Fara beint í efnið
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála Forsíða

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Frumkvæðisathugun GEV á þjónustu íbúðakjarnans í Hólmasundi 2 er lokið

20. desember 2024

Frumkvæðisathugun GEV á þjónustu íbúðakjarnans í Hólmasundi 2 í Reykjavík sýndi fram á að stjórnendaskipti og breytingar í starfsmannahóp höfðu mikil áhrif á gæði þjónustu við íbúana. Aðlögun nýrra starfsmanna, fræðslu til starfsfólks og samráð við persónulega talsmenn íbúa var einnig ábótavant að mörgu leyti.

GEV

Eftirlitsskýrsla vegna frumkvæðisathugunar GEV á þjónustu íbúðakjarnans í Hólmasundi 2 í Reykjavík hefur nú verið birt. Frumkvæðisathugunin var framkvæmd vegna fjölda erinda sem stofnuninni bárust á árinu 2024 og vörðuðu þjónustu við íbúana auk þess sem beiðni um óháða athugun á þjónustu íbúðakjarnans hafði borist frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Markmiðið athugunarinnar var að meta gæði þjónustunnar í Hólmasundi og tryggja að hún uppfylli lög, stjórnvaldsfyrirmæli og gæðaviðmið sem varða búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk. Gagnaöflun athugunar fór fram í september og október 2024 og fól í sér yfirferð gagna sem GEV óskaði eftir frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, vettvangsathugun í Hólmasundi 2 og viðtöl við úrtak starfsfólks, stjórnendur og persónulega talsmenn íbúa.

Helstu niðurstöður

  • Stjórnun og skipulag:

    Rótleysi í stjórnun og miklar starfsmannabreytingar höfðu neikvæð áhrif á þjónustu. Nýr forstöðumaður og aukning stöðugilda hafa þó skilað jákvæðum breytingum.

  • Húsnæði:

    Íbúðirnar uppfylla ekki allar kröfur sem til þeirra eru gerðar, þar á meðal skilyrði um stærð og aðstöðu. Neyðarhnappar og betra aðgengi starfsfólks eru talin mikilvæg umbótasvið. Stefnt er að byggingu nýs íbúakjarna fyrir íbúa Hólmasunds.

  • Þjónusta við íbúa:

    Ýmis tækifæri eru til umbóta varðandi þjónustu við íbúa. Stuðla má að betri þjónustu með m.a. gerð einstaklingsbundinna þjónustuáætlana, auknu samráði við persónulega talsmenn og fræðslu til starfsfólks.

GEV hefur óskað eftir tímasettri úrbótaáætlun frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar sem skal taka til allra úrbótatilmæla sem sett eru fram í skýrslunni. Úrbótum skal lokið innan sex mánaða frá birtingu skýrslunnar.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100