Faggildingarráð er skipað af Menningar- og viðskiptaráðuneytinu til tveggja ára í senn. Ráðherra skipar formann Faggildingarráðs án tilnefningar, en helstu hagsmunaaðilar tilnefna aðra fulltrúa í ráðinu. ISAC setur ráðinu starfsreglur sem ná m.a. til hæfis ráðsfólks, hlutleysis og þagnarskyldu. Störf innan ráðsins eru ólaunuð.
Tilgangur Faggildingarráðs er að tryggja að ISAC uppfylli kröfur laga, reglugerða og alþjóðlegra staðla um aðkomu helstu hagsmunaaðila að faggildingarstarfseminni, og að samræma skilning og túlkun á þeim kröfum sem samræmi er metið við.
Faggildingarráð gegnir einnig veigamiklu hlutverki við að auka tengsl og samráð milli hagsmunaaðila og ISAC. Það er ráðgefandi um almenna starfsemi ISAC, stefnumótun og þróun, og veitir ISAC og ráðuneytinu faglega ráðgjöf um málefni faggildingar.
Faggildingarráð hefur ekki áhrif á ákvarðanir um einstakar faggildingar.
Hlutverk Faggildingarráðs eru meðal annars að:
Vera menningar- og viðskiptaráðuneytinu, öðrum ráðuneytum og stofnunum til ráðgjafar um faggildingarstarfsemi í landinu.
Gera tillögur að stefnumótun um starfsemi ISAC þegar við á með sérstöku tilliti til sjónarmiða hagsmunaaðila.
Vera tengiliður milli hagsmunaaðila og ISAC í landinu til þess að tryggja gott samstarf og gagnsæi í upplýsingum með það að markmiði að byggja upp traust á faggildingarstarfseminni og að hún þjóni þörfum íslensks samfélags sem best.
Fjalla um og gera tillögur til ISAC um ný viðfangsefni faggildingar þegar við á, vera til ráðgjafar um á hvern hátt best er staðið að samvinnu við hagsmunaaðila, og veita ISAC álit á hvaða þjónustu skuli bjóða upp á eða hvort hætta skuli að bjóða tiltekna faggildingarþjónustu.
Veita ISAC ráðgjöf um málefni er tengjast starfsemi ISAC beint, svo sem um atriði sem tengjast hlutleysi og almenningsáliti.
Taka þátt í kynningu á faggildingarstarfsemi. Megináhersla verður á að kynna opinberum aðilum og aðilum hins frjálsa markaðar á hvern hátt faggilding getur nýst s.s. við eftirlit ýmissa stjórnvalda og við kaup á þjónustu, innan heilbrigðiskerfisins og almennt á vettvangi atvinnulífsins t.d. í tengslum við viðskipti innanlands og utan o.s.frv.
Veita umsögn um kröfuskjöl ISAC og fjalla um lagasetningu og reglugerðir sem tengjast faggildingu.
Veita umsögn um áhættu- og hlutleysisgreiningar ISAC á starfsemi sinni.
Leita eftir samstarfi við nefndir og ráð sem fjalla um málefni sem tengst geta faggildingu með það að markmiði að hugmyndafræði faggildingar verði tekin til skoðunar.