Ný skýrsla um aðgengi nemenda að hljóðbókum á Íslandi
19. nóvember 2025
Nýverið skilaði ráðgjafarfyrirtækið ARCUR af sér skýrslu til mennta- og barnamálaráðherra og menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra um aðgengi nemenda að efni á hljóðbókarformi, bæði námsefni og yndislestarefni.

Úttektin var samstarfsverkefni ráðuneytanna tveggja. Námsumhverfi nemenda hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár og leiðir til náms og kennslu hafa orðið mun fjölbreyttari. Hluti úttektarinnar fólst í könnun meðal starfsfólks skóla þar sem það var beðið um að leggja mat á aðgengi nemenda að hljóðbókaefni.
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur annast hljóðbókaútgáfu tiltekins námsefnis sem allir hafa aðgang að sér að kostnaðarlausu. Hljóðbókasafnið hins vegar veitir notendum sem glíma við prentleturshömlun aðgang að náms- og yndislestrarefni á hljóðbókaformi, þar á meðal nemendum.
Meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er að að dregið hafi úr útgáfu frumsaminna íslenskra kennslubóka; að stuðningur hins opinbera við útgáfu bóka á Íslandi hafi skilað árangri og tryggt lægra verð til neytenda; og að höfundaréttarmál, óaðgengileg tækni og skortur á leiðbeiningum séu hamlandi þættir við það að gera hljóðbækur aðgengilegar.
Í skýrslu Arcur eru sex tillögur um leiðir til úrbóta, meðal annars að leggja áherslu á það við gerð námsefnis að það verði aðgengilegt án aðgreiningar, þ.e. að það verði samhliða gefið út í prentaðri útgáfu og hljóðbók. Einnig er bent á að æskilegt sé að formlegu samráðsferli verði komið á milli opinberra aðila sem koma að hljóðbókaútgáfu undir forystu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu til að tryggja markvisst og skilvirkt starf fyrir nemendur.
Þess má geta að Hljóðbókasafn Íslands og MMS hafa nú þegar sett í gang tilraunaverkefni sem miðar að aukinni samvinnu stofnanna tveggja.
Hlekkur á niðurstöður rannsóknarinnar:

