Færeyskir menntaskólanemar fá þjálfun í endurheimt vistkerfa
10. desember 2024
Iðunn Hauksdóttir, sérfræðingur hjá Landi og skógi, hélt nýverið erindi á ráðstefnu um eflingu náttúrunnar sem haldin var í menntaskólanum í Vestmanna í Færeyjum. Nemendur skólans hafa fengið fræðslu um endurheimt vistkerfa og tekið þátt í verkefnum við að græða land.
Land og skógur á í formlegu samstarfi við Tjóðsavnið, þjóðminjasafn Færeyja, um sérstakt verkefni sem kallað er Lendisbati og snýst um endurheimt vistkerfa þar í landi. Markmið þess er að gera átak í landgræðslu á eyjunum, draga úr rofhættu, auka líffjölbreytni og efla bæði mólendi og votlendi.
Fyrir tveimur árum fóru Iðunn Hauksdóttir og Ágústa Helgadóttir, sérfræðingar hjá Landi og skógi, til Færeyja til að undirbúa aðgerðir við endurheimt gróðurs í stórri skriðu sem fallið hafði ofan við þorpið Syðradal á eynni Kalsoy. Verkefnið hefur verið kallað Skriðuverkefnið og þar hafa menntaskólanemar tekið þátt í að setja út tilraunareiti til að prófa mismunandi aðferðir við endurheimt í skriðunni. Auk ráðgjafar um slík verkefni hafa sérfræðingar Lands og skógar ráðlagt Færeyingunum um endurheimt votlendis.
Iðunn segir að ráðstefnan sem haldin var 22. nóvember í menntaskólanum í Vestmanna hafi verið nokkurs konar lokahnykkur á Skriðuverkefninu, í bili að minnsta kosti. Liður í því verkefni var að efna til samstarfs við nágrannalöndin og þannig kemur þátttaka fulltrúa frá Landi og skógi til skjalanna.
Á ráðstefnunni flutti Iðunn erindi um endurheimt vistkerfa á Íslandi sem hún kallaði Endurheimt vistkerfa — sögur frá Íslandi. Þar fór hún yfir sögu þessara mála á Íslandi og hver væri lykillinn að góðri endurheimt vistkerfa. Þá voru líka flutt erindi um endurheimtarverkefni í Færeyjum og þýðingu slíkra verkefna fyrir bæði landbúnaðinn og náttúru Færeyja. Ráðstefnunni lauk með pallborði.
Á meðfylgjandi myndum má sjá Iðunni Hauksdóttur ásamt Elsu Berg, starfsmanni Tjóðsavnsins og meistaranema í endurheimt vistkerfa við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem að auki er nýkjörinn borgarstjóri í Þórshöfn í Færeyjum. Þá er mynd af þátttakendum á ráðstefnunni og neðst svipmynd frá fallegum degi í Vestmanna.