Fara beint í efnið
Dómstólar Forsíða
Dómstólar Forsíða

Dómstólar

Tveir héraðsdómarar skipaðir og einn settur

18. desember 2023

Dómsmálaráðherra hefur skipað Ólaf Helga Árnason og Stefaníu Guðrúnu Sæmundsdóttur í embætti héraðsdómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Reykjavíkur frá og með 18. desember 2023.

Dómsmálaráðherra hefur skipað Ólaf Helga Árnason og Stefaníu Guðrúnu Sæmundsdóttur í embætti héraðsdómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Reykjavíkur frá og með 18. desember 2023. Jafnframt hefur Finnur Þór Vilhjálmsson verið settur dómari við sama dómstól frá og með 18. desember 2023 til og með 28. febrúar 2029 vegna leyfis skipaðs héraðsdómara.

Ólafur Helgi Árnason lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Ísland árið 1988 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1993 og fyrir Hæstarétti Íslands árið 2008. Frá árinu 2015 hefur hann starfað sem lögmaður hjá embætti ríkislögmanns þar sem hann hefur flutt fjölda mála á öllum dómstigum. Árin 2008-2015 starfaði Ólafur sem skrifstofustjóri á skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðar og þá hefur hann að auki starfað hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga, Samtökum iðnaðarins og hjá Landsbanka Íslands hf. Þá hefur Ólafur einnig sinnt kennslu í lögfræði bæði á framhalds- og háskólastigi.

Stefanía Guðrún Sæmundsdóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1997. Árin 2012-2015 starfaði hún sem settur saksóknari við embætti ríkissaksóknara og var skipuð í embættið frá 1. janúar 2016. Í starfi sínu hjá ríkissaksóknara hefur Stefanía flutt fjölda mála á öllum dómstigum sem varða nánast alla brotaflokka. Þá hefur Stefanía meðal annars starfað á lögmannsstofu, sem fulltrúi sýslumannsins í Reykjavík, sem lögfræðingur hjá Tryggingarstofnun ríkisins og sem lögfræðingur hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga. Þá hefur Stefanía annast kennslu á grunnnámskeiðum sem ríkissaksóknari hefur haldið fyrir ákærendur og setið í hverfiskjörstjórn.

Finnur Þór Vilhjálmsson lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og öðlaðist sama ár réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Frá 28. september 2023 hefur Finnur Þór verið settur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur en þar áður starfaði hann meðal annars sem saksóknarfulltrúi og aðstoðarsaksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, síðar héraðssaksóknara, þar af sem skipaður saksóknari frá árinu 2016.

Þá hefur Finnur Þór starfað sem lögfræðingur hjá embætti umboðsmanns Alþingis og sem starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og fall íslensku bankanna árið 2008. Þá var hann starfsmaður og meðritstjóri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Hauck & Aufhäuser Privatbank KGaA árið 2003 í kaupum á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Finnur Þór hefur einnig sinnt kennslu í lögfræði á háskólastigi.