Fara beint í efnið

GEV þróar leiðbeinandi efni fyrir innra eftirlit sveitarfélaga vegna þjónustu búsetuúrræða

6. mars 2024

Ákveðið hefur verið að nýta niðurstöður athugana á þjónustu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk til að efla innra eftirlit sveitarfélaga

Horft yfir Kop og RVK - GEV

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) hefur undanfarin misseri unnið að frumkvæðisathugunum á tveimur búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk, annars vegar á Kleppsvegi 90 í Reykjavík og hins vegar á Sæbraut 2 á Seltjarnarnesi. Niðurstöður þeirra eru að miklu leyti í samræmi við fyrri athuganir forvera GEV, Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar, á öðrum búsetuúrræðum.

Ljóst er að tilefni er til að kanna framkvæmd sveitarfélaga á ýmsum lagalegum skyldum í þjónustu við fatlað fólk sem býr í sértækum búsetuúrræðum, meðal annars varðandi innra eftirlit, atvikaskráningar, tilkynningar um alvarleg óvænt atvik, einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir, persónulega talsmenn og ráðstafanir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu. Af þeirri ástæðu mun GEV stofna til frumkvæðisathugunar á þjónustu við fatlað fólk í sértækum búsetuúrræðum, á grundvelli 14. gr. laga nr. 88/2021 um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (lög um GEV).

Ákveðið hefur verið að nýta þessa frumkvæðisathugun GEV til að efla um leið innra eftirlit sveitarfélaganna, en fjallað er um skyldu þjónustuveitenda til innra eftirlits í 11. gr. laga um GEV. Ákall hefur verið eftir leiðbeiningum frá GEV til sveitarfélaganna um framkvæmd innra eftirlits. Vinnur GEV því nú að þróun gátlista og leiðbeininga í samráði við fulltrúa Geðhjálpar, Þroskahjálpar og tveggja sveitarfélaga. Þegar leiðbeinandi efnið er fullunnið mun GEV senda það til sveitarfélaga landsins sem munu sjálf taka út þjónustu búsetuúrræða sinna undir handleiðslu stofnunarinnar. Sveitarfélögin skulu svo senda niðurstöður sínar til GEV ásamt tímasettri úrbótaáætlun um þau atriði sem þörf er á að bæta. Ef tilefni verður til mun GEV leggja fram frekari tilmæli um úrbætur og verður úrbótum fylgt eftir þar til þær teljast fullnægjandi.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100