Ákall um nýja Þjóðargjöf
6. desember 2024
Á nýafstöðnu málþingi um Þjóðargjöfina var rætt að efna þyrfti til nýrrar þjóðargjafar til að styðja við uppgræðslu lands, endurheimtar vistkerfa og aukinnar skógræktar.
Land og skógur stóð fyrir málþinginu á alþjóðlegum degi jarðvegs 5. desember í tilefni af því að nú er hálf öld liðin frá því að efnt var til Þjóðargjafarinnar. Á ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar samþykkti Alþingi sérstaka fjárveitingu til verkefnisins sem ætlað var að bæta fyrir þá gróður- og jarðvegseyðingu sem orðið hafði frá landnámi. Með því átti að „greiða skuldina við landið“.
Í nafni Þjóðargjafarinnar var unnin landgræðsluáætlun til fimm ára. Fjármunir úr Þjóðargjöfinni runnu til Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landverndar og Búnaðarfélags Íslands. Ráðist var í umfangsmiklar aðgerðir til að friða land fyrir ágangi búfjár, endurheimta gróður dreifa áburði og fræi, vinna að rannsóknum á jarðvegi og gróðri, styrkja ræktun á efniviði til landgræðslu og skógræktar og efla félagsstarf og samstarf við landbúnaðinn.
Málþingið fór fram í Norræna húsinu í Reykjavík og var salurinn nærri fullsetinn. Ágúst Sigurðsson, forstjóri Lands og skógar, ávarpaði málþingið í upphafi og svo talaði Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri sem sat í samstarfsnefnd um Þjóðargjöfina á sínum tíma. Ása Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskólann, fjallaði um rannsóknir í skógrækt og landgræðslu sem nutu stuðnings Þjóðargjafarinnar og Sigþrúður Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Landi og skógi sagði frá beitarrannsóknum. Formaður Landverndar, Björg Eva Erlendsdóttir, talaði því næst um náttúruvernd. Að loknu kaffihléi fræddi Olga Kolbrún Vilmundardóttir, sérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, um vistgerðarkortið af Íslandi. Trausti Jónsson, skógarvörður Lands og skógar á Suðurlandi, flutti svo erindi um útivistargildi skóga og loks fjölluðu tveir sérfræðingar Lands og skógar um vöktunar- og hvataverkefni stofnunarinnar, þær Rán Finnsdóttir og Helena Marta Stefánsdóttir.
Athygli vakti á málþinginu sú yfirsýn sem þar var gefin um þá miklu þekkingu sem hefur verið safnað á þessum 50 árum um náttúru og ástand landsins. Einnig hversu mörgum vöktunarstöðum Land og skógur heldur úti á landinu (3.270 talsins) eins og sjá má á þessu korti:
Fáum nýja Þjóðargjöf og sýnum betur árangurinn!
Mikil ánægja var meðal gesta á málþinginu og hugur í fólki að nú yrði að efna til nýrrar Þjóðargjafar svo gera mætti nýtt átak í uppgræðslu lands, endurheimt vistkerfa og aukinni skógrækt. Einnig var rætt um að vekja þyrfti meiri athygli á því sem verið væri að gera og þeim árangri sem hefði náðst.
Fremst í flokki við undirbúning ráðstefnunnar stóðu Fífa Jónsdóttir og Ágúst Sigurðsson á myndinni að ofan má sjá þau ásamt frummælendum á málþinginu. Að neðan eru svo myndir sem sýna árangur á svæði við Gullfoss þar sem uppgræðslustarfið var styrkt með fé úr Þjóðargjöfinni. Þær sýna sama svæði 1975 þegar rutt var úr rofabörðum, aftur 2016 þegar landið hafði tekið við sér og loks nú í sumar þegar Garðar Þorfinnsson landgræðslufulltrúi og Áskell Þórisson, fyrrverandi starfsmaður Landgræðslunnar, fóru í pílagrímsferð á svæðið og Áskell með myndavélina.