Fara beint í efnið
Hljóðbókasafn Íslands Forsíða
Hljóðbókasafn Íslands Forsíða

Hljóðbókasafn Íslands

Fyrir blinda, sjónskerta og fólk með lestrarhömlun

Norrænu hljóðbókasöfnin á Degi læsis

8. september 2021

Sameiginleg sýn á mikilvægi þess að lesefni sé aðgengilegt öllum

1 logo mosaik til common position 0

Samkvæmt evrópskri tilskipun um aðgengi (EAA) skal stefnt að auknu aðgengi og inngildandi bókamarkaði fyrir lestrarhamlaða. Við, sem í dag gerum lesefni aðgengilegt, fögnum þessari réttarbót og hlökkum til að koma með nýjar lausnir og deila þekkingu okkar um þarfir lesendahópsins sem um ræðir svo stuðla megi að almennri útgáfu án aðgreiningar.

Í sameiningu einsetjum við okkur:

  • Að búa til tengslanet með útgáfuaðilum svo tryggja megi aðgengi að lesefni og útgáfu án aðgreiningar.

  • Að deila þekkingu okkar á þörfum lesenda með lestrarhömlun og hvernig við mætum þeim best sem stofnanir, samtök og markaðsaðilar.

  • Að leitast við að allir hafi möguleika á að lesa á sínum forsendum með því að hvetja til algildra útgáfulausna sem mæta þörfum hvers og eins.

Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að allir þurfi aðgang að upplýsingum og óheft tækifæri til samskipta til að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í samfélaginu. Þetta er kjarninn í starfi okkar sem undir þetta ritum. Við búum til lausnir fyrir lesendur með lestrarhömlun og störfum sem þekkingarmiðstöðvar með þarfir lesenda okkar að leiðarljósi.

Við fögnum þeirri þróun og ásetningi sem evrópska tilskipunin um aðgengi kveður á um og vonum að fleiri lesendur okkar muni, þegar hún hefur verið innleidd, eiga möguleika á að nálgast stafrænar bækur á eigin forsendum, á sama tíma og aðrir lesendur. Slíkar framfarir gagnast ekki aðeins hverjum og einum heldur samfélaginu öllu, sem mun njóta góðs af upplýstari borgurum og jafnrétti á markaði fyrir alla. Þróun í aðgengismálum nýtist oft fleirum en þeim sem nauðsynlega þurfa á að halda.

Við teljum að nú sé einstakt tækifæri fyrir okkur, í samvinnu við útgefendur, til að tryggja að leshamlaðir geti nálgast upplýsingar og tekið þátt í samfélaginu á jafnari grundvelli en nokkru sinni fyrr. Þekking okkar á útgáfu án aðgreiningar og þörfum leshamlaðra er auðlind sem við vonumst til að geta miðlað áfram til útgefenda. Þannig getum við aðstoðað við að koma á bókamarkaði fyrir alla. Við vonum að okkur takist, í samvinnu við útgefendur, að gera framtíðarsnið stafrænna bóka aðgengilegt frá upphafi, öllum til hagsbóta.

Við teljum að það sé grundvallaratriði fyrir samtök okkar og stofnanir að starfsemin hverfist áfram um að vinna að réttindum lesenda. Það er mikilvægt að lýðræðislegur réttur til upplýsinga og rétturinn til að lesa á eigin forsendum sé virtur. Við minnum einnig á rétt þeirra sem tilskipunin nær ekki til og mikilvægi þess að áfram sé unnið að því að tryggja rétt þeirra til að geta lesið á eigin forsendum. Í dag búa margir við efnahagslegt varnarleysi og stafræna útilokun.

Við gerum okkur grein fyrir að þegar öll útgáfa verður orðin aðgengileg mun það hafa áhrif á verkefni okkar og hlutverk.

Við vonum að öflugt tengslanet milli þeirra sem gefa út bækur og þeirra sem vinna að aðgengismálum auki þekkingu og stuðli að nýjum lausnum svo hægt verði að gera bókamarkaðinn betri fyrir alla, með rannsóknir og nýsköpun að leiðarljósi.

 

Hljóðbókasafn Íslands (HBS)
Myndigheten för tillgängliga medier (MTM), Svíþjóð
Celia, Finnland
Norsk lyd- og blindeskriftbibliotek (NLB), Noregur
Nota, Danmörk
Schweizerische Bibliothek für Blinde, Seh- und Lesebehinderte (SBS), Sviss


Hljóðbókasafn Íslands

Hafðu samband

Símaafgreiðsla: 545 4900

Hljóðver: 545 4910

Netfang: hbs@hbs.is

Opnun­ar­tími

Safnið er opið mánudaga til fimmtudag frá
10 til 16 og föstudaga 10 til 14:30

Símaafgreiðsla er opin alla virka daga 10 til 14

Heim­il­is­fang

Digranesvegur 5

200 Kópavogur