Frumkvæðisathugun á barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar lokið
30. september 2024
Athugun GEV á gæðum barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar leiddi m.a. í ljós óskýra verkferla, skort á leiðbeiningum til starfsfólks og brot gegn málsmeðferðarreglum barnaverndarlaga.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) stofnaði til frumkvæðisathugunar á barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar í mars 2023 vegna fjölda erinda sem borist höfðu stofnuninni. Um var að ræða alvarlegar ábendingar og kvartanir er sneru að gæðum þjónustunnar. Athugunin var afmörkuð við þjónustu sem veitt var á tímabilinu 1. janúar 2022 til 1. apríl 2023. Markmiðið var að kanna starfsemi barnaverndarþjónustunnar, vinnubrögð, málsmeðferð og annað sem varpað gæti ljósi á gæði þjónustunnar og hvort hún samræmdist lögum, reglugerðum, reglum og leiðbeiningum sem fylgja skal við vinnslu barnaverndarmála.
Útdráttur úr skýrslu GEV hefur nú verið birtur en vegna persónugreinanlegra upplýsinga í skýrslunni verður hún ekki birt í heild sinni, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um GEV.
Margvísleg gögn voru til skoðunar í athuguninni auk þess sem rætt var við starfsfólk og stjórnendur þjónustunnar.
Niðurstöður Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sýna fram á töluverðan og alvarlegan misbrest við vinnslu mála hjá barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar á tímabilinu er athugunin náði til.
Í fyrsta lagi er ljóst að nokkuð hafi skort á skýra verkferla og leiðbeiningar til starfsfólks barnaverndarþjónustunnar.
Í öðru lagi var skráningu mála og varðveislu upplýsinga skv. 39. gr. og 42. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) verulega ábótavant.
Í þriðja lagi skorti töluvert á að samskipti og samvinna við aðila máls hafi verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða, sbr. m.a. 4. mgr. 4. gr. bvl.
Í fjórða lagi var við vinnslu mála ítrekað brotið gegn málsmeðferðarreglum V., VI. og VIII. kafla bvl. og átti það við öll stig málsmeðferðar, bæði hvað varðar meðferð á tilkynningum, ákvörðunum um skipun talsmanns, könnun mála, gerð áætlana um meðferð mála, framkvæmd vistana utan heimilis og framkvæmd neyðarráðstafana skv. 31. gr. bvl.
Á grundvelli niðurstaðna athugunarinnar eru í skýrslunni sett fram tilmæli um úrbætur sem barnaverndarþjónustunni ber að vinna að innan sex mánaða.
Margþættar umbætur þegar verið gerðar á þjónustunni
Ljóst er af upplýsingum frá barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar að margþættar umbætur hafa nú þegar verið gerðar í samræmi við þau tilmæli um úrbætur sem lögð eru fram í skýrslunni. Meðal annars hafa verið gerðar úrbætur á innra eftirliti, verkferlum og leiðbeiningum til starfsfólks. Auk þess hefur stöðugildum starfsmanna verið fjölgað og aðgengi bætt að lögmanni með þekkingu á barnaverndarmálum. Þá er unnið að því að stofna Barnaverndarþjónustu Vesturlands þar sem Borgarbyggð verður leiðandi sveitarfélag.
Við framkvæmd frumkvæðisathugunnar GEV var viðhöfð góð samvinna við barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar sem hefur nú þegar fengið skýrsluna afhenta. GEV fagnar þeim úrbótum sem gerðar hafa verið og væntir þess að áfram verði unnið að úrbótum í samræmi við tilmæli sem sett eru fram í skýrslunni.