Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Alþjóðlegur dagur jarðvegs – heilbrigður jarðvegur í þéttbýli

5. desember 2025

Fimmti desember er alþjóðlegur dagur jarðvegs (World Soil Day) haldinn undir forystu FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á mikilvægi jarðvegs fyrir lífríki jarðar, loftslagsmál, framleiðslu á mat og sjálfbæra nýtingu náttúrunnar. Þótt sjaldan sé talað um jarðveginn er hann ein af grunnstoðum vistkerfa og ein sú auðlind sem skiptir mannkynið mestu máli. Að þessu sinni er sjónum beint sérstaklega að jarðvegi í þéttbýli.

Heilbrigður jarðvegur í þéttbýli er þema alþjóðlegs dags jarðvegs í ár. Mynd: FAO

Þema dagsins 2025 er með öðrum orðum heilbrigður jarðvegur fyrir heilbrigðar borgir og bæi. Með því er athygli sérstaklega vakin á hlutverki jarðvegs í þéttbýli og þeim ógnum sem felast í því að loka jarðveginn af með uppbyggingu þéttbýlis. Jarðvegur í þéttbýli ýtir undir mikilvæga vistkerfisþjónustu, nýtist til ræktunar á matvælum, hann síar og hreinsar vatn, geymir í sér kolefni, temprar hitasveiflur og fóstrar fjölbreytni lífríkisins. Dagur jarðvegs 2025 er því herhvöt til forystufólks, vísindafólks, samfélags og almennings um að endurhugsa umhverfið í þéttbýlinu með hlutverk jarðvegsins í huga og vinna að því að fólk og náttúra geti þrifist saman í heilbrigðum borgum framtíðarinnar.

Jarðvegur er yfir og allt um kring í starfsemi Lands og skógar. Hvort sem við nefnum endurheimt vistkerfa, birkiskóga eða votlendis, landgræðslu og skógrækt, allt byggist þetta á því að styrkja og vernda jarðveg svo hann geti bundið kolefni, fóstrað fjölbreytt lífríki og skapað heilbrigð vistkerfi á landi til framtíðar. Á undanförnum árum hefur stofnunin aukið áherslu á rannsóknir, vöktun og fræðslu um jarðveg, meðal annars í tengslum við endurheimt birkivistkerfa, uppgræðslu rofins lands og ræktun nýrra skóga.

Í tilefni dagsins hvetur Land og skógur fólk til að staldra við og velta fyrir sér hvernig jarðvegur snertir líf okkar á ótal vegu, allt frá framleiðslu á mat og fóðri upp í aðgerðir til að verjast loftslagsbreytingum. Heilbrigður jarðvegur er ekki nokkuð sem við getum gengið að vísu. Hann er vísbending um að vel sé hlúð að landinu, það nýtt á sjálfbæran hátt og vistkerfin heilbrigð, líka í þéttbýlinu.

Vefur alþjóðlegs dags jarðvegs 2025

Mikilvægi jarðvegs í þéttbýli verður seint ofmetið. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.