Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Áhugasamir þátttakendur fræddust um jarðveg í Grasagarði Reykjavíkur

23. ágúst 2024

Um tuttugu manns fræddust um jarðveg og jarðvegslíf í fræðslugöngu sem Land og skógur stóð fyrir 14. ágúst í samvinnu við Grasagarðinn í Reykjavík með yfirskriftinni „Lífið í moldinni“. Fjallað var um kolefnisbindingu neðanjarðar, sveppi, bakteríur og fleiri jarðvegslífverur en þátttakendur fengu líka að kynnast aðferðum við jarðgerð á lífrænum heimilisúrgangi.

Fræðsluganga um jarðvegslíf í Grasagarði Reykjavíkur

Leiðbeinendur í fræðslugöngunni voru tveir sérfræðingar frá Landi og skógi, Brynja Hrafnkelsdóttir og Bjarki Þór Kjartansson, ásamt Björk Þorleifsdóttur, fræðslufulltrúa Grasagarðsins. Þátttakan mátti teljast góð því veðrið var heldur óhagstætt, kalt og rigning.

Meginmarkmiðið með fræðslugöngunni var að benda fólki á að jarðvegur væri ekki bara jarðvegur. Jarðvegur getur verið mjög breytilegur, ekki síst vegna þeirra lífvera sem í honum þrífast. Mikilvægt er að hvetja fólk til að huga að því mikla lífi sem við sjáum ekki berum augum en leynist undir yfirborðinu og skiptir mjög miklu máli.

Í göngunni fengu þátttakendur að þreifa á mismunandi gerðum jarðvegs, þurrum jarðvegi undir stóru grenitré, frjóum jarðvegi með plöntum, þéttum jarðvegi undir grasi og mjög frjóum jarðvegi þar sem lífrænn áburður er gefinn á hverju ári.

Fjallað var um kolefnisbindingu í jarðvegi sem gjarnan gleymist í umræðu um bindingu. Þar skipta rætur plantnanna miklu máli og í göngunni var gestum sýnt hversu stórt rótarkerfi trjáa er og efnismikið. Fjallað var um svepprætur og samlífi sveppa og háplantna þar sem fram fara mjög mikilvæg viðskipti milli sveppanna og plantnanna. Sveppirnir hjálpa plöntunum að afla sér mikilvægra efna eins og vatns og steinefna, ekki síst niturs og fosfórs, en fá í staðinn sykrur sem plantan framleiðir með ljóstillífun.

Fræðsluganga í Grasagarði Reykjavíkur 2. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartansson

Auk sveppanna eru í jarðveginum bakteríur, mítlar, mordýr og ánamaðkar. Jarðvegsdýrin og örverurnar í jarðveginum blanda jarðveginn og hjálpa til við niðurbrot lífrænna leifa þannig að hringrás næringarefnanna viðhaldist. Í göngunni ræddi Brynja, sem er sérfræðingur í skordýrum og öðrum smádýrum, meðal annars um skordýr sem lifa eingöngu eða á einhverjum hluta lífsferils síns í jarðveginum.

Björk kynnti svo tvær aðferðir sem fólk getur notað til að jarðgera lífrænan úrgang. Annars vegar er jarðgerð með ánamöðkum. Þá verða ánamaðkarnir eins konar gæludýr eða heimilisvinir sem brjóta niður lífrænar leifar sem falla til á heimilinu. Hins vegar er svokölluð Bokashi-aðferð þar sem notuð er þar til gerð tunna með örverum sem jarðgera lífrænt hráefni með gerjun við loftfirrðar aðstæður. Hvort tveggja er tiltölulega einfalt og þægilegt að gera heima við og afurðina má nota við ræktunina heima, hvort sem er inni, á svölunum eða úti í garði.

Brynja segir að göngufólkið hafi verið mjög áhugasamt um alla þætti sem fjallað var um í göngunni. Þetta er annar viðburður sumarsins sem Land og skógur skipuleggur í samvinnu við Grasagarð Reykjavíkur í Laugardal. Sá fyrri kallaðist Lífið í skóginum. Hún segir að áhugi sé hjá öllum sem að þessu stóðu á að halda samstarfinu áfram.

Til gamans má benda hér í lokin á stutt myndband frá tækniháskólanum í Deggendorf í Þýskalandi sem gert var fyrir bæverska skógarþjóðgarðinn og sýnir samlífi sveppa og háplantna sem er beggja hagur.

Þakkir til Brynju Hrafnkelsdóttur fyrir upplýsingarnar og Bjarka Þórs Kjartanssonar fyrir ljósmyndirnar.