RS-veira er kvefveira sem leggst bæði á efri og neðri öndunarvegi. Sýkingin veldur kvefi og oft bólgu og þrengingum í smáum berkjum lungnanna með öndunarerfiðleikum og hvæsandi öndun sérstaklega hjá mjög ungum börnum. Þetta er algengur sjúkdómur sem leggst á alla aldurshópa en getur lagst þungt á fyrirbura og ung börn innan sex mánaða auk fullorðinna yfir sjötugu sem oft hafa undirliggjandi hjartasjúkdóma eða aðra langvinna sjúkdóma.
Faraldsfræði
Veiran er svo algeng að flest börn innan tveggja ára aldurs hafa sýkst af henni. Faraldrar af völdum RS-veirunnar eru árvissir, þeir koma að vetrarlagi og standa venjulega í 2–3 mánuði. Árlega er komið með um 20% barna undir eins árs til læknis vegna bráðrar RS-veirusýkingar. Af þeim má reikna með að 2–3% gætu þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda.
Bæði fullorðnir og börn geta fengið sýkinguna aftur í nýjum faröldrum þar sem veiran veldur ekki langtíma ónæmi.
Smitleiðir og meðgöngutími
RS-veiran smitast einkum með beinni snertingu milli einstaklinga en getur einnig smitast með úðasmiti við hósta eða hnerra. Veiran getur lifað í nokkrar klukkustundir á leikföngum eða á borðplötu og getur smitast þannig og borist í líkamann í gegnum nef, munn og augu.
Sýktur einstaklingur er mest smitandi fyrstu dagana eftir að hann veikist en getur haldið áfram að vera smitandi í nokkrar vikur á eftir. Einkenni sjúkdómsins koma fram fjórum til sex dögum eftir að smit hefur orðið.
Einkenni sjúkdómsins
Sýkingar af völdum RS-veirunnar geta orðið mjög alvarlegar, sérstaklega hjá fyrirburum, ungbörnum og ungum börnum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma. Algengustu einkennin hjá ungum börnum eru kvef (nefrennsli og/eða nefstífla), blautur hósti og hvæsandi öndun vegna bólgu og slíms í smáum öndunarvegum (berkjungum). Hiti getur verið til staðar en er ekki endilega áberandi einkenni hjá mörgum. Einkenni alvarlegrar sýkingar eða fylgikvilla geta verið hröð öndun, mikill hósti, hár hiti, andnauð með inndráttum undir rifjum, höfuðhreyfingum í takt við andardrátt og/eða blaktandi nasavængjum og blámi á húð vegna skorts á nægu súrefni. Eyrnabólga og bakteríulungnabólga eru nokkuð algengir fylgikvillar RS veirusýkinga. Sjúklingar sem veikjast alvarlega af völdum RS-veirunnar geta þurft að leggjast inn á sjúkrahús, oft vegna þurrks vegna aukins vökvataps við hraða öndun og minnkaða inntöku vökva vegna öndunarerfiðleika, sumir þurfa hreinlega stuðningsmeðferð með súrefni eða öndunaraðstoð og aðrir f.o.f. vegna fylgikvilla s.s. annarra sýkinga samhliða RS veirusýkingu.
Sýkingin nær yfirleitt hámarki á 3–5 dögum og að mestu gengin yfir á einni viku. Flest börn jafna sig að fullu en sum þeirra fá astmaeinkenni fram eftir aldri samfara kvefsýkingum.
Hjá fullorðnum og eldri börnum eru einkenni oftast mild og líkjast vægri kvefpest þ.e. með nefrennsli, þurrum hósta, hitavellu, særindum í hálsi og vægum höfuðverk.
Veiran getur einnig valdið alvarlegum einkennum hjá eldra fólki, og einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóm eða hjá þeim sem eru með bælt ónæmiskerfi.
Greining
Greining byggir fyrst og fremst á sjúkdómseinkennum, sjúkrasögu og læknisskoðun en einnig er hægt að greina veiruna í slími frá nefkoki.
Meðferð
Meðferðin byggir einkum á stuðningsmeðferð, vegna þeirra einkenna sem barnið er með, s.s. vökva- og súrefnisgjöf.
Væg einkenni sjúkdómsins krefjast engrar sérstakrar meðhöndlunar. Flest börn jafna sig að fullu.
Bólusetningar og sýkingavarnir
Frá 2023 hafa komið fram nýir kostir við forvarnir RS veirusýkinga, fyrir börn og fyrir fullorðna sem hafa markaðsleyfi í Evrópu.
