Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Birkinu hjálpað af stað á Geitasandi

28. maí 2025

Landgræðsluaðgerðir á Geitasandi felast meðal annars í því að koma af stað framvindu birkis með gróðursetningu. Nýverið var borið á stóra birkigróðursetningu frá síðasta ári. Vel er fylgst með framvindunni.

Síðastliðið haust var gróðursett birki í um 33 hektara á Geitasandi á Rangárvöllum, meðal annars í melhóla. Nú nýverið var svo borinn tilbúinn áburður á allt gróðursetningarsvæðið. Að heilbera á landið hefur gefið góða raun þar sem áburðurinn nýtist bæði fyrir trén og landið í kring þannig að allur gróðurinn eflist. Borinn er á tvígildur áburður og miðað við að hver hektari fái um 50 kíló af nitri.

Birkplanta gróðursett á Geitasandi 2024. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson

Land og skógur leggur áherslu á að fylgjast með þeim svæðum sem stofnunin vinnur að verkefnum á til að tryggja framvindu á svæðunum. Þetta þýðir að ef talin er þörf á frekari uppgræðsluaðgerðum á tilteknum stað eða svæði verður brugðist við því til að árangurinn verði sem bestur.

Á myndbandi sem hér fylgir sést áburðardreifing eins og hún fer fram í verkefnum sem þessu, reyndar tekið í landi Kots. Land og skógur hefur þrjár dráttarvélar sem notaðar eru til að sinna áburðardreifingu, tvær á Suðurlandi og eina á Norðurlandi. Þar fyrir utan er samið við verktaka víða um land um dreifingu áburðar.