Birki breiðist út í Sandvatnshlíð
16. október 2025
Árangur af friðun og landgræðsluaðgerðum í Sandvatnshlíð á framafrétti Biskupstungnamanna sýnir sig í því að þar er birki nú farið að breiðast út og hæstu trén orðin á fjórða metra há. Utan þeirra níu hektara sem girtir voru af sést engin sjálfsáning birkis.

Hér sést vel munurinn á gróskumiklum gróðrinum innan girðingar þar sem unnið hefur verið að landgræðslu og landinu utan hennar þar sem engar aðgerðir hafa farið fram. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson
Svæðið sem um er rætt er brekkan rétt norðan við Sandvatn sem er í um 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Um svæðið liggur vegurinn að Hagavatni. Landið hefur að mestu leyti blásið upp en inn á milli mátti enn finna gróðurtorfur um aldamótin. Níu hektara svæði var girt af árið 2000 að tilstuðlan félagsmanna í Landgræðslufélagi Biskupstungna og þar með voru torfurnar í Sandvatnshlíð friðaðar.
Ástæða friðunarinnar var ekki síst sú að í torfunum mátti finna birki sem ástæða þótti til að varðveita. Torfur þessar gefa vísbendingu um ástand landsins á öldum áður, áður en stór hluti gróðurlendisins hvarf með jarðvegseyðingunni. Voru sumir á því að torfurnar myndu á endanum eyðast að fullu ef ekkert væri gert til að varðveita þær. Í kjölfar friðunarinnar stóðu félagar í Landgræðslufélaginu fyrir framkvæmdum en að sögn Garðars Þorfinnssonar, sérfræðings og héraðsfulltrúa hjá Landi og skógi, sýna gögn stofnunarinnar að þar var síðast unnið að landgræðsluaðgerðum árið 2009.

Rofabarð á fallanda fæti utan girðingar á bökkum Sandvatns. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson
Uppgræðsla
Helstu aðgerðirnar til gróðureflingar í Sandvatnshlíð hafa verið þessar:
Dreifing á tilbúnum áburði og grasfræi, ýmist með dráttarvél eða höndum.
Heyrúllum dreift í rofabörðin og þeim lokað.
Gróðursetning á lúpínu.
Gróðursetning á birki.
Rofbörð barin niður með lítilli beltagröfu.

Brúnir rofabarðs brotnar niður með lítilli beltagröfu og borið í sárin. Ljósmynd: Elínborg Guðmundsdóttir.
Garðar segir að nú sé birki farið að sá sér út innan girðingarinnar sem er ekki nema um níu hektarar að stærð. Utan hennar segist hann ekki hafa séð sjálfsáð birki. Hins vegar sé lúpínan farin að sá sér rólega út fyrir girðinguna.
Stærstu trén eru nú á fjórða metra á hæð og árangurinn af þessum framkvæmdum segir Garðar að sé mjög góður. Ekkert hafi verið gert í landgræðslu á svæðinu undanfarin ár og óvíst um framhaldið. Hins vegar hafi félagar í Landgræðslufélaginu einnig unnið utan girðingarinnar þar sem þeir hafi náð að stöðva rof í gróðurtorfum með því að blása heyi í börðin. Á svæðum eins og Sandvatnshlíð segir Garðar að friðunin ein dugi alls ekki til að koma gróðurframvindu af stað. Hins vegar sé mjög áberandi hversu miklu meiri gróskan er innan girðingarinnar en utan hennar.

Stund milli stríða í landbótastarfi sem Pokasjóður styrkti. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson
Horfnir skógar
Í fyrra tölublaði Skógræktarritsins árið 1999 skrifa þeir Sturla Friðriksson og Grétar Guðbergsson grein með yfirskriftinni Fornir skógar í Sandvatnshlíð. Svæðið sé að mestu berangursmelar, eggjagrjót og auðar klappir en á stöku stað megi þó sjá naktar moldir og gróðurleifar á háum jarðvegstorfum. Sýnt hafi verið fram á að skógur hafi vaxið í hlíðunum við Brunnalæki nokkrum kílómetrum austar og þar hafi fundist allverulegar leifar af koluðum viði og kolgrafastæði. Fornir máldagar og heimildir frá síðari öldum sýni að á þessum slóðum hafi verið nytjaður skógur sem að mestu hafi verið horfinn um miðja nítjándu öld.
Sturla og Grétar telja að fyrr á öldum geti „vel hafa verið samfellt gróið svæði frá Sandvatni og allt austur undir Hvítá, enda þótt nytjaskógur hafi þar aðeins verið á skjólbestu stöðunum“. Þeir félagarnir fóru um svæðið og réðu af kolaleifum sem þeir fundu að trén á svæðinu hefðu verið hægvaxta og varla miklu meira en tveir metrar á hæð. Sem fyrr segir eru hæstu birkitrén í Sandvatnshlíð nú á fjórða metra en þau hafa nú verið í friði fyrir ásókn skepna og manna í aldarfjórðung.
Fornir skógar í Sandvatnshlíð - Skógræktarritið 1-1999 bls. 79

