Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Bætt loftslagsbókhald landnotkunar

29. ágúst 2025

Í nýútgefnum bráðabirgðatölum um losun vegna landnotkunar á Íslandi árið 2024 kemur fram að losunin var svipuð og árið áður. Aftur á móti sýna ný gögn nú að áhrif beitar á losun óraskaðs votlendis í yfir 200 metra hæð yfir sjó eru hverfandi og lækka losunartölur vegna þess verulega.

Parísarsáttmálanum fylgja þær skuldbindingar að unnt þarf að vera að gera grein fyrir áhrifum landnotkunar á losun gróðurhúsalofttegunda. Þar er koltvísýringur (CO₂) fyrirferðarmestur, en einnig er metan (CH₄) og hláturgas (N₂O). Land og skógur hefur það hlutverk að safna þessum upplýsingum saman og skrá í loftslagsbókhald Íslands.

Í bókhaldinu er fylgt reglum IPCC, milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Upplýsingar eru byggðar á bestu aðgengilegum gögnum hverju sinni. Land og skógur vinnur jafnframt að fjölda rannsókna og umbótaverkefna sem jafnt og þétt er ætlað að auka nákvæmni bókhaldsins. Það er því í stöðugri þróun í takti við aukna þekkingu á áhrifum landnotkunar á náttúru Íslands. Allar breytingar og leiðréttingar eru gerðar aftur í tímann svo lesa megi raunverulegar breytingar á losun og bindingu í réttu samhengi.

Þær tölur sem birtar eru ár hvert endurspegla stöðuna tveimur árum áður; þannig voru gögnin sem birtust í vor byggð á stöðunni 2023. Á miðju ári eru svo gefnar út bráðabirgðatölur fyrir næsta ár á eftir. Þær bráðabirgðatölur sem nú eru birtar eru þannig byggðar á gögnum fyrir árið 2024. Þær benda til þess að losun gróðurhúsalofttegunda standi nokkurn veginn í stað frá árinu 2023 til 2024. Ef litið er til flokksins „losun vegna landnotkunar“ bendir allt til þess að losun árið 2024 hafi verið um 6,3 milljónir tonna CO₂-ígilda, sem er svipað og árið 2023.

Tvær breytingar voru þó gerðar á bókhaldinu sem valda nokkrum breytingum innan þess. Í fyrsta lagi var gerð breyting á undirflokknum „mólendi í beitarnýtingu“ sem inniheldur auk mólendis graslendi og framræst votlendi sem nýtt er til beitar. Í öðru lagi varð breyting á undirflokknum „votlendi í nýtingu“.

Mólendi

Unnið er markvisst að því að bæta gögn fyrir landnýtingarflokkinn „mólendi“. Þekking á áhrifum landnýtingar á losun gróðurhúsalofttegunda frá þessum flokki hefur verið brotakennd og ekki næg til að hægt væri að setja fram losunarstuðla byggða á íslenskum gögnum. Einnig hefur skort gögn til að greina á milli þess lands sem er nýtt til beitar og þess sem er friðað. Fram að þessu hefur verið gert ráð fyrir að losun og binding væri í jafnvægi í þessum flokki en nú hafa gögn fyrir bæði ástand lands og nýtingu verið tekin með í reikninginn. Niðurstaðan er sú að í stað þess að mólendi teljist vera í jafnvægi telst það nú sýna bindingu. Með aukinni þekkingu mun nákvæmni þessara gagna batna á næstu árum og vænta má fleiri breytinga á næstu árum.

Votlendi

Töluvert af óröskuðu votlendi er nýtt til beitar á Íslandi og þar valda náttúrulegir ferlar því að gróðurhúsalofttegundin metan losnar jafnt og þétt. Fram til síðasta árs var þessi losun talin stafa af landnýtingunni en með endurskoðun framtalsreglna loftslagsbókhaldsins telst beit í votlendi nú ekki hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda heldur einungis framkvæmdir sem breyta jarðvatnsstöðu. Þar með er ljóst að til þessa flokks teljast nú einungis uppistöðulón yngri en 20 ára og endurheimt votlendi. Þessi leiðrétting kemur í kjölfar breytinga sem gerðar voru á síðasta ári þar sem Ísland fékk því framgengt að óraskað votlendi í yfir 200 metra hæð yfir sjó var undanskilið beitarnýtingu þar sem ný gögn sýndu fram áhrif beitar á þessa losun voru hverfandi. Við þessa breytingu lækkar losun í þessum flokki úr 702 þúsund tonnum í um 17 þúsund tonn.

Ítarlegri upplýsingar um nýjar bráðabirgðatölur um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi 2024 er að finna á vef Umhverfis- og orkustofnunar. Sagt er frá tölunum í frétt á vef umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og jafnframt er umfjöllun í Bændablaðinu sem kom út 28. ágúst.