Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
13. maí 2024
Endurheimt vistkerfa á landi hefur jákvæð áhrif á líf í ferskvatni, til dæmis stofna laxfiska í ám landsins sem Íslendingar bera ábyrgð á að vernda og efla.
Jóhann Helgi Stefánsson, sérfræðingur hjá Landi og skógi skrifar grein um þetta efni sem birtist í Bændablaðinu 24. apríl. Þar lýsir hann því hvernig landeigendur og veiðifélög geta aukið heilbrigði árkerfa í umsjón sinni með því að beita aðferðum endurheimtar vistkerfa.
Í greininni beinir Jóhann Helgi einkum sjónum að því hvernig endurheimtaraðgerðir á landi geta gagnast laxfiskum í ferskvatnsvistkerfum. Hann skrifar:
„Endurheimt vistkerfa á landi gerir það að verkum að aukning verður í hringrás næringarefna á svæðinu, þar sem sterk og öflug þurrlendisvistkerfi leiða af sér að aðliggjandi ferskvatnsvistkerfi verði öflugri og fæðuframboð fyrir laxfiska á mismunandi æviskeiðum tryggara. Endurheimt votlendis gerir það sömuleiðis að verkum að búsvæði ferskvatnslífvera stækkar. Votlendissvæði bjóða upp á fjölbreytt búsvæði sem hvort tveggja veitir skjól og næringu fyrir ferskvatnslífríki.“