Fyrir nýbura og ung börn:
Einstofna mótefni gegn RSV sem gefa má frá fæðingu að 6 mánaða aldri hraustum börnum en einnig börnum á fyrsta og öðru æviári ef alvarleg undirliggjandi heilsufarsvandamál auka hættu á alvarlegri RSV sýkingu. Þetta lyf (Beyfortus®/nirsevimab) verður notað hér á landi á RS tímabilum 2025-2026 og 2026-2027 til að draga úr innlögnum og veikindum hjá ungum börnum, en RSV er ein helsta ástæða innlagna á Barnaspítala Hringsins frá desember til febrúar flesta vetur.
Bólusetning á meðgöngu (Abrysvo®) leiðir til þess að móðir myndar mótefni sem berast barni yfir fylgju. Þessi leið til að verja nýbura og ung börn hefur verið tekin í notkun m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð en gagnast ekki til að draga úr veikindum hjá börnum á aldrinum 6-24 mánaða með undirliggjandi heilsufarsvandamál.
Forvörn gegn RSV fyrir ungbörn veturinn 2025−2026
RS veira (e. respiratory syncytial virus) er mjög algeng kvefveira sem gengur í stórum faröldrum flesta vetur hér á landi. Algengast er að faraldrar komi fram í nóvember/desember og gangi yfir á um tveimur mánuðum. Hætta á smiti er til staðar lengur og er tímabilið október-mars „RS tímabilið“ flesta vetur.
Mjög margir sem fá RSV fá kvef og ef til vill leiðinlegan hósta en veikjast ekki alvarlega.
RSV getur valdið alvarlegum veikindum, með miklum hósta og öndunarerfiðleikum. RSV eykur líka hættu á að aðrir sýklar fái tækifæri til að valda sýkingum, svo sem lungnabólgu.
Börn sem eru fædd eftir lok síðasta faraldurs eru líklegust til að verða alvarlega veik við RS veirusýkingu.
Börn með alvarleg undirliggjandi heilsufarsvandamál og börn með óþroskuð öndunarfæri svo sem miklir fyrirburar hafa um árabil fengið svipað lyf, palivizumab, yfir RS tímabil á fyrsta og öðru æviári, þar sem þeim er sérlega hætt við að þurfa aðkomu sjúkrahúss ef þau fá RSV.
Eldri börn og fullorðnir með alvarlega undirliggjandi kvilla, sérstaklega ónæmisbælandi kvilla, hjartabilun eða lungnasjúkdóma, eru líklegri en aðrir á sama aldri til að veikjast alvarlega vegna RSV.
Hætta á alvarlegri RS sýkingu eykst líka með hækkandi aldri eftir sextugt og verður áberandi meiri eftir sjötugt. Undirliggjandi heilsufarsvandamál, sem fjölgar oft með aldrinum, hafa líka sitt að segja.
Mótefni (e. antibody) eru framleidd af frumum ónæmiskerfis manna og margra dýra og eru ein leið ónæmiskerfisins til að merkja fyrirbæri svo sem sýkla sem framandi fyrir viðbragðsfrumum ónæmiskerfisins, svo sem átfrumum og drápsfrumum. Hver mótefnaframleiðandi fruma (B-fruma) býr til eina gerð mótefnis en þau geta í eðli sínu bara tengst sameind með ákveðna lögun, svipað og lykill og skrá. Fruma sem framleiðir mótefni sem binst við sameind fær við það merki um að mótefnið sé gagnlegt og framleiðir meira mótefni, losar það út í eitilvessa og blóð. Þar að auki þróar fruman mótefnið lítillega til að binda sameindina „sína“ fastari tökum og getur fjölgað sér til að afköstin í framleiðslunni verði meiri.
Mótefni af ýmsum toga eru notuð í margvíslegum læknisfræðilegum tilgangi. Mótefni unnin úr blóði manna eða dýra hafa verið notuð í yfir 100 ár í forvarna- eða meðferðarskyni við ýmsum sjúkdómum, s.s. smitsjúkdómum (t.d. barnaveiki og hundaæði) og eitrunum (t.d. snákaeitri), og síðar gegn vandamálum sem tengjast mótefnaskorti í ónæmiskerfinu. Notkun slíkra lyfja getur haft ýmis vandamál í för með sér, sérstaklega geta mótefni sem ekki eru af manna-uppruna leitt til alvarlegra ofnæmisviðbragða og oft er um blöndu mótefna gegn ýmsum sameindum að ræða (fjölstofna mótefni) og því meiri hætta á aukaverkunum en ef um algerlega einsleit mótefni er að ræða. Þessi vandamál koma helst fram þegar þörf er á endurtekinni notkun lyfs. Mótefni sem unnin eru úr blóði eru einnig mjög flókin í framleiðslu. Þess vegna hafa verið þróuð einsleit, verksmiðjuframleidd mótefni sem kallast einstofna mótefni til meðferðar margvíslegra sjúkdóma þar sem ofvirkni eða vanvirkni ákveðinnar sameindar er lykilatriði í sjúkdómsgerð. Einstofna mótefni gegn ýmsum þáttum ónæmiskerfisins eru t.d. æ algengari í ónæmisbælandi meðferðum gegn gigtsjúkdómum o.þ.h. (oft kölluð líftæknilyf í þessu samhengi). Þau eru líka flókin í framleiðslu og oft dýr, en áreiðanlegri og öruggari en notkun blóðafurða.
