Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 25. nóv. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 5. mars 2024
Sýnir breytingar gerðar 5. mars 2024 af rg.nr. 280/2024

750/2016

Reglugerð um flugvernd.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að auknu öryggi í flugi með bættri flugvernd og viðeigandi ráðstöfunum til að koma í veg fyrir ólöglegar aðgerðir sem beinast gegn almenningsflugi og almannahagsmunum.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um eftirfarandi eftirlitsskylda aðila:

  1. rekstraraðila flugvallar þar sem millilandaflug fer fram;
  2. flugrekanda, þar með talið flytjanda, sem veitir þjónustu á flugvelli sem vísað er til í a-lið; og
  3. aðila sem beita flugverndarráðstöfunum og starfar á athafnasvæði sem staðsett er inni á eða utan við flugvöll og selur vöru og/eða þjónustu til eða í gegnum flugvöll sem vísað er til í a-lið.

Ráðstafanir sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð skulu gilda um flugvelli þar sem millilandaflug fer fram. Ráðstafanirnar gilda ekki um innanlandsflug milli flugvalla á íslensku yfirráðasvæði, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 69/2009, frá 29. maí 2009.

3. gr. Orðskýringar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. ACC3-flugrekandi (Air Cargo or Mail Carrier operating into the Union from a Third Country Airport): Flugrekandi sem flytur farm eða póst frá flugvelli í þriðja ríki og er ekki skráður skv. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1998 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd á einhverjum þeim flugvelli sem fellur undir gildissvið reglugerðar (EB) nr. 300/2008.
  2. Aðgangseftirlit/aðgangsstýring (Access control): Beiting aðgerða til að koma í veg fyrir aðgang óviðkomandi aðila og/eða óleyfilegra ökutækja.
  3. Aðili (Entity): Einstaklingur, stofnun eða fyrirtæki að undanskildum umráðanda eða flugrekanda.
  4. Almenningsflug (Civil Aviation): Flug í samræmi við reglur sem settar eru af flugmálayfirvöldum og starfrækt undir eftirliti eða stjórn Samgöngustofu fyrir allt flug annað en herflug. Almenningsflug tekur hvort tveggja til atvinnuflugs og einkaflugs.
  5. Bakgrunnsathugun (Background Check): Athugun á því hver einstaklingur er og upplýsingum lögreglu um sakaferil hans, þ.m.t. hvort hann eigi afbrotaferil að baki, sem lið í mati á því hvort óhætt er að heimila honum aðgang að haftasvæði flugverndar án fylgdar og viðkvæmum trúnaðarupplýsingum um flugvernd.
  6. Bannaður hlutur (Prohibited Article): Vopn, sprengiefni eða önnur hættuleg tæki, hlutir eða efni sem nota má til að fremja ólöglegt athæfi sem stofnar flugvernd í almenningsflugi í hættu. Viðmiðunarskrá yfir bannaða hluti af því tagi er að finna í viðauka við reglugerð þessa.
  7. Birgðir til notkunar um borð (In-flight Supplies): Neysluvörur eða vörur sem eru til sölu um borð í loftfari.
  8. Flugrekandi (Air Carrier): Fyrirtæki sem stundar flutninga í lofti og hefur gilt flugrekstrarleyfi eða sambærilegt leyfi.
  9. Flugsvæði (Airside): Athafnasvæði á flugvelli, aðliggjandi landsvæði og byggingar eða hlutar af þessu þar sem aðgangur er takmarkaður.
  10. Flugvallarbirgðir (Airport Supplies): Allir hlutir sem ætlunin er að selja, nota eða gera tiltæka á haftasvæði flugverndar á flugvöllum.
  11. Flugvernd (Aviation Security): Sambland af ráðstöfunum og mannlegum og náttúrulegum úrræðum til að vernda almenningsflug gegn ólöglegum aðgerðum.
  12. Flugverndaráætlun (Aviation Security Programme): Skipulag og reglur samkvæmt því um varúðarráðstafanir, viðbrögð og tækjaviðbúnað sem settar eru fyrir tiltekið svæði, t.d. ríki eða einstaka flugvelli og ætlað er að vernda almenningsflug gegn ólögmætum afskiptum.
  13. Flugverndarstjóri (Security Manager): Fulltrúi eftirlitsskylds aðila sem samþykktur er af flugmálayfirvöldum og ábyrgur fyrir að leiðbeina, innleiða og framfylgja flugverndaráætlun.
  14. Haftasvæði flugverndar (Security Restricted Area): Hluti flugsvæðis þar sem öðrum kröfum um flugvernd er beitt til viðbótar við takmarkaðan aðgang.
  15. Handfarangur (Cabin Baggage): Farangur sem er ætlaður til flutnings í farþegarými loftfars.
  16. Lestarfarangur (Hold Baggage): Farangur sem er ætlaður til flutnings í lest loftfars.
  17. Samþykki vegna flugverndar (Security Approval): Sérstakt samþykki útgefið af Samgöngustofu vegna flugverndar, þar sem staðfest er að fullnægjandi flugverndaraðgerðum sé lýst í viðeigandi flugverndaráætlun.
  18. Skimun (Screening): Beiting tæknilegra aðferða eða annarra aðferða til að bera kennsl á og/eða finna bannaða hluti.
  19. Skráður sendandi (Account Consignor): Sendandi sem sendir farm eða póst fyrir eigin reikning og þar sem verklagsreglur hans uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd nægilega vel til að unnt sé að flytja farm eða póst með fraktvél eingöngu.
  20. Umráðandi (Operator): Einstaklingur, stofnun eða fyrirtæki sem annast eða býðst til að annast flutninga í lofti.
  21. Viðkvæmasti hluti haftasvæðis flugverndar á flugvelli (Critical Part of Security Restricted Areas of Airport): Skilgreint og afmarkað svæði innan haftasvæðis flugverndar á flugvelli, t.d. landgangur, landgöngubrú, hreint svæði innan flugstöðvar o.s.frv.
  22. Viðurkenndur birgir birgða til notkunar um borð (Regulated Supplier of in-flight Supplies): Birgir sem viðhefur verklagsreglur sem uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd þannig að unnt sé að afhenda birgðir til notkunar um borð beint um borð í loftfarið.
  23. Viðurkenndur umboðsaðili (Regulated Agent): Flugrekandi, umboðsaðili, farmmiðlun eða einhver annar aðili sem hefur með höndum flugverndareftirlit í tengslum við farm eða póst.
  24. Þekktur birgir birgða til notkunar um borð (Known Supplier of in-flight Supplies): Birgir sem viðhefur verklagsreglur sem uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd þannig að unnt sé að afhenda flugrekanda eða viðurkenndum birgi birgðir til notkunar um borð en ekki beint um borð í loftfarið.
  25. Þekktur birgir flugvallarbirgða (Known Supplier of Airport Supplies): Birgir sem viðhefur verklagsreglur sem uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd þannig að unnt sé að flytja flugvallarbirgðir inn á haftasvæði flugverndar.
  26. Þekktur sendandi (Known Consignor): Sendandi sem sendir farm eða póst fyrir eigin reikning og þar sem verklagsreglur hans uppfylla sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd þannig að unnt er að flytja farm eða póst með hvaða loftfari sem er.

4. gr. Eftirlitsstjórnvald.

Samgöngustofa er tilnefnt eftirlitsstjórnvald samkvæmt reglugerð þessari og annast tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli reglugerðarinnar, nema annað sé tekið fram.

Samgöngustofa skal sjá um gerð og að viðhalda flugverndaráætlun Íslands og þjálfunaráætlun Íslands vegna flugverndar til að tryggja að fylgt sé ákvæðum reglugerðar þessarar. Stofnunin ber ábyrgð á samræmingu og eftirliti með framkvæmd áætlananna. Jafnframt skal stofnunin sjá um gerð og framkvæmd áætlunar um gæðaeftirlit með flugvernd í almenningsflugi.

Samgöngustofa skal sjá til þess að eftirlitsskyldur aðili samkvæmt 2. gr. geri flugverndaráætlun og komi sér upp gæðakerfi fyrir sína starfsemi. Með flugverndaráætlun skal fylgja lýsing á gæðakerfi hins eftirlitsskylda aðila þar sem fram kemur m.a. hvernig innra eftirliti hans sé háttað og hvernig tryggt sé að kröfur reglugerðar þessarar, flugverndarráðstafanir og verklagi hins eftirlitsskylda aðila sé framfylgt. Flugverndaráætlanir skulu samþykktar af Samgöngustofu og sæta eftirliti stofnunarinnar.

Samgöngustofa skal sjá til þess að eftirlitsskyldur aðili samkvæmt 2. gr. geri þjálfunaráætlun um flugvernd í almenningsflugi. Eftirlitsskyldur aðili samkvæmt a- og b-lið 2. gr. skal skila inn þjálfunaráætlun vegna flugverndar samhliða flugverndaráætlun. Eftirlitsskyldur aðili samkvæmt 3. tölulið 2. gr. skal lýsa þjálfun starfsmanna og hvernig henni er háttað. Eftirlitsskyldur aðili er ábyrgur fyrir því að starfsfólk hans sem hefur flugverndarlegt hlutverk sé með fullnægjandi þjálfun samkvæmt flugverndaráætlun Íslands, þjálfunaráætlun Íslands vegna flugverndar og ákvæðum reglugerðar þessarar, sbr. reglugerð (ESB) 2015/1998 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, með síðari breytingum.

Samgöngustofa skal innleiða og annast gæðaeftirlit með flugvernd og gera viðeigandi úttektir á flugverndarráðstöfunum með aðferðum gæðastjórnunar og samkvæmt bestu starfsvenjum.

Samgöngustofu er heimilt að fela sjálfstæðum vottunaraðilum að hafa eftirlit með framkvæmd afmarkaðra þátta flugverndar hér á landi. Samgöngustofa skal hafa eftirlit með að vottunaraðilar starfi í samræmi við ákvæði laga um loftferðir og reglugerð þessa.

Samgöngustofu er heimilt vegna sérstakra aðstæðna að setja frekari fyrirmæli um verklag einstakra þátta í almenningsflugi, í flugverndaráætlun Íslands, sem aðeins verður birt viðeigandi aðilum.

5. gr. Úttekt Eftirlitsstofnunar EFTA.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur heimild til að framkvæma úttektir á flugverndareftirliti í samvinnu við Samgöngustofu á íslenskum millilandaflugvöllum og hjá eftirlitsskyldum aðilum sem beita flugverndarráðstöfunum, í þeim tilgangi að fylgjast með beitingu reglna um flugvernd hér á landi, í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Farið skal með tilkynningu Eftirlitsstofnunar EFTA um skoðun sem trúnaðarmál til að tryggja að skoðunarferlið skaðist ekki. Eftirlitsaðilar stofnunarinnar skulu hafa aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru til að meta hvort farið sé að sameiginlegum kröfum um flugvernd.

6. gr. Sameiginlegar grunnkröfur.

Eftirlitsskyldir aðilar skulu fylgja sameiginlegum grunnkröfum um að verja almenningsflug gegn ólöglegu athæfi sem stofnað gæti flugvernd í almenningsflugi í hættu, eins og mælt er fyrir um í reglugerð (EB) nr. 300/2008 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2320/2002, með síðari breytingum (hér eftir nefnd reglugerð (EB) nr. 300/2008), sbr. 1. mgr. 53. gr., og reglugerðum og ákvörðunum settum á grundvelli hennar.

Við nánari framkvæmd á flugverndarreglum skv. 1. mgr. er jafnframt vísað í leiðbeinandi efni útgefið af ICAO og ECAC. Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja kröfum reglugerðarinnar eða er þeim til frekari uppfyllingar, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir að mati Samgöngustofu. Vísað er til þessara leiðbeiningarreglna í flugverndaráætlun Íslands.

Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágur frá sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd sem um getur í reglugerð þessari, sbr. reglugerð (EB) nr. 300/2008 og reglugerð (EB) nr. 1254/2009, sbr 1. mgr. 53. gr. og samþykkja annars konar verndarráðstafanir sem veita fullnægjandi vörn á grundvelli staðbundins áhættumats á flugvelli eða afmörkuðu svæði flugvallar þar sem umferð takmarkast við einn eða fleiri flokka.

Samgöngustofu er heimilt að kveða á um sérstakar verklagsreglur um flugvernd eða veita undanþágur frá vörn (protection) og flugvernd á flugsvæðum flugvalla, í samræmi við ákvæði reglugerðar (ESB) 2015/1998 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, sbr. þó viðmiðanir um frávik sem settar eru fram í reglugerð (EB) nr. 272/2009 um viðbót við sameiginlegar grunnkröfur um flugvernd í almenningsflugi, sem mælt er fyrir um í viðaukanum við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008, sbr. 1. mgr. 53. gr.

Samgöngustofu er heimilt að gera ráðstafanir sem eru strangari en sameiginlegu grunnkröfurnar, sem um getur í 1. mgr., kveða á um. Slíkar ráðstafanir skulu gerðar á grundvelli áhættumats, vera viðeigandi, hlutlægar, án mismununar og í réttu hlutfalli við áhættuna sem um ræðir, sbr. ákvæði laga um loftferðir og samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Samgöngustofa skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um ráðstafanir skv. 3. og 5. mgr.

II. KAFLI Flugvernd á flugvöllum.

7. gr. Skipulagning flugvalla.

Rekstraraðili flugvallar er ábyrgur fyrir flugverndarráðstöfunum á og við flugvöll. Rekstraraðili flugvallar skal skilgreina haftasvæði flugverndar og önnur svæði á flugvellinum í samræmi við flugverndaráætlun Íslands og ákvæði reglugerðar þessarar.

Skilgreiningu svæða skal lýst í flugverndaráætlun flugvallarins og skal hún samþykkt af Samgöngustofu.

Rekstraraðili flugvallar er ábyrgur fyrir aðgangsstýringu inn á flugvöllinn; eftirliti og eftirlitsferðum á skilgreindum svæðum sem eru hluti af flugvellinum og verndun mannvirkja. Samgöngustofu er heimilt að leyfa sérstakar flugverndarráðstafanir eins og þeim er lýst í flugverndaráætlun Íslands, á flugvöllum þar sem færri en eitt áætlað millilandaflug er frá flugvellinum að meðaltali á dag.

8. gr. Haftasvæði flugverndar.

Haftasvæði flugverndar skal a.m.k. taka til eftirfarandi svæða:

  1. þess hluta flugvallar sem skimaðir brottfararfarþegar hafa aðgang að;
  2. þess hluta flugvallar, sem heimilt er að skimaður lestarfarangur til brottfarar fari um eða sé geymdur á, nema um sé að ræða tryggilega frágenginn farangur og
  3. þess hluta flugvallar sem ætlaður er til að leggja loftfari í því skyni að hleypa farþegum um borð eða að lesta það.

Á flugvelli þar sem fleiri en 40 starfsmenn hafa aðgangsheimild inn á haftasvæði flugverndar skal skilgreina svæði samkvæmt 1. mgr. sem viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar á flugvelli.

9. gr. Aðgangur í heimildarleysi.

Ef talið er að aðili hafi í heimildarleysi farið inn á viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar eða haftasvæði flugverndar skal rýma svæðið; framkvæma nákvæma skoðun á því og skima aðila inn á það að nýju, samkvæmt kröfum þar um.

III. KAFLI Samþykki vegna flugverndar, flugverndaráætlana og flugverndarstjóra.

10. gr. Umsókn um samþykki vegna flugverndar.

Eftirtaldir aðilar skulu sækja um samþykki vegna flugverndar til Samgöngustofu:

  1. rekstraraðili flugvallar með starfsleyfi útgefið af Samgöngustofu;
  2. flugrekandi með útgefið flugrekendaskírteini af Samgöngustofu;
  3. viðurkenndur umboðsaðili;
  4. þekktur sendandi;
  5. viðurkenndur birgir birgða til notkunar um borð í loftfari;
  6. flugafgreiðsluaðili.

Flugrekandi sem hefur samþykki vegna flugverndar telst hafa stöðu sem viðurkenndur umboðsaðili enda uppfylli hann skilyrði samkvæmt 6. kafla reglugerðar (ESB) 2015/1998.

Óheimilt er að gefa út starfsleyfi, flugrekendaskírteini eða annað sambærilegt skírteini til handa aðila sem veitir þjónustu og hefur flugverndarlegt hlutverk, nema að fengnu samþykki Samgöngustofu vegna flugverndar.

11. gr. Upplýsingar með umsókn.

Umsókn um samþykki skal senda Samgöngustofu með eftirfarandi upplýsingum:

  1. opinberu nafni, firmanafni, heimilisfangi og póstfangi umsækjanda, auk símanúmera og tölvupóstfanga,
  2. lýsingu á rekstri aðila eða viðeigandi deildar eða einingar sem sækir um samþykki,
  3. flugverndaráætlun, skv. 12. gr., sem m.a. sýnir fram á að umsækjandi geti, svo fullnægjandi sé, stjórnað og haft eftirlit með flugverndarráðstöfunum.
  4. nafni og samskiptaupplýsingum um þann aðila sem tilnefndur er sem flugverndarstjóri, sbr. 17. grein.

12. gr. Flugverndar- og þjálfunaráætlun.

Aðili sem sækir um samþykki vegna flugverndar skv. kafla þessum, skal leggja fram flugverndaráætlun með þjálfunaráætlun vegna flugverndar sem greinir hvernig viðkomandi aðili uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar. Samþykki vegna flugverndar tekur einnig til samþykkis flugverndaráætlunar.

13. gr. Gæðakerfi.

Eftirlitsskyldur aðili skal hafa gæðakerfi fyrir þá starfsemi sem hann sinnir. Gæðakerfi skal uppfylla kröfur flugverndaráætlunar Íslands og lýsa m.a. skipulagi flugverndarmála, flugverndarþjálfun, ábyrgð á framkvæmd, verklagi, sérstökum flugverndaraðgerðum, ásamt því að lýsa hvernig eftirliti rekstraraðila er háttað til að tryggja að farið sé að gildandi flugverndarkröfum. Gæðakerfi skal vera í samræmi við ákvæði reglugerðar (EB) nr. 300/2008, með síðari breytingum, og reglugerða settra á grundvelli hennar, sbr. 1. mgr. 53. gr.

14. gr. Skilyrði samþykkis.

Heimilt er að veita samþykki vegna flugverndar þegar:

  1. tilnefndur flugverndarstjóri hefur hlotið viðurkennda þjálfun vegna flugverndar,
  2. flugverndar- og þjálfunaráætlun aðila hefur verið samþykkt,
  3. aðili hefur staðfest skriflega að hann muni framfylgja samþykktri flugverndar- og þjálfunaráætlun sinni, ákvæðum þessarar reglugerðar og öðrum ákvörðunum og fyrirmælum á þessu sviði,
  4. engin alvarleg frávik eða áhættur, hafa verið greindar að mati Samgöngustofu út frá flugverndarlegum sjónarmiðum er snerta starfsemi aðila, hvorki í úttektum né að öðru leyti,
  5. engin ítrekuð frávik eða fjöldi frávika hafi verið greind, sem hvert um sig gætu verið minni háttar en þegar saman eru tekin gætu reynst alvarleg, að mati Samgöngustofu og
  6. fyrir liggur fullnægjandi lýsing á gæðakerfi aðila að mati Samgöngustofu.

Heimilt er að veita samþykki vegna flugverndar til allt að 5 ára í senn. Umsókn um endurnýjun samþykkis skal berast eigi síðar en 30 dögum áður en gildandi samþykki rennur út.

15. gr. Samþykki flugverndaráætlunar erlendra flugrekenda.

Flugrekandi með útgefið flugrekandaskírteini frá erlendu ríki sem flýgur áætlunarflug milli Íslands og erlends ríkis skal leggja fram flugverndaráætlun sína til Samgöngustofu með hæfilegum fyrirvara, áður en flug er hafið. Samgöngustofa skal samþykkja verkferla vegna strangari krafna samkvæmt 6. gr., ef við á.

Flugrekandi með útgefið flugrekandaskírteini frá erlendu ríki sem flýgur óreglubundið flug milli Íslands og erlends ríkis, fleiri en fjögur flug yfir tveggja mánaða skeið, skal einnig leggja fram flugverndaráætlun sína til Samgöngustofu, með hæfilegum fyrirvara, fyrir áætlað flug.

Liggi ekki fyrir samþykki á flugverndaráætlun flugrekandans frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal Samgöngustofa kalla eftir flugverndaráætluninni.

16. gr. Svipting samþykkis.

Heimilt er að svipta handhafa, samþykkis vegna flugverndar, verði hann uppvís að brotum gegn ákvæðum laga og/eða reglna og talið er, með hliðsjón af eðli brotsins og atvikum öllum, eða annars framferðis aðila eða starfsmanns hans, varhugavert að hann hafi samþykki. Heimilt er að svipta handhafa samþykki tímabundið eða að fullu við ítrekuð brot.

Ákvörðun um sviptingu skal rökstudd og handhafa samþykkis gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en endanleg ákvörðun er tekin í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Heimilt er að svipta samþykki vegna flugverndar tímabundið meðan á meðferð máls stendur.

Hafi handhafi samþykkis verið sviptur samþykki samkvæmt þessari grein er honum óheimil starfræksla samkvæmt starfsleyfi, flugrekandaskírteini eða öðru sambærilegu skírteini til handa aðila sem veitir þjónustu og hefur flugverndarlegt hlutverk. Samgöngustofa skal í slíkum tilvikum afturkalla starfsleyfi viðkomandi aðila, flugrekandaskírteini eða annað sambærilegt skírteini til handa aðila sem veitir þjónustu og hefur flugverndarlegu hlutverki að gegna. Samgöngustofa hefur jafnframt heimild til að takmarka starfsemi handhafa samþykkis vegna flugverndar samkvæmt þessari grein eða loka svæðum, þegar í stað, ef alvarlegt frávik greinist við úttekt viðkomandi aðila, óháð því hvort mál bíður kærumeðferðar samkvæmt stjórnsýslulögum.

17. gr. Flugverndarstjóri.

Aðili með samþykki vegna flugverndar skal tilnefna flugverndarstjóra sem ábyrgur er fyrir að innleiða og framfylgja flugverndaráætlun aðilans. Flugverndarstjórinn skal samþykktur af Samgöngustofu og vera sérstakur trúnaðarmaður stofnunarinnar, varðandi flugverndarmál. Í trúnaðarskyldu flugverndarstjóra felst skylda til að upplýsa Samgöngustofu um hvaðeina sem við kemur flugverndarráðstöfunum aðila. Tilnefndur flugverndarstjóri skal heyra beint undir fyrirsvarsmann fyrirtækis og skal honum tryggt sjálfstæði í starfi.

Tilnefndur flugverndarstjóri skal hafa hlotið viðeigandi þjálfun vegna flugverndar og viðeigandi þjálfun fyrir flugverndarstjóra sem viðurkennd er af Samgöngustofu.

Flugverndarstjórar skulu samþykktir af Samgöngustofu til starfans og heimilt er að áskilja að þeir sanni kunnáttu sína með sérstakri próftöku. Komi í ljós að kunnáttu eða hæfni flugverndarstjóra sem hlotið hefur viðurkenningu sé ábótavant eða fyrirsvarsmaður brýtur trúnað við stofnunina getur hún fellt viðurkenningu sína niður.

Tilkynna skal með minnst 30 daga fyrirvara sé ætlunin að skipta um tilnefndan flugverndarstjóra og allar breytingar á upplýsingum og samskiptaupplýsingum um hann.

Flugverndarstjóri skal hafa undirgengist bakgrunnsathugun samkvæmt reglugerð þessari fyrir tilnefningu.

IV. KAFLI Tilnefning aðila vegna flugverndar, skráðir sendendur, þekktir birgjar og ACC3-flugrekendur.

18. gr. Almennt.

Um skráða sendendur, þekkta birgja og ACC3-flugrekendur gilda Evrópureglugerðir flugverndar sem innleiddar eru með reglugerð þessari, sbr. 53. gr.

19. gr. Skráður sendandi.

Viðurkenndur umboðsaðili skal tilnefna skráðan sendanda sem sendir farm eða póst fyrir eigin reikning að því gefnu að verklagsreglur skráða sendandans uppfylli sameiginlegar reglur og kröfur um flugvernd nægilega vel til að unnt sé að flytja farm eða póst með farmvél eingöngu.

20. gr. Þekktur birgir birgða til notkunar um borð í loftfari.

Aðili sem hefur með höndum flugverndareftirlit og afhendir birgðir til notkunar um borð, en ekki beint um borð í loftfar, skal tilnefndur sem þekktur birgir af hálfu fyrirtækis sem hann afhendir birgðirnar. Fyrirtæki sem afhent er til skal vera samþykkt sem viðurkenndur birgir.

21. gr. Þekktur birgir flugvallarbirgða.

Aðili, sem afhendir vöru inn á haftasvæði flugverndar og hefur með höndum flugverndareftirlit, og afhendir flugvallarbirgðir, skal tilnefndur sem þekktur birgir af hálfu rekstraraðila flugvallarins.

22. gr. ACC3-flugrekandi.

Flugrekandi sem flytur flugfarm eða flugpóst inn til Evrópu frá þriðja ríki, skal sækja um að vera viðurkenndur ACC3-flugrekandi til Samgöngustofu eða þar til bærs yfirvalds samkvæmt flugverndarreglum.

ACC3-flugrekandi skal tryggja að flugfarmur eða flugpóstur sem hann flytur sé upprunninn frá aðila sem hlotið hefur viðurkenningu sem umboðsaðili eða þekktur sendandi í samræmi við flugverndarreglur.

23. gr. Eftirlit Samgöngustofu.

Aðilar sem tilnefndir eru samkvæmt þessum kafla sæta eftirliti Samgöngustofu.

V. KAFLI Aðgangsheimildir.

24. gr. Almennt um aðgangsheimildir.

Einstaklingi, ökutæki og vinnuvél skal einungis heimil ferð inn á og um flugsvæði flugvallar, að því tilskildu að fyrir liggi gild heimild eða leyfisbréf og lögmæt ástæða til að vera þar.

Rekstraraðila flugvallar eða flugrekanda er einungis heimilt að gefa út aðgangskort eða áhafnarkort sem veita aðgang að haftasvæðum flugverndar, hafi einstaklingur staðist bakgrunnsathugun samkvæmt kafla þessum. Svipta skal einstaklinga þegar útgefnum aðgangsheimildum að haftasvæðum flugverndar standist þeir ekki reglubundna bakgrunnsskoðun

Um aðgang og útgáfu aðgangsheimilda einstaklinga og ökutækja inn á flug- og haftasvæði flugvalla gilda Evrópureglugerðir flugverndar sem innleiddar eru með 53. gr. reglugerðar þessarar.

25. gr. Umsókn um aðgang að haftasvæði flugverndar.

Vinnuveitandi eða einstaklingur sem þarf starfa sinna vegna að hafa aðgang að haftasvæði flugverndar skal sækja um aðgang til rekstraraðila flugvallar. Umsókn um aðgangskort að haftasvæði flugverndar skal vera á þar til gerðu eyðublaði sem rekstraraðