Fara beint í efnið

Áramótakveðja frá forstjóra GEV

29. desember 2023

Þegar horft er yfir líðandi ár er þakklæti efst í huga forstjóra til starfsfólks GEV fyrir góðan árangur við fjölmörg verkefni og ánægja með gott samstarf við stóran hóp samvinnuaðila.

Herdís G.mynd

Í árslok er gott að líta um öxl og fara yfir liðið ár og þann árangur sem hefur náðst og hvernig má gera enn betra. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, sem við köllum GEV í daglegu tali, er ung stofnun sem er nú að ljúka sínu öðru starfsári. GEV gegnir lykilhlutverki í því að efla gæði og öryggi í velferðarþjónustu á Íslandi og hefur á að skipa úrvals fagfólki sem ég er afskaplega stolt af að kalla mitt samstarfsfólk. Á þessu ári höfum við saman lyft grettistaki í afgreiðslu mála, eftirlitsverkefnum og þjónustu við okkar þjónustuþega.

Eitt af því sem hefur verið efst á baugi á þessu ári hefur verið að efla tengsl og samvinnu við okkar lykil samstarfsaðila, eins og sveitarfélögin, hagsmunasamtök og stofnanir og ráðuneyti hjá hinu opinbera. Eins höfum við verið að greina stöðu mála varðandi innra eftirlit sveitarfélaga og aðra þjónustu.

Áhersla hefur verið á það hjá GEV að ferlar séu skilvirkir og að afgreiðsla erinda og mála gangi vel fyrir sig og þau sem til okkar leita fái úrlausn sinna mála eða leiðsögn um hvert megi leita. Þetta er vonandi til marks um að okkur hafi orðið ágengt við að leggja áherslu á samvinnu og samráð við haghafa og góða þjónustu við notendur.

Hjá GEV höfum við afgreitt fjölda kvartanna og ábendinga og lokið við að vinna öll eldri mál sem stofnunin fékk í arf frá fyrrum Barnaverndarstofu. Biðtími við úrvinnslu kvartanna, sem okkur berast frá þjónustuþegum, nemur nú um 6 mánuðum frá því öll gögn berast. Það er mikil stytting á biðtíma frá því sem áður var. Við höfum unnið að frumkvæðiseftirliti m.a. á búsetukjörnum fyrir fatlað fólk og á fósturheimilum og unnið hefur verið með virkt notendasamráð við gerð eftirlitsferla á barnaverndarheimilum. Á árinu voru einnig rannsökuð nokkur alvarleg atvik í velferðarþjónustu en markmið slíkra rannsókna er ávallt að skoða hvað fór úrskeiðis í þeim tilgangi að fyrirbyggja að sambærileg atvik geti átt sér stað. Nú síðari hluta árs hófst svo úttekt stofnunarinnar á samræmdri móttöku flóttafólks á Íslandi, að beiðni ráðuneytisins.

Hjá GEV er einnig unnið að útgáfu rekstarleyfa til einkaðila, einstaklinga og fyrirtækja, sem vilja veita þjónustu á sviði barnaverndar, félagsþjónustu eða þjónustu við fatlað fólk. Á þessu ári hefur orðið gífurleg aukning í fjölda umsókna um leyfi og vel hefur gengið að anna afgreiðslu leyfanna með góðum umbótum á umsóknarferlinu og afgreiðslu umsókna. Samanborið við árið 2022 jókst umsóknarfjöldi úr 625 upp í 928 fyrir árið 2023 sem samsvarar 33% aukningu milli ára. Algengustu leyfin eru á sviði barnaverndar og stuðningsfjölskylduleyfi er langstærsti leyfisflokkurinn fyrir árið 2023.

Við höldum áfram ótrauð og glöð inn í nýtt ár og viljum halda áfram á okkar stafrænu vegferð sem við höfum lagt áherslu á að byggja upp, m.a. í góðri samvinnu með Stafrænt Íslandi. Á döfinni eru jafnframt lykilverkefni á málefnasviði stofnunarinnar sem er setning gæðaviðmiða á sviði félagsþjónustu og barnaverndar. Nú er unnið að gerð öryggishandbókar og gæðaviðmiða fyrir þjónustu dagforeldra á Íslandi. Spennandi verður að sjá afrakstur þeirra vinnu sem mun nýtast í að bæta umgjörð um þá þjónustu. Gæðaviðmiðin eru lykillinn að því að hægt sé að efla öryggi í allri þjónustu og setja fram leiðbeinandi kröfur og viðmið fyrir málaflokka á sviði velferðarþjónustu.

Tilgangur okkar er alltaf að tryggja réttindi þjónustuþega og standa vörð um virði þjónustunnar þannig að hún sé bæði örugg og traust.

Ég vil af heilum hug þakka mínu góða samstarfsfólki fyrir vel unnin störf á liðnu ári, fyrir eljusemi og fagmennsku og öllum okkar góðu samstarfsaðilum fyrir frábært samstarf.

Megi nýtt ár færa okkur farsæld og gæfu. Gleðilegt nýtt ár.

Með vinsemd og þakklæti,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri GEV.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100

Hafðu samband

Sími: 540 0040

gev@gev.is

Heimilisfang

Suðurlandsbraut 24, 5. hæð

108 Reykjavík

kt. 611221 0100