Fara beint í efnið
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Úttekt á samningum um móttöku flóttafólks lokið

24. maí 2024

Úttekt GEV á samningum um móttöku flóttafólks sýndi meðal annars að misræmi er í framkvæmd sveitarfélaga á þjónustunni og að þjónustusamningur hefði þurft að vera skýrari og nákvæmari.

GEV

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) hefur nú lokið úttekt sinni á samræmdri móttöku flóttafólks en hún var unnin að beiðni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Úttektin fjallar um þjónustusamninga sem voru í gildi til ársloka 2023 og náði til níu móttökusveitarfélaga af þrettán. Markmið samninganna er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríki og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur. Sveitarfélög skulu samkvæmt samningunum veita notendum einstaklingsmiðaða þjónustu í samræmi við kröfulýsingu og kostnaðarlíkan sem fylgir þjónustusamningi.

Skýrsla GEV vegna úttektarinnar hefur nú verið birt. Rætt var við starfsfólk og stjórnendur móttökusveitarfélaga og úrtak notenda þjónustunnar auk þess sem margvísleg gögn voru skoðuð. Einnig var rætt við aðra hagaðila, m.a. Vinnumálastofnun, Rauða kross Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Niðurstöður sýndu að notendur sem rætt var við voru almennt ánægðir og þakklátir fyrir þjónustuna sem þeir hafa fengið. Misræmi var þó í framkvæmd sveitarfélaga við móttökuna. Málstjórar smærri sveitarfélaga virtust geta veitt meiri þjónustu en aðrir, biðin þar var almennt styttri og aðgengi að þjónustunni auðveldari. Framboð af virkniúrræðum var meira á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni og bið eftir námskeiðum var mislöng. Ljóst er að auka þarf tækifæri notenda til virkrar þátttöku í samfélaginu, sérstaklega á landsbyggðinni.

Misræmi í framkvæmd þjónustunnar virðist byggja að mestu leyti á tveimur þáttum:

Annars vegar eru sveitarfélög sjálfstæð í störfum sínum og setja sér sínar eigin reglur. Það veldur því meðal annars að réttur notenda til ýmissa styrkja er mismunandi eftir sveitarfélögum.

Hins vegar eru þjónustusamningur ráðuneytisins og fylgiskjöl hans ekki nógu skýr og þótti starfsfólki sveitarfélaga því oft óljóst til hvers væri ætlast af því. Óskýrt innihald og orðalag skjalanna ollu því að erfitt var fyrir GEV að taka skýra afstöðu til þess hvort þjónusta sveitarfélaganna væri að fullu í samræmi við ákvæði þeirra.

Framsetning upplýsinga, eða skortur þar á, olli því að sveitarfélög túlkuðu kröfur til þjónustunnar á ólíkan hátt, t.d. varðandi útvegun húsnæðis. Þá er í kröfulýsingu nær ekkert fjallað um aðstoð fyrir notendur til að vinna úr áföllum þrátt fyrir að það sé annað meginmarkmið þjónustunnar. Var það mat GEV að notendum væri ekki tryggð nægilega vel nauðsynleg aðstoð, hjá sveitarfélögunum, til að vinna úr áföllum.

Mikill meirihluti sveitarfélaganna taldi ómögulegt við uppfyllingu uppgjörs að skilja skýrt á milli hinnar lögbundnu þjónustu og þeirrar viðbótarþjónustu sem samræmda móttakan á að fela í sér vegna þess hve víðtæk og óskilgreind þjónusta getur fallið undir félagsþjónustulögin og vegna þess að kröfur til þjónustunnar voru ekki nægilega vel skilgreindar. Þar af leiðandi hafa greiðslur ráðuneytisins vegna verkefnisins einnig staðið straum af kostnaði við lögbundna þjónustu sveitarfélaganna, en svo á ekki að vera.

Starfsfólk sveitarfélaganna taldi kostnaðarlíkanið sem liggur til grundvallar greiðslum ekki endurspegla vinnuframlagið nægilega vel. Á stundum væri það of ítarlegt og tæki til atriða sem málstjórar hefðu ekki tök á að sinna en einnig voru nefnd fjöldi dæma um vinnuframlag sem ekki er greitt fyrir þar sem ekki er tekið tillit til þess í kostnaðarlíkaninu. Þá eru samkvæmt úttektinni ýmis tækifæri fyrir hendi til að nýta betur vinnuframlag málstjóra og stjórnenda við móttöku flóttafólks.

Nýir samningar um móttöku flóttafólks tóku gildi í byrjun árs, sjá frétt á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100