Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Doktorsverkefni um jarðvegsmótun birkiskógar

13. október 2025

Sólveig Sanchez varði nýlega doktorsritgerð sína í náttúru- og umhverfisfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hún fjallaði um jarðveg birkiskóga með sérstöku tilliti til kolefnis- og vatnsbúskapar jarðvegsins. Niðurstöður hennar sýna að jarðvegur gamalla birkiskóga er kolefnisríkur, vel þroskaður eða þróaður og heldur vel vatni. Hann er með öðrum orðum mjög heilbrigður.

Sólveig fræðir um jarðveg þroskaðs skógar í skoðunarferð sem farin var í tengslum við birkiráðstefnu NordGen í september 2025. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Ritgerðin er á ensku og ber titilinn Soil dynamics within Icelandic birch woodland chronosequences. Hún fjallar um mótun jarðvegsþátta við þróun skóglendis frá skóglausu landi til birkiskógar. Markmið rannsóknarinnar var að fylla upp í mikilvæg þekkingargöt er lúta að jarðvegi birkiskóga á Íslandi, meðal annars í tengslum við endurheimt náttúrulegs skóglendis. Rannsökuð voru tíu svæði á landinu þar sem finna mátti bæði skóglaust land, ungan skóg og skógarteiga eldri en sextíu ára.

Umtalsverð binding í jarðvegi

Í ljós kom að í efsta 30 sm jarðvegslagi gömlu birkiteiganna var umtalsvert kolefni bundið, 7,4 kíló á fermetra miðað við fimm kíló á skóglausa landinu. Árleg kolefnisuppsöfnun í laginu reyndist 0,04-0,07 kíló á fermetra á ári sem samsvarar 400-700 kílóum á hektara. Bindingin var að mestu leyti rakin til sortueiginleika (e. andic properties) og örefna í moldinni, þar á meðal málm-húmus knippa, sem juku stöðugleika kolefnis.

Af þessum niðurstöðum má ætla að kolefnisbinding í jarðvegi birkiskóga gæti numið um 7% af núverandi losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi ef það markmið stjórnvalda næst að birki þeki fimm prósent landsins. Rannsóknin sýnir líka að jarðvegurinn í gamla skóglendinu heldur mun betur í sér vatni en ungur skógur og skóglaust land. Ísig var þar mjög ört á sumrin vegna mikils holrýmis í jarðvegi og gróskumikils gróðurs á yfirborði sem örvar innflæðið og kemur í veg fyrir að ísigið stöðvist. Einnig sást að áfok eða rykfall hafði mikil áhrif á jarðvegseiginleika auk þess sem rykið grefur kolefnið sem stuðlar að því að það safnast upp í jarðveginum. Niðurstöðurnar sýna að í birkiskóglendi á Íslandi myndast kolefnisríkur og frjósamur jarðvegur með góða vatnsfræðilega eiginleika.

Rannsóknarsvæðin tíu voru dreifð um landið.

Áhugavert að skoða dýpra

Aðspurð um hvað helst megi læra af verkefninu segir Sólveig að margt sé hægt að læra um mikilvægi birkis fyrir heilbrigði jarðvegs. Þar að auki getum við lært margt um efnasamsetningu eldfjallajarðar á Íslandi, svo sem eðli allófans og málm-húmus knippa. Verkefnið veiti einnig mikla innsýn í áhrif áfoks á jarðveg birkiskóga. Varðandi framhald á þessari vinnu segir hún að margt langi hana að skoða nánar, svo sem að fara dýpra í jarðveginn en þrjátíu sentímetra á áfokssvæðum til að sjá hvort verulegar kolefnisgeymslur séu í dýpri lögum. Sömuleiðis vilji hún rannsaka nánar málm-húmus knippin í jarðveginum og vatnsfræði jarðvegsins, meðal annars til að vita hvort bæta megi aðferðafræðina við útreikning á því magni vatns sem er aðgengilegt plöntunum.

Sérfræðingur hjá LOGS

Sólveig tók nýlega við starfi sem sérfræðingur í kolefnisbúskap þurrlendisvistkerfa hjá Landi og skógi. Þar verður hlutverk hennar meðal annars að vinna úr gögnum sem safnað hefur verið í rannsóknarverkefnunum Mola og CO2lur (borið fram Kolur) og skrifa greinar út frá niðurstöðunum. Tölur sem fást úr þessari úrvinnslu verða hluti af loftslagsbókhaldinu.

En hvernig skyldi Sólveigu lítast á starfið og verkefnin?

„Mér líkar virkilega vel við starfið. Ég vinn með fólki sem ég þekki vel úr náminu og mér líður mjög vel hér. Mér finnst algjör heiður að geta unnið sem rannsakandi og verið hluti af loftslagsbókhaldi þjóðarinnar. Ég hlakka til komandi ára!“

segir Sólveig Sanchez. Landogskogur.is býður hana velkomna til starfa og óskar til hamingju með doktorsprófið.

Leiðbeinendur Sólveigar í doktorsverkefninu voru Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Jóhann Þórsson, sérfræðingur hjá Landi og skógi, Randy Dahlgren, prófessor við Kaliforníuháskóla í Davis, og Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Andmælendur við doktorsvörnina voru Paul A. McDaniel, prófessor við Idaho-háskóla og Graeme I. Paton, prófessor við háskólann í Aberdeen.

Hlekkur á doktorsritgerðina: Soil dynamics within Icelandic birch woodland chronosequences

Sólveig við vettvangsvinnu.