Útgáfa skýrslu vegna úttektar á Hugarafli
12. desember 2022
Gefin hefur verið út skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) vegna úttektar á starfsemi félagasamtakanna Hugarafls, sem hófst þann 20. apríl 2022.
Gefin hefur verið út skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) vegna úttektar á starfsemi félagasamtakanna Hugarafls, sem hófst þann 20. apríl 2022. Tilefni úttektarinnar er ákvörðun Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um framkvæmd úttektar vegna ábendinga og kvartana um starfsemi samtakanna sem bárust ráðuneytinu í ágúst 2021 frá fyrrum félagsmönnum Hugarafls. Einnig barst ráðuneytinu beiðni frá Hugarafli um að gerð yrði óháð úttekt á samtökunum. Taldi Félagsmálaráðuneytið rétt að fela Vinnumálastofnun að gera úttekt á starfsemi Hugarafls á grundvelli þjónustusamnings Vinnumálastofnunar við Hugarafl en heimild til slíkrar úttektar er að finna í 7. gr. samningsins. Til að gæta að því að um óháða úttekt væri að ræða fór Vinnumálastofnun þess á leit við GEV að framkvæma úttektina.
Markmið úttektar GEV var tvíþætt.
Annars vegar að framkvæma greiningu á framkvæmd þjónustusamnings Vinnumálastofnunar og Hugarafls, með gildistímann 1. janúar 2021 til 31. desember 2022.
Hins vegar var markmiðið að fá fram upplifun og reynslu félagsmanna Hugarafls af starfsemi samtakanna sem og þjónustu- og samstarfsaðila sem þjónusta sama hóp á öðrum vettvangi.
Til grundvallar greiningarinnar á framkvæmd þjónustusamningsins lágu gögn frá Hugarafli um starfsemi samtakanna sem GEV óskaði eftir. Til að fá fram upplifun og reynslu félagsmanna og þjónustuaðila af starfsemi Hugarafls fóru fram sextán viðtöl. Rætt var við tólf félagsmenn Hugarafls, þar af sex virka félagsmenn og sex fyrrum félagsmenn. Einnig fóru fram viðtöl við þjónustuaðila frá Tryggingastofnun ríkisins, Geðsvið Landspítala Háskólasjúkrahúss, Geðheilsuteymi heilsugæslunnar og landssamtökin Geðhjálp.
Við úttektina kom í ljós að framkvæmd þjónustusamnings Vinnumálastofnunar og Hugarafls fer ekki að öllu leyti saman við orðalag ákvæða hans. Orðalag samnings er á köflum opið og óafmarkað og skyldur og ábyrgð Hugarafls ekki nægilega ítarlegar eða skýrar. Þá hefur Vinnumálastofnun ekki komið að gæðaþróun þjónustunnar á samningstímanum líkt og kveðið er á um í samningnum.
Lagði GEV til að ef þjónustusamningur milli aðila yrði endurnýjaður verði hugað að því að samningnum fylgi ítarleg kröfulýsing fyrir þjónustuna svo ljóst sé hvaða kröfur eru gerðar til Hugarafls um m.a. gæði þjónustu, mat á árangri og faglega skráningu á framvindu, sér í lagi varðandi einstaklinga í endurhæfingu.
Jafnframt lagði GEV til að Vinnumálastofnun sinni reglulegu eftirliti með starfsemi Hugarafls á grundvelli kröfulýsingar til að tryggja að markmiðum samnings sé náð og að starfsemin uppfylli kröfur Vinnumálastofnunar.
Niðurstöður viðtala bentu til þess að starfsemi Hugarafls hafi nýst mörgum vel við að bæta lífsgæði sín og ná bata. Mikilvægt er fyrir notendahópinn að til staðar sé lágþröskuldaúrræði þar sem áhersla er lögð á opið aðgengi, einstaklingsmiðaða nálgun, bata, valdeflingu og jafningjastuðning. Þá virðist þátttaka í verkefnum og sjálfboðaliðastörfum vera mikilvægur þáttur í valdeflingu og bata félagsmanna. Niðurstöður bentu þó jafnframt til þess að tækifæri séu til umbóta í starfsemi Hugarafls til að efla gæði þjónustunnar.
Vísbendingar eru um að samtökin nái ekki að anna víðtæku hlutverki sínu nægilega vel og reiði sig um of á þátttöku sjálfboðaliða í starfsemi félagsins, sem geti bitnað á bata félagsmanna. Lagði GEV því til að stjórnendur endurskilgreini hlutverk og markmið starfseminnar með tilliti til fjármagns svo betur sé unnt að sinna hlutverki samtakanna.
Þá lagði GEV til að fram fari endurskoðun á stjórnun og stjórnarháttum innan Hugarafls í ljósi sterkra vísbendinga um að framkoma stjórnenda hafi verið ámælisverð. Niðurstöður viðtala bentu til þess að stjórnendur hafi brotið trúnað við félagsmenn og hafi brugðist við gagnrýnisröddum félagsmanna með ófullnægjandi hætti. Einnig bentu niðurstöður til að minna sé hlustað á rödd félagsmanna innan samtakanna en áður.
Til að bæta faglega nálgun í starfi lagði GEV til að Hugarafl tryggi öryggi meðferða upplýsinga og persónuverndar og tryggi trúnað við félagsmenn. Einnig að þar sé haldin örugg skrá yfir mat á árangri starfseminnar, þar á meðal markmið einstaklinga, framvindu og árangur, sér í lagi þeirra sem eru í endurhæfingu.
Auk þess er talin þörf á að vinna markvisst að því að efla rödd félagsmanna innan samtakanna, skerpa á túlkun og notkun hugmyndafræði í starfi, auka samræmi og fyrirsjáanleika í þjónustu við félagsmenn og auka einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við einstaklinga í starfsendurhæfingu.
Úttekt Gæða- og eftirlitsstofnunar hefur verið afhent til Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Vinnumálastofnunar auk Hugarafls en er jafnframt birt í heild sinni á vefsíðu GEV.