Dreifingarstöð á Krithóli endurnýjuð
3. júní 2025
Dreifing skógarplantna til skógarbænda um allt land stendur nú sem hæst en þó er uppihald þessa viku vegna norðanáhlaupsins sem gengur yfir landið. Nýverið var tekið í notkun nýtt útisvæði í dreifingarstöðinni að Krithóli í Skagafirði.

Um árabil hefur verið dreifingarstöð fyrir skógarplöntur á Krithóli sem er skammt sunnan Varmahlíðar í Skagafirði, í gamla Lýtingsstaðahreppi. Þangað hafa skógarbændur í firðinum sótt þær plöntur sem þeim hefur verið úthlutað hverju sinni. Anna Ragnarsdóttir og Ólafur Björnsson standa vaktina þar nú sem endranær en þau hafa séð um dreifingarstöðina í meira en 20 ár. Þau hófu sjálf skógrækt á Krithóli í lok síðustu aldar og gaman er að segja frá því að nýja útisvæðið er einmitt í skjóli þeirrar skógræktar.
Vegna annarra breytinga í búskapnum á Krithóli var ákveðið að finna dreifingarstöðinni nýjan stað og undir hana var tekið svæði nærri norðurmörkum lerkiskógar þar sem tré höfðu skemmst af snjóbroti. Þar eru aðstæður mjög góðar til að geyma og hirða um bakkaplöntur í skógarskjólinu.
Dreifingarstöðin að Krithóli er opin í mánuð, frá lok maí til lok júní, en þangað sækja bæði skógarbændur plöntur sínar og skila svo tómum bökkum að gróðursetningu lokinni. Í ár verða um 130.000 plöntur afhentar á Krithóli til skógarbænda í Skagafirði.
Á meðfylgjandi myndum sést dreifingarstöðin nýja og neðst stendur Johan Holst, skógræktarráðgjafi hjá Landi og skógi, ásamt þeim Önnu og Ólafi á malarplaninu sem útbúið var fyrir þessa nýju aðstöðu. Myndirnar tók annar skógræktarráðgjafi norðlenskur, Sigríður Hrefna Pálsdóttir.
