Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Úttekt á þjónustu Foreldrahúss lokið

20. mars 2025

Úttekt GEV á þjónustu Foreldrahúss sýnir mikla ánægju með þjónustuna og þá heildrænu nálgun sem stuðst er við í starfinu til að bæta stöðu barns og efla foreldra í uppeldishlutverki sínu. Þjónustan er kostnaðarsöm en fjárfesting í snemmtækri íhlutun dregur úr auknum kostnaði fyrir samfélagið síðar meir.

Fréttamynd GEV

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) hefur lokið úttekt sinni á þjónustu Foreldrahúss, sem framkvæmd var að beiðni félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis. Úttektin grundvallaðist á samkomulagi ráðuneytanna þriggja og Foreldrahúss um styrkveitingu vegna ársins 2024.

Foreldrahús er sjálfseignarstofnun sem sinnir ráðgjöf og stuðningi við börn og ungmenni sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda, hegðunarvanda og tilfinningavanda. Litið er á áhættuhegðun barns sem birtingarmynd annars vanda og byggir starfsemin á heildrænni nálgun þar sem unnið er með barni og foreldrum að því að efla foreldra í uppeldishlutverki sínu og bæta stöðu og líðan barns, sem dregur úr áhættuhegðun.

Hjá Foreldrahúsi er meðal annars boðið upp á áfengis- og vímuefnaráðgjöf, uppeldis- og sálfræðiráðgjöf, fjölskylduráðgjöf og listmeðferð, auk langtímaúrræðisins VERU vegna barna í neyslu. Þá tekur Foreldrahús einnig að sér fræðslu fyrir fagaðila og foreldra grunn- og framhaldsskólanema auk þess að halda úti Foreldrasíma.

Fjármögnun starfseminnar byggir á framlagi frá ríkissjóði, styrk frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, eigin fjáröflun og innheimtu gjalda fyrir viðtöl, sem eru ýmist greidd af notendum eða niðurgreidd af sveitarfélögum. Á árinu 2024 sóttu um 715 börn og foreldrar viðtöl í Foreldrahús, alls 3.869 viðtöl. Tekjur ársins 2024 voru um 5 m.kr. lægri en andvirði vinnuframlags vegna viðtala, og voru heildartekjur ársins rúmar 72. m.kr.

Í úttektarferlinu var rætt við notendur þjónustunnar, bæði ungmenni og foreldra, auk starfsfólks Foreldrahúss og félagsráðgjafa Reykjavíkurborgar sem höfðu reynslu af því að vísa notendum í þjónustuna.

Helstu niðurstöður:

Notendur og félagsráðgjafar höfðu almennt góða reynslu af þjónustu Foreldrahúss og töldu hana lykilatriði í því að staða barns og fjölskyldu hafi batnað, og barn hafi hætt neyslu og annarri áhættuhegðun.

Svo til engin bið er eftir þjónustunni og tíðni viðtala og lengd þjónustu er einstaklingsbundin.

Starfsfólk Foreldrahúss er allt fagaðilar og notast við gagnreyndar aðferðir.

Aðeins þrír fastráðnir starfsmenn starfa hjá Foreldrahúsi og sinna þeir allir faglegu starfi með notendum auk þess sem framkvæmdastjóri sinnir öðrum verkefnum tengdum starfseminni. Er því um brothætta starfsemi að ræða. Leitað er til verktaka eftir þörfum.

Mikil ánægja er með heildræna nálgun Foreldrahúss þar sem lagt er upp úr því að vinna með orsök áhættuhegðunar barns í sameiningu með barni og foreldrum.

Í VERU úrræðinu er unnið með þyngri mál. Börn og foreldrar eru með hvor sinn ráðgjafann, viðtöl eru tíð og lengd þjónustu er miðuð að þörfum barns. Nálgunin hefur gefist vel til að grípa fljótt inn í vanda barns og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Verkefni sem voru áður fyrirferðameiri í starfinu, t.d. námskeiðahald, hafa lagst af að mestu, meðal annars sökum anna og skorts á fjármagni.

Tækifæri eru til úrbóta varðandi skráningu mála og skriflega upplýsingamiðlun til annarra þjónustuveitanda, auk markvissari notkunar matstækja til þess að leggja mat á árangur og gæði þjónustunnar.

Þjónusta við hverja fjölskyldu getur verið verulega kostnaðarsöm og sögðu flestir foreldrar að þeir hefðu átt mjög erfitt með eða ekki getað nýtt sér þjónustuna ef ekki hefði verið fyrir niðurgreiðslu sveitarfélags.

Ítrekað kom fram það álit viðmælenda að fjárfesting í snemmtækri íhlutun á borð við þjónustu Foreldrahúss sé vel þess virði þar sem vandi barns og fjölskyldu hefði annars vaxið og að lokum kostað samfélagið töluvert meira.

Skýrslu GEV vegna úttektarinnar má nálgast hér

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100