Birkifræ frá nemendum Sunnulækjarskóla
26. nóvember 2024
Talsvert af birkifræi hefur safnast í haust víða um land í átaki Lands og skógar um söfnun og sáningu á birkifræi. Skólahópar hafa víða nýtt þetta sem tækifæri til að vinna verkefni utan skólastofunnar og nýverið kom hópur frá Sunnulækjarskóla á Selfossi á starfstöð Lands og skógar þar í bæ með fræ sem þau höfðu safnað á Selfossi í haust.
Vel var tekið á móti hópnum og fengu þessir góðu gestir kynningu á því hvernig birkifræið verður nýtt til að breiða út birkiskóglendi. Þeim var líka sýnt hvaða leiðir eru farnar til að breyta örfoka landi í skóg, meðal annars hvernig blanda má birkifræi við kjötmjöl og slá þannig tvær flugur í einu höggi þegar kjötmjölinu er dreift er á svæðum eins og Hekluskógasvæðinu og víðar. Næringin í kjötmjölinu getur þá nýst birkifræinu til að spíra og komast í vöxt. Þar sem birkifræ er smátt og orkulítið er mikilvægt að það hafi einhvern aðgang að næringu, ekki síst í allrafyrstu skrefum sínum.
Þessa dagana er verið að safna saman fræi sem safnast hefur í söfnunarkassa á Olísstöðvum og í verslunum Bónus um allt land. Eftir er að taka saman magnið sem safnast hefur og upplýsingar um það verða birtar síðar. Á Norðurlandi eru áform um að nýta fræ sem þar hefur safnast við tilraunir með að blanda saman við það lífrænu efni og dreifa á svæðum þar sem Land og skógur vinnur að landgræðslu, svo sem á Hólasandi og söndum í Norður-Þingeyjarsýslu. Á Austurlandi var talsverðu fræi safnað á vegum Náttúrustofu Austurlands og ætlunin er að pakka því inn í hentugar umbúðir og bjóða skólahópum og öðrum að nýta það við sáningarverkefni á vordögum. Þetta eru góð dæmi hvernig nýta má samtakamátt almennings til að bæði safna fræi og koma því á svæði þar sem leitast er við að klæða landið birki og öðrum gróðri.
Auk söfnunar almennings hefur fræi af góðu birki verið safnað á vegum Lands og skógar. Til ræktunar á birki í gróðrarstöðvum er mikilvægt að fá eins kraftmikið fræ og völ er á, fræ sem spírar vel og hentar þar með vel til sáningar og plöntuuppeldis. Slíkt fræ er líklegast til að gefa af sér kraftmiklar plöntur sem með tímanum verða gjöfular á fræ og geta þannig sáð sér út svo að birkið geti breiðst áfram út af eigin rammleik.
Land og skógur þakkar nemendum í Sunnulæk kærlega fyrir framlag þeirra, sem og öllum þeim sem safnað hafa birkifræi í haust!