Birki gróðursett í lúpínu í tilefni sjálfbærniviku
30. apríl 2024
Í samvinnu við Land og skóg efndi ferðaþjónustufyrirtækið Midgard á Hvolsvelli til gróðursetningar á birkiplöntum í blíðuveðri miðvikudaginn 24. apríl á svæði sem fyrirtækið hefur tekið að sér til endurheimtar birkivistkerfis. Gróðursettar voru um 800 birkiplöntur.
Gróðursetningin var liður í sjálfbærniviku fyrirtækisins þar sem starfsfólkið fræðist um umhverfismál og leggur sitt af mörkum í þágu náttúru og umhverfis. Meðal annars fengu þau fræðslu um bokashi-jarðgerð en stóðu líka fyrir strandhreinsun og plokki.
Fyrirtækið hefur tekið að sér rofið svæði sem það mun á næstu árum græða upp og að lokum endurheimta birkivistkerfi. Tveir fulltrúar Lands og skógar, þau Helga Lucie Andrée Káradóttir héraðsfulltrúi og Magnús Þór Einarsson, verkefnastjóri endurheimtar skóga, aðstoðuðu við gróðursetninguna sem fór fram í blíðuveðri miðvikudaginn 24. apríl.
Svæðið sem gróðursett var í er á Geitasandi á Rangárvöllum. Lúpína er í jaðri svæðisins en þar hefur að öðru leyti ekki verið unnið að uppgræðslu hingað til. Birkið er gróðursett í lúpínuna og í framhaldinu verður unnið að því að búa svæðið allt undir gróðursetningu birkis. Fyrirtækið Midgard fær til sín erlenda hópa háskólanema vor og haust sem hingað koma til að læra um endurnýjanlegar orkuauðlindir og sjálfbærni. Þessir hópar munu leggja sitt til endurheimtarverkefnisins á Geitasandi líka.
Heimild: Helga Lucie Andrée Káradóttir
Ljósmyndir: Midgard