Athugasemd við frétt RÚV
4. febrúar 2025
Í ljósi fréttar Ríkisútvarpsins 2. febrúar með fyrirsögninni „Kolefnisbinding mun meiri í beitilandi en skógi“ hefur Land og skógur tekið saman athugasemdir sem komið hefur verið á framfæri við fréttastofu RÚV. Starfsfólk Lands og skógar vill stuðla að vandaðri umfjöllun og hvetja til árangursríks samtals um þá mikilvægu málaflokka er snúa að landgræðslu og skógrækt.


Kolefnisbinding í gróðurlendi verður fyrir tilstilli ljóstillífunar plantnanna sem nota sólarljós, vatn og koltvísýring til að búa til súrefni og orku í formi sykurs. Kolefnið nota plönturnar sem meginbyggingarefni í vefjum sínum. Það er ekki komið úr moldinni heldur loftinu. Í landvistkerfum byggist kolefnisforði upp í bæði plöntunum sjálfum og í jarðvegi. Þar sem vöxtur gróðurs og uppsöfnun plöntuleifa er meiri en rotnun verður binding í kerfinu meiri en losun. Það köllum við nettóbindingu kolefnis.
Heilbrigð vistkerfi sem njóta verndar eða eru nýtt á sjálfbæran hátt binda almennt umtalsvert kolefni. Þetta gildir um ýmsar tegundir vistkerfa, til dæmis íslenskan móa og graslendi. Rofinn mói eða graslendi er hins vegar líkleg uppspretta kolefnislosunar. Þegar litið er til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með gróðri er oftast horft til tveggja lykilvistkerfa, annars vegar votlendis og hins vegar skóglendis. Við framræslu votlendis kemst súrefni að þeim gróðurleifum sem hafa safnast upp í kerfinu og rotnun hefst, rotnun sem losar gífurlegt magn kolefnis. Við endurheimt votlendis hækkar vatnsstaðan, þetta mikla niðurbrot hættir og þar af leiðandi losunin úr vistkerfinu. Við vöxt skóga verður mikil nettóbinding. Í skóginum binst kolefnið bæði í þeim stórvöxnu lífverum sem trén eru og í jarðveginum.
Báðar þessar aðferðir, skógrækt og endurheimt votlendis, hafa áhrif í baráttu jarðarbúa við loftslagsbreytingar. En til að slík verkefni séu ábyrg og áreiðanleg þarf binding í hverju landi fyrir sig að vera studd vönduðum mælingum og allar aðferðir studdar rannsóknum sem birst hafa í ritrýndum vísindaritum. Mælingar sýna að íslenskir skógar binda mikið kolefni og bindingin vex ár frá ári með vexti skóganna á sama hátt og endurheimt votlendis leiðir til samdráttar í losun. Áhrif beitar á losun og bindingu kolefnis í vistkerfum hefur verið mikið rannsökuð erlendis. Íslenskar rannsóknir hafa líka sýnt að beit getur ýmist leitt til aukinnar losunar, haft engin áhrif eða leitt til aukinnar bindingar, allt eftir því hvers eðlis beitilandið er og hvernig beit er stýrt.
Tölum úr loftslagsbókhaldi landa er skilað til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem gerir mjög strangar kröfur til þeirra aðferða sem beitt er við öflun gagnanna og framsetningu þeirra.
Villandi orðalag í frétt
Eftirfarandi orðalag í umræddri frétt Ríkisútvarpsins er villandi:
Trjáplönturnar vinna sig upp á kolefninu sem graslendið hefur þegar bundið og jarðvegurinn er að minnka og kolefnið færist upp í stofninn.
Af kolefnisforða graslendis er vissulega stærra hlutfall kolefnisins bundið í jarðveginum en í kolefnisforða skógar. Það þýðir þó ekki að trén taki þetta kolefni úr jarðveginum og flytji það upp í stofn og greinar. Tré eru að langmestu leyti kolefni og stærstur hluti trjánna er ofanjarðar þótt drjúgur hluti þeirra sé líka í formi róta neðanjarðar. Lifandi trjárætur eru ekki hluti af skilgreindum kolefnisforða jarðvegs heldur eru þær hluti af trjánum. Allur þessi kolefnisforði er engu að síður kominn úr andrúmsloftinu með ljóstillífun sem drifin er orku sólarinnar.
