Fara beint í efnið
Dómstólar Forsíða
Dómstólar Forsíða

Dómstólar

Dómarar skipaðir við Hæstarétt og Landsrétt

12. júní 2024

Skúli Magnússon hefur verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands frá 1. október 2024 og Kjartan Bjarni Björgvinsson hefur verið skipaður dómari við Landsrétt frá 1. september 2024.

Skúli Magnússon  og Kjartan Bjarni Björgvinsson

Um Skúla Magnússon

Skúli Magnússon lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1995 og meistaragráðu við lagadeild Oxford háskóla 1998. Þá öðlaðist hann réttindi sem héraðsdómslögmaður 1997.
Að námi loknu starfaði Skúli meðal annars sem dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjaness og sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands þar til hann tók við stöðu lektors við lagadeild Háskóla Íslands árið 2000 og síðar stöðu dósents 2002. Í ársbyrjun 2004 var hann skipaður héraðsdómari og gegndi því starfi til 2007 er honum var veitt leyfi til að taka við starfi skrifstofustjóra EFTA-dómstólsins.

Hann tók á ný við embætti héraðsdómara árið 2012 og árið 2021 var hann skipaður dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann hefur einnig verið settur dómari við Landsrétt um skeið og tekið sæti sem varadómari við Hæstarétt Íslands og verið varadómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Þá hefur Skúli setið í nokkrum stjórnsýslunefndum og sinnt umfangsmiklum fræðistörfum á sviði lögfræði. Skúli var kjörinn umboðsmaður Alþingis frá og með 1. maí 2021 og hefur hann gegnt því embætti síðan.

Um Kjartan Bjarna Björgvinsson

Kjartan Bjarni Björgvinsson lauk embættisprófi í lögfræði árið 2002 og meistaraprófi í lögum frá London School of Economics and Political Science 2006. Að loknu embættisprófi starfaði hann sem lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og síðan sem aðstoðarmaður umboðsmanns 2006-2009. Á árunum 2009-2015 var hann aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn.

Vorið 2015 var hann skipaður héraðsdómari og hefur gegndi því embætti í kjölfarið með nokkrum hléum. Þannig var hann 2016-2017 formaður rannsóknarnefndar Alþingis sem tók til skoðunar einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands. Þá var hann settur umboðsmaður Alþingis um sex mánaða skeið 2020-2021. Af öðrum störfum má nefna að hann var varaforseti Félagsdóms á árunum 2019-2022 og hefur verið varaformaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 2017. Einnig átti hann sæti í stjórn Dómarafélags Íslands 2017-2023, þar af síðustu fjögur árin sem formaður félagsins.

Hann hefur sinnt stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2003 og við Háskólann á Bifröst 2005-2009, auk þess sem hann var sérfræðingur og síðan dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2015-2018. Hann hefur samið kennslurit á sviði stjórnsýsluréttar ásamt tveimur öðrum og ritað fjölda fræðigreina um lögfræðileg efni. Hann hefur verið settur dómari við Landsrétt frá október 2023.