Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Embla – kynbætt yrki af íslensku birki gróðursett í frægarð til fræframleiðslu

27. ágúst 2024

Í liðinni viku voru gróðursett fjögur hundruð birkitré á Tumastöðum í Fljótshlíð sem ætlað er að gefa fræ til framleiðslu á úrvalsbirki. Yrkið kallast 'Embla' og er árangur af kynbótastarfi sem miðað hefur verið að því að fá beinvaxið íslenskt birki með góðan vaxtarþrótt.

Emblufrægarðurinn á Tumastöðum. Ljósmynd: Brynjar Skúlason

Formlegar kynbætur á íslensku birki hófust árið 1987 á vegum félagsskapar sem kallaður var Gróðurbótafélagið undir forystu Þorsteins Tómassonar erfðavistfræðings. Þar voru fulltrúar frá Skógrækt ríkisins sem þá var og hét, Skógræktarfélagi Íslands, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, Garðyrkjufélagi Íslands, Garðyrkjuskóla ríkisins og Gróðrarstöðinni Mörk auk áhugafólks um bætt erfðaefni til garðyrkju og skógræktar í landinu. Þá lagði Skógræktarfélag Reykjavíkur mikilvægan skerf að þessu starfi með því að leggja til aðstöðu í Fossvogi.

Við kynbótastarfið voru valin móðurtré sem sýndu hraðan vöxt, voru einstofna, beinvaxin og gjarnan með ljósan börk. Þorsteinn Tómasson hefur allar götur síðan haldið áfram kynbótum á birki og plöntuuppeldið átt mikilvægt athvarf í Gróðrarstöðinni Mörk. Óhætt er að segja að Þorsteinn sé öllum öðrum fremur höfundur þessa góða yrkis, Emblu, sem rannsóknir hafa sýnt að þrífst vel um land allt og er bæði beinna og stórvaxnara en almennt gerist með íslenskt birki.

Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur og sviðstjóri rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi, gróðursetti Emblurnar 400 á hálfum hektara lands á Tumastöðum í Fljótshlíð í liðinni viku. Við verkið naut hann aðstoðar nokkurra úr starfsmannahópi Lands og skógar. Fjórir metrar eru á milli raða og um tveir og hálfur milli trjánna í röðunum.

Hrafn Óskarsson, ræktunarstjóri á Tumastöðum, handleikur efnilegar 'Emblur'. Ljósmynd: Brynjar Skúlason

Brynjar segir að trén þurfi væntanlega tvö til þrjú ár til að jafna sig á nýjum stað en búast megi við því að þau geti farið að gefa fræ innan fimm ára. Hann nefnir tvö atriði sem séu mikilvæg til að frægarður sem þessi skili því sem til er ætlast. Annars vegar þurfi að vera nægilegur fjöldi trjáa í frægarðinum og hins vegar sem minnst hætta á erfðablöndun frá trjám utan frægarðsins. Mjög lítið birki er á Tumastöðum og nágrenni, segir Brynjar, og með fjögur hundruð tré í frægarðinum megi því búast við góðu Emblufræi þaðan á komandi árum.

Eftir því sem betri efniviður fæst til ræktunar, því betur gengur að rækta trjáplönturnar upp af fræi í gróðrarstöð. Einnig má búast við að upp vaxi fallegri og hraustari skógur sem líklegri er til að gefa af sér nýtanlegar afurðir í framtíðinni.

Gróðursetning í frægarðinn. Julie Noë, starfsmaður Lands og skógar á Tumastöðum, og fjær Trausti Jóhannsson skógarvörður. Ljósmynd: Brynjar Skúlason