Rétt er að við skógarhögg í skógi sem nytjaður er á sjálfbæran hátt tapast hluti kolefnisins úr vistkerfinu tímabundið. Í skógrækt eru aðferðir við skógarhögg að breytast og æ meir er horft til þess að fella stök tré í stað þess að fella skóg á samfelldum svæðum. Einnig fer það eftir því í hvað viðurinn er notaður hvort kolefnið helst bundið til skemmri eða lengri tíma í afurðum skógarins svo sem í húsbyggingum eða losnar fljótt aftur út í andrúmsloftið eins og þegar viður er brenndur. Brennsla viðar er þó alltaf betri en brennsla olíu.
Notkun timburs í mannvirki hefur mun minni loftslagsáhrif en notkun stáls og steinsteypu. Ef nýting skógar er sjálfbær hefst nýtt tímabil bindingar á sama svæði í formi nýskógræktar eftir skógarhöggið. Sjálfbær nýting timburs úr skógi leiðir til stöðugrar nettóbindingar skógar þegar til lengri tíma er litið. Í stað þess að gömul tré drepist og rotni í skóginum eru þau felld þegar þau hafa tekið út mesta vöxtinn og ný tré með nýjan vaxtarþrótt vaxa upp í staðinn. Í ónytjuðum skógi dregur hins vegar mjög úr bindingunni þegar skógurinn er fullvaxinn. Þegar skógurinn hefur náð því stigi bindur hann því ekki mikið nýtt kolefni þótt í honum sé áfram geymdur dýrmætur kolefnisforði. Aðalatriði er að beitt sé aðferðum sjálfbærni.
Skógrækt ekki á ræktuðu landi
Almennt hefur skógrækt farið fram á úthaga á Íslandi þótt einhver dæmi megi finna um að aflögð tún hafi verið tekin til skógræktar. Nú er skógrækt orðin mikilvægur hluti af landbúnaði og afkomu á einstaka jörðum og kemur ekki niður á matvælaframleiðslu búanna eða öðrum búgreinum. Land og skógur vinnur nú að því í samstarfi við aðra aðila að kortleggja framtíðarræktarland á Íslandi og í drögum að nýjum gæðaviðmiðum við val á landi til skógræktar er einmitt tekið fram að ekki eigi að nýta gott ræktarland til skógræktar nema til ábata fyrir akuryrkju og búfjárrækt. Þá má benda á að ræktaða skóga er hægt að fella og nýta landið til annars. Á Íslandi verður áfram brýnt verkefni að breiða út birkiskóga og rækta að auki skóga til nytja, skjóls og hagsbóta.
Góð yfirsýn, skipulag og rannsóknir
Í frétt Ríkisútvarpsins koma fram efasemdir um aðferðir við skógrækt á Íslandi, þekkinguna sem beitt er, skipulag skógræktar, umfang hennar og bindingu skóganna. Því er rétt að koma skýrt á framfæri að skógar á Íslandi eru vandlega kortlagðir, bæði hinn villti birkiskógur sem og gróðursettur skógur. Skráning skóganna er með því besta sem gerist í heiminum og þar er byggt á rúmlega aldargömlum grunni þekkingar og aðferða frá nágrannaþjóðum okkar í Skandinavíu. Upplýsingar má finna á opinberum vefsjám. Skógarnir eru vaktaðir með skipulegum hætti og nýskógrækt færð inn í gagnagrunn árlega. Áhrif skógræktar eru metin í vöktunarverkefnum eins og Íslenskri skógarúttekt þar sem mældir eru um 200 mælireitir árlega um land allt.
Einnig eru sérstök rannsóknaverkefni á borð við Skógvist þar sem könnuð eru áhrif skóga á vistkerfin. Niðurstöður rannsókna og mælinga eru notaðar til að þróa áfram skógrækt á Íslandi. Þá eru öll skógræktarverkefni bundin margvíslegum ákvæðum í lögum og reglugerðum sem kveða á um aðal- og deiliskipulag, minja- og náttúruvernd og fleira. Skilyrði fyrir nýjum skógræktarverkefnum er framkvæmdaleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi.
Hvað málefni landnýtingar snertir er mjög mikilvægt að stuðst sé við bestu þekkingu á hverjum tíma og öll umræða sé fagleg þar sem bornir eru saman sambærilegir hlutir, nauðsynlegrar þekkingar aflað þar sem hana skortir og sanngirni gætt. Hin vísindalega aðferð og vísindalegt siðferði er líka lykillinn að því að stöðugt bætist í þekkingargrunninn. Land og skógur vinnur nú að því að efla þekkingu á kolefnisbúskap jarðvegs í mismunandi vistkerfum, bæði í votlendi, skógi og öðru þurrlendi. Með betri gögnum verða þær tölur um kolefnisbókhald sem Ísland skilar inn í alþjóðlegt loftslagssamstarf sífellt betri og áreiðanlegri.
Spurningar og svör
Til að taka saman helstu atriðin sem Land og skógur gerir athugasemdir við í umræddri frétt eru hér nokkrar spurningar og svör út frá nokkrum fullyrðingum viðmælanda í fréttinni.
Hlýst meiri kolefnisbinding af beit en skógrækt?
Það er ótvírætt að mjög mikið kolefni binst í ræktuðum skógum á Íslandi. Árleg binding í skógunum nálgast nú hálfa milljón tonna. Binding í úthaga á Íslandi fer mjög eftir ástandi lands á hverju svæði og landnýtingu þar. Fátt virðist fast í hendi um að beit sé öflugri aðferð til aukinnar kolefnisbindingar en skógrækt eða önnur sjálfbær landnýting.
Segir skoska greinin okkur ekki að miklu meiri binding sé í jarðvegi graslendis en skóga?
Fleiri rannsóknir en sú skoska hafa bent til að kolefnisbinding í jarðvegi geti verið meiri í graslendi en skóglendi. Hins vegar er heildarbinding vistkerfis skógarins ávallt metin meiri en heildarbinding graslendis í þessum sömu rannsóknum. Þegar kolefnisbinding vistkerfa er skoðuð þarf að skoða heildarmyndina. Því dugar ekki að horfa eingöngu til jarðvegsins.
Töpum við ekki kolefninu úr jarðveginum með því að rækta skóg á áður beittu landi?
Jú, mögulega ef við lítum eingöngu til jarðvegsins. Mestu máli skiptir þó heildarbindingin í kerfinu, varanleiki hennar og að landnýtingin sé sjálfbær. Stundum er talin þörf á jarðvinnslu til undirbúnings skógræktar til að tryggja lifun trjánna og nýtingu fjármuna. Öll röskun á jarðvegi leiðir til tímabundinnar losunar. Þetta á við um skógrækt rétt eins og aðra ræktun. Aukin ofanjarðarbinding sem á sér stað í trjánum vinnur þetta tap fljótt upp ef vandað er til skógræktarinnar. Ef vistkerfi breytist úr einni tegund í aðra þannig að kolefnisforðinn verður hlutfallslega meiri ofanjarðar en áður var getum við ekki talað um tap á kolefni og sleppt því að líta á heildarmyndina. Vistkerfi eru ólík og hér skiptir nettóbinding alls kerfisins mestu máli ásamt því að landnýtingin sé sjálfbær. Land og skógur vinnur að því með rannsóknum að auka þekkingu á kolefnisbúskap jarðvegs á Íslandi, meðal annars með úrvinnslu úr jarðvegssýnum sem tekin hafa verið í Íslenskri skógarúttekt um árabil.
Höfum við yfirsýn um það hversu mikið hefur verið ræktað af skógi á landinu?
Já. Mjög nákvæmar skýrslur eru til um allar gróðursetningar í skógrækt á Íslandi. Vel er vitað hversu mikið er framleitt af skógarplöntum og hverjir kaupa þær eða fá til gróðursetningar. Í dag er nákvæmlega kortlagt allt sem gróðursett er, bæði einkaverkefni og þau sem njóta stuðnings frá hinu opinbera. Gróðursetningarnar eru hnitaðar með GPS-tækni og teknar út af skógfræðingum til að meta árangurinn. Íslensk skógarúttekt heitir áðurnefnt verkefni þar sem fylgst er með öllu skóglendi á Íslandi og gagna aflað um bindingu sem skilað er til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Náttúrulegt birki er líka reglulega kortlagt og vel fylgst með útbreiðslu þess, en birkið er nú mjög að breiðast út með minnkandi beit á landinu.
Er skógur ekki ræktaður á ræktarlandi sem miklu hefur verið kostað til ræktunar á?
Nei. Á Íslandi er ræktarland á borð við tún og akra nánast ekkert nýtt til skógræktar. Skógrækt fer að langmestu leyti fram á heimalöndum bænda, öðrum en ræktuðu landi, svo sem í mólendi, á rofnu og uppblásnu landi.
Gerir skógrækt landinu eitthvað gott?
Já. Skóginum fylgir skjól fyrir annan gróður og skepnur ásamt aukinni grósku sem smitast í annað gróðurlendi á jörðunum og eflir líka útivistarmöguleika. Með skóginum byggist upp verðmæt auðlind sem mun í framtíðinni draga úr þörfinni á innfluttu timbri, draga úr losun vegna flutninga og veita skógareigendum bæði atvinnu og tekjur. Nú er að hefjast verkefni í samvinnu við Háskóla Íslands þar sem metin verður vistþjónusta skóga, það er að segja verðmæti skóga Íslands fyrir mannlíf og náttúru. Niðurstöðurnar munu gagnast til að leggja hlutlægt mat á virði skóga og skógræktar í framtíðinni.
Er ekki brýn nauðsyn að ná yfirsýn yfir skógrækt á Íslandi?
Vissulega er yfirsýn nauðsynleg og hún er fyrir hendi. Eins og fyrr segir er skógrækt á Íslandi vel skipulögð og kortlögð. Um hana gilda nýleg lög um skóga og skógrækt en einnig bæði lög og reglugerðir sem varða skipulag, fornminjar, náttúruvernd og fleira. Skógræktarverkefni þurfa að ganga í gegnum ítarlegt skipulagsferli hjá sveitarfélögum með aðkomu ýmissa stofnana og umsagnaraðila. Nú er unnið að því að búa til íslenskan skógræktarstaðal til að tryggja enn betur gæðamál í skógrækt. Sömuleiðis er unnið að gæðaviðmiðum um val á landi til skógræktar. Þá hefur Landi og skógi verið falið að kortleggja ræktarland á Íslandi sem ætti að gefa enn betra færi á að standa vörð um ræktarland til matvælaframleiðslu. Einnig er unnið að bæði lands- og svæðisáætlunum um skógrækt og landgræðslu. Stöðugt er unnið að ýmiss konar vöktun ólíkra vistkerfa, meðal annars til að afla betri þekkingar á kolefnisbúskap þeirra, auk eðlis þeirra og ástands. Rannsóknarverkefni eru í gangi til að kanna áhrif skógræktar á líffræðilega fjölbreytni og fleira mætti nefna.
Er beit góð leið til kolefnisbindingar?
Áhrif beitar á losun og bindingu kolefnis í vistkerfum hafa verið mikið rannsökuð erlendis og líkt og íslenskar rannsóknir hafa bent til getur beit leitt til aukinnar losunar, haft engin áhrif eða leitt til aukinnar bindingar, allt eftir því hvaða landgerð er beitt og hvernig beitarstýringu er háttað. Á Íslandi er vafalaust hægt að binda kolefni í jarðvegi samhliða beit. Til að það gerist þarf hins vegar bæði góða beitarstýringu og gott óframræst beitiland.
Starfsfólk Lands og skógar vill stuðla að vandaðri umfjöllun og hvetja til árangursríks samtals um þá mikilvægu málaflokka er snúa að landgræðslu og skógrækt. Sýn okkar er að byggja samtalið á þeirri bestu vísindalegu þekkingu sem til er á hverjum tíma og hvetjum við aðra til hins sama. Við erum ávallt reiðubúin að veita upplýsingar um hvaðeina sem að þessu snýr, sé eftir því leitað.
Fyrir hönd Lands og skógar,
Ágúst Sigurðsson, forstjóri, Bryndís Marteinsdóttir, sviðstjóri sjálfbærrar landnýtingar, Brynjar Skúlason, sviðstjóri rannsókna og þróunar, Pétur Halldórsson, kynningarstjóri