Einstofna mótefni sem notuð eru sem lyf hafa mjög gjarnan „-mab“ í enda nafns (adalimumab, tocilizumab, palivizumab o.s.frv.). Þetta vísar til þess að á ensku heitir einstofna mótefni „monoclonal antibody“. Áhrif mótefnanna ráðast alfarið af því gegn hverju þau beinast, bæði virkni og aukaverkanir og þau tilheyra mörgum ólíkum lyfjaflokkum.
Einstofna mótefni hafa verið notuð með góðum árangri um árabil gegn RSV hjá börnum með undirliggjandi sjúkdóma sem gera þeim RSV veikindi enn erfiðari en öðrum börnum. Fyrsta einstofna mótefnið gegn RSV, Synagis (palivizumab), er fremur erfitt í notkun þar sem gefa þarf endurtekna skammta meðan hætta er á RSV yfir vetrartímann, það þarf að gefa á sjúkrahúsi og er mjög dýrt. Vegna allra þessara atriða er það eingöngu nothæft fyrir börn í mikilli hættu á hættulegum veikindum vegna RSV.
Bóluefni gegn RSV sem má gefa fullorðnum eru til, en þau má ekki gefa ungum börnum beint. Eitt þeirra má nota á meðgöngu, svipað og gert er með bólusetningar gegn kíghósta og inflúensu, til að móðir myndi mótefni sem berast svo barninu um fylgju. Þetta bóluefni hefur verið fáanlegt á Íslandi frá 2024. Mögulega verður það notað kerfisbundið í framtíðinni, en ákveðið var að byrja með nirsevimab þar sem það getur gagnast öllum markhópum meðal ung- og smábarna, en bóluefnið (Abrysvo) getur t.d. ekki komið í stað palivizumab fyrir börn með alvarleg heilsufarsvandamál.
Reynt hefur verið að finna leiðir til að verja ungbörn gegn RSV almennt í stað áhættuhópa eingöngu um margra áratuga skeið. Óvirkjað bóluefni þar sem notaðar voru RS veiruagnir óvirkjaðar með formalíni reyndist efla sjúkdóminn frekar en milda hann á 7. áratug 20. aldar, að því virðist vegna of ofsafengins ónæmissvars gegn bóluefninu og sýktum frumum við RSV sýkingar í kjölfarið. Nýrri rannsóknir á bóluefnum sem ekki byggðu á formalínóvirkjuðum veiruögnum sýndu því miður svipaða niðurstöðu og er því ólíklegt að hefðbundin bólusetning nýbura verði notuð gegn RSV. Mótefni gegn RSV hafa ekki haft þau áhrif en þau efla ekki ónæmissvörun gegn RSV í líkama þess sem þau fær heldur óvirkja veiruna ef hún berst í líkamann og draga þannig úr áhrifum RSV smits.
Nirsevimab er einstofna mótefni gegn ákveðnum stað á yfirborði RS veiru. Þegar mótefnið binst hindrar það að veiran komist inn í frumur líkamans. Það þarf því að vera til staðar í blóði áður en einstaklingur smitast af RS veiru til að geta hindrað að veiran komist inn í frumur og fjölgi sér þar. Mótefni á yfirborði veira merkja þær sem aðskotahlut sem ónæmiskerfið hreinsar svo í burtu.
Notkun nirsevimab útilokar ekki RSV sýkingu en dregur verulega úr einkennum og alvarleika sýkingarinnar. Jafnvel börn sem þurfa að leita á sjúkrahús með RSV þurfa síður súrefni eða aðra stuðningsmeðferð og dvelja skemur á sjúkrahúsi ef þau hafa fengið nirsevimab heldur en börn sem ekki hafa fengið bólusetninguna.
Nirsevimab hefur verið notað frá 2023 og hefur haft mikil áhrif til að draga úr alvarlegum veikindum (innlögnum, gjörgæslu og jafnvel andlátum) vegna RSV hjá börnum undir 1 árs þar sem það hefur verið notað. Samdráttur um 80%−90% í RSV innlögnum ungbarna sem fá nirsevimab samanborið við börn á sama aldri sem ekki fá nirsevimab hefur orðið þar sem það hefur verið notað í stórum stíl (t.d. á Spáni, í Frakklandi og Lúxemburg frá 2023).
Nirsevimab er gefið í vöðva eins og bóluefni. Hvert barn í markhópnum fær einn skammt sem getur varið það í a.m.k. 6 mánuði.
Börn með áhættuþætti sem hafa hingað til þurft mánaðarlega skammta af palivizumab yfir RS tímabilið á fyrsta og öðru æviári þurfa ekki að fá nirsevimab nema einu sinni á RS tímabilinu. Þau fá hins vegar stærri skammt og því tvær sprautur samtímis, í stað einnar sem er almenni skammturinn.
Börn sem fæðst hafa frá 1. maí 2025 til 30. september 2025 fá nirsevimab á heilsugæslu, langflest í október/nóvember í venjubundnum skoðunum í ungbarnavernd.
Börn sem fæðast 1. október 2025 til u.þ.b. 31. mars 2026 munu fá nirsevimab á fæðingardeild, vökudeild, við 5 daga skoðun eða á heilsugæslunni samkvæmt skipulagi þeirrar stofnunar þar sem þau fæðast eða fá heilbrigðisþjónustu fyrstu vikurnar. Því fyrr á ævi barnsins sem efnið er gefið á þessum árstíma því betra, því búast má við að RSV hafi náð útbreiðslu frá miðjum nóvember í síðasta lagi. Hugsanlegt er að notkun verði hætt fyrir lok mars ef RSV tímabili lýkur snemma. Sjaldgæft er að mikið sé um RSV sýkingar eftir 1. apríl en ef efnið er til er hægt að nota það meðan RSV faraldur er í gangi.
Börn á fyrsta og öðru æviári með alvarleg undirliggjandi heilsufarsvandamál og miklir fyrirburar. Þessir hópar sem hafa hingað til fengið palivizumab á sjúkrahúsi mánaðarlega yfir RS tímabilið munu fá nirsevimab eins og önnur börn næsta vetur og bara í eitt skipti eins og þau en börn fædd fyrir 1. apríl 2025 þurfa stærri skammt. Líklega fá flestir í þessum hópi sinn skammt á Barnaspítala Hringsins en ef læknar þar meta þörf fyrir efnið hjá einstaklingum sem búa utan höfuðborgarsvæðisins má ræða við heilbrigðisstofnun í heimahéraði hvort hægt sé að fá það gefið þar.
RSV tímabil vetrarins 2025−2026 verður annað RSV tímabil í ævi þeirra barna og lyfið er ekki ætlað hraustum börnum eftir fyrsta RSV tímabil ævinnar þar sem hættan á alvarlegri RSV sýkingu er mun minni en hjá yngri börnum sem aldrei hafa komist í tæri við RSV áður.
Magn lyfsins sem keypt verður í haust miðast við áætlaðan fjölda barna sem fæðst hafa eða munu fæðast á tímabilinu 1. maí 2025 til 31. mars 2026. Ekki er hægt að kaupa lyfið á almennum markaði (ákvörðun framleiðanda).
Einstofna mótefni sem líkja eftir mótefnum sem við myndum sjálf vekja ekki viðbrögð hjá flestum, ólíkt hefðbundnum bóluefnum sem eiga að vekja tiltekin viðbrögð hjá sem flestum.
Aukaverkanir einstofna mótefna hafa yfirleitt með það að gera gegn hverju þau beinast og hvar sú sameind fyrirfinnst í líkamanum, s.s. ónæmisbæling ef mótefnið beinist gegn sameind sem tilheyrir ónæmiskerfinu eins og á við um mörg lyf sem notuð eru gegn gigtsjúkdómum. Hvað varðar nirsevimab er það sértækt gegn framandi sameind, svo bein áhrif á frumur okkar eru ekki fyrir hendi.
Mótefni sem bindast lyfinu geta verið til staðar eða komið fram eftir lyfjagjöfina. Tíðni þeirra var lág í rannsóknum framleiðanda fyrir markaðssetningu (um 1% í samanburðarhópi en 6% hjá þeim sem fengu lyfið). Ekki er vitað hvort þau draga úr virkni lyfsins.
Við endurtekna lyfjagjöf með sama mótefni geta vaknað ofnæmisviðbrögð, en nirsevimab er yfirleitt gefið einu sinni og í undantekningartilfellum tvisvar til þrisvar. Eiginlegt ofnæmi fyrir nirsevimab er afar ólíklegt en ef það kemur fram hjá barni með undirliggjandi heilsufarsvandamál s.s. hjartagalla er mikilvægt að það sé tilkynnt og metið hvernig eigi að haga RSV forvörn næsta tímabil ef við á.
Atvik í kjölfar bólusetningar í rannsóknum framleiðanda fyrir markaðssetningu voru svipað algeng eftir lyfleysu og eftir lyfið. Tilkynnt var um atvik sem talin voru tengjast lyfinu hjá 1% barna sem fengu lyfið í fasa III rannsókn framleiðanda hjá fullburða og nær fullburða börnum (MELODY), engin alvarleg atvik voru talin hafa orsakasamband við lyfið. Útbrot sem talin voru tengjast lyfinu komu fram eftir lyfjagjöfina hjá einu barni og óværð eða önnur teikn um óþægindi almennt eða á stungustað en hiti var algengari hjá lyfleysuhópi en þeim sem fengu nirsevimab í þessari rannsókn.
Á Spáni 2023−2024 voru yfir 277.000 skammtar af nirsevimab notaðir en tilkynnt um 141 aukaverkun hjá eingöngu 67 börnum (um 50 aukaverkanir fyrir hverja 100.000 skammta sem notaðir voru). Flestar þeirra voru hiti (3 tilkynningar fyrir 100.000 skammta gefna) eða óvirkni (þ.e.a.s. RSV eða sjúkdómur sem samræmist RSV greindist þrátt fyrir mótefnagjöfina; 7−8 tilkynningar fyrir 100.000 skammta gefna). Flest barnanna sem tilkynnt var um aukaverkanir hjá voru ekki nýburar og fengu sennilega bólusetningar með hefðbundnum bóluefnum samhliða gjöf nirsevimab, en hiti er mjög algeng aukaverkun bólusetninga hjá ungbörnum. Ekki kemur á óvart að sum barna sem fengu nirsevimab fengu samt RSV eða einkenni sem samræmdust RSV sýkingu. Útbrot og staðbundnar aukaverkanir á stungustað voru einnig nokkuð áberandi í þessum tilkynningum (um 7 tilkynningar fyrir hverja 100.000 skammta gefna), en í uppgjörinu kemur ekki fram hvort gefnar voru leiðbeiningar um að nota annan útlim fyrir nirsevimab heldur en aðrar bólusetningar til að hægt væri að aðgreina staðbundnar aukaverkanir í tengslum við nirsevimab frá þeim sem tengdust bóluefnum sem gefin voru við sama tækifæri. Tímasetningar helstu aukaverkana sem tilkynnt var um voru gróflega:
Hiti: Miðgildi 2 dögum eftir gjöf fyrsta skammts nirsevimab (við hefðbundin bóluefni er algengast að hiti komi fram innan tveggja sólarhringa).
Óvirkni: Miðgildi talið í mánuðum eftir gjöf nirsevimab.
Útbrot og staðbundnar aukaverkanir: Mismunandi útgáfur, miðgildi allt frá 1 degi til 14 daga eftir lyfjagjöfina.
Áætlun fyrir 2025−2026 (ensk samantekt) – ekki liggur fyrir samantekt um áhrifin í Finnlandi.
Fyrir fullorðna í aukinni hættu á alvarlegum RS veirusýkingum:
Prótínbóluefni (Abrysvo® og Arexvy®) – mjög svipuð bóluefni sem fullorðnir frá fimmtugu með undirliggjandi áhættuþætti (Abrysvo frá 18 ára) s.s. lungnaþembu eða hjartabilun og allir eftir 60 ára aldur geta nýtt sér. Mælt er með almennri notkun þessara bóluefna frá 75 ára í nokkrum Evrópulöndum en ekki hafa verið gefnar út leiðbeiningar hér á landi.
mRNA bóluefni (mResvia®) – leiðir til mótefnamyndunar gegn sömu sameind og finnst í prótínbóluefnunum, má nota frá sextugu skv. evrópsku markaðsleyfi.
Eftir snertingu við smitaðan einstakling er mikilvægt að gæta fyllsta hreinlætis og þvo hendur vel til að forðast smit.
RS veirusýking er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis, en til þeirra teljast sjúkdómar sem ógnað geta almannaheill.
Þegar grunur vaknar um þannig sýkingu eða hún hefur verið staðfest nægir að tilkynning komi frá rannsóknarstofu, til sóttvarnalæknis.