðrum þáttum, svo sem hönnun borganna. Annars staðar hefur aukinn gróður og jarðvegsraki leitt til þess að meðalhiti hefur lækkað á heitustu blettunum, svo sem í Róm, Tórínó og Mílanó.

Í ljósi þess að horfur eru á hækkandi hita á komandi árum og áratugum telur veðurfræðingurinn Håkon Mjelstad að taka verði þessa hluti alvarlega. Gróður í þéttbýli sé eitt af því sem grípa megi til svo að milda megi afleiðingar loftslagsbreytinga. Hann nefnir að sú kæling sem verður á grænum svæðum eins og almenningsgörðum nái út fyrir mörk slíkra svæða því þaðan geti svalara loft borist um nágrennið.

Í frétt NRK er rætt við borgarfulltrúann Marit Kristine Vea borgarfulltrúa sem segir að þegar hafi verið brugðist við þessari þróun enda séu fleiri tré og efling náttúrunnar í borginni einfaldasta og ódýrasta ráðið gegn aðsteðjandi vanda á borð við hitabylgjur en líka til að taka við ofanvatni. Þegar hafi borgaryfirvöld markað stefnu um vistgötur þar sem verði meiri gróður í götusvæðinu og fjölgun grænna svæða.

Fréttin á vef NRK