Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Umtalsverður fjöldi einkaaðila sem sinna akstursþjónustu hefur ekki rekstrarleyfi

12. mars 2025

Frumkvæðisathugun Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og eldra fólk á landsvísu leiddi í ljós að umtalsverður fjöldi einkaaðila sem sinna akstursþjónustu var ekki með nauðsynlegt rekstrarleyfi til þess að veita þjónustuna. Sveitarfélög hafa nú verið hvött til þess að gera viðeigandi úrbætur til þess að tryggja að viðkomandi aðilar séu með rekstrarleyfi til þess að veita akstursþjónustuna og hefur hluti þeirra brugðist við nú þegar.

Horft yfir Kop og RVK - GEV

Á vormánuðum 2024 hóf GEV frumkvæðisathugun á landsvísu á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og eldra fólk, í samræmi við 14. gr. laga nr. 88/2021 um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (lög um GEV). Markmið athugunarinnar var m.a. að kanna hvort sveitarfélög byðu upp á akstursþjónustuna og hvort þjónustan væri rekin af sveitarfélögunum sjálfum eða einkaaðilum. Samkvæmt 5. gr. laga um GEV skulu einkaaðilar sem hyggjast veita þjónustu sem lýtur eftirliti GEV afla rekstrarleyfis áður en byrjað er að veita þjónustuna. Þá er sveitarfélögum óheimilt að semja um veitingu þjónustu við aðra aðila en þá sem hafa fengið rekstrarleyfi frá GEV, skv. 9. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í þeim tilfellum sem lögbundin akstursþjónusta er rekin af einkaaðilum vildi GEV því einnig kanna hversu hátt hlutfall þeirra væri með rekstrarleyfi frá GEV til þess að veita þjónustuna.

GEV sendi spurningakönnun til allra sveitarfélaga landsins þar sem spurt var hvort þjónustan stæði til boða og hvert rekstrarform hennar væri, þ.e. hvort þjónustunni væri sinnt af sveitarfélaginu eða hvort hún væri framkvæmd á grundvelli samnings við einkaaðila. Ef þjónustan var ekki í boði voru sveitarfélög beðin um að greina frá ástæðum þess. Svör voru yfirleitt á þá leið að ekki hefðu borist beiðnir um akstursþjónustu í sveitarfélaginu og því hefði ekki reynt á framkvæmd hennar. Þess má geta að eitt sveitarfélag svaraði ekki spurningakönnuninni.

Niðurstöður spurningakönnunarinnar leiddu í ljós að rúmur helmingur (54%) sveitarfélaga fela einkaaðilum framkvæmd á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk en 46% þeirra reka þjónustuna sjálf. Akstursþjónusta fyrir eldra fólk er í 51% tilfella rekin af sveitarfélögunum sjálfum en í 49% tilfella af einkaaðilum.

Niðurstöður leiddu jafnframt í ljós að meirihluti þeirra einkaaðila sem sinntu lögbundinni akstursþjónustu fyrir fatlað fólk og eldra fólk hafði ekki sótt um rekstrarleyfi til GEV. Við upphaf athugunar GEV voru aðeins tveir einkaaðilar með rekstrarleyfi og tveir aðilar til viðbótar með umsóknir í vinnslu. Í framhaldi af spurningakönnuninni var því ákveðið að senda bréf til allra sveitarfélaga sem bjóða upp á akstursþjónustu sem rekin er af einkaaðilum. Í bréfinu var minnt á skyldur einkaaðila til þess að sækja um rekstrarleyfi til GEV, þeim leiðbeint um umsóknarferlið sem og hvaða kröfur væru gerðar til einkaaðila með rekstrarleyfi frá GEV til þess að sinna akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. Í lok janúar 2025 voru 10 aðilar komnir með rekstrarleyfi frá GEV, en fjórir þeirra höfðu ekki verið tilgreindir af hálfu sveitarfélaganna sem aðilar sem sinna akstursþjónustu fyrir þeirra hönd.

Við lok frumkvæðisathugunarinnar fengu öll sveitarfélög sent bréf ásamt afriti af niðurstöðuskýrslu. Hjá þeim sveitarfélögum sem úrbóta var þörf innihélt bréfið úrbótatilmæli eða ábendingar, eftir því sem við átti hverju sinni. Í nokkrum tilfellum var óskað eftir frekari upplýsingum um útfærslu þjónustunnar.

Skýrsluna vegna athugunarinnar má nálgast hér.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100