Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Bjarni Þór Austfirðingur ársins

26. febrúar 2024

Lesendur héraðsmiðilsins Austurfréttar völdu Bjarna Þór Haraldsson Austfirðing ársins fyrir tónleikahald og fleiri viðburði til eflingar geðheilbrigðismálum í fjórðungnum. Bjarni er verkefnastjóri stafrænna lausna hjá Landi og skógi.

Bjarni Þór Austfirðingur ársins 2023

Bjarni Þór býr og starfar á Egilsstöðum og vinnur þessa dagana ásamt samstarfsfólki sínu að því að sameina kerfi þeirra stofnana sem um áramótin sameinuðust í Land og skóg. En Bjarni hefur fleira á sinni könnu því hann hefur til dæmis skipulagt rokktónleika með ungu austfirsku tónlistarfólki og fleiri viðburði til að efla geðheilbrigðismál í fjórðungnum.

„Ég sver ég átti ekki von á þessu. Ég get viðurkennt að fyrsta hugsun mín var að ég ætti þetta ekki skilið. Það voru margir aðrir frábærir sem komu til greina auk þess sem það eru svo margir sem hafa gert þessa hugmynd að því sem hún er orðið, hljómsveitin og fleiri,“ segir Bjarni Þór í spjalli á vef Austurfréttar.

Í umfjöllun Austurfréttar kemur fram að upphaflega hafi Bjarni farið af stað með tónleikana til að gefa ungu fólki tækifæri til að koma fram. Síðan hvernig hugsunin að láta gott af sér leiða hafi komið inn í þetta. Geðheilbrigðismál séu í öðrum flokki en önnur heilbrigðismál og oft löng bið eftir aðstoð. Bjarni stóð ásamt fleirum fyrir málþingi um geðheilbrigðismál á síðasta ári og annað slíkt er áformað á þessu ári.

Landogskogur.is óskar Bjarna til hamingju með útnefninguna!

Meira á vef Austurfréttar, austurfrett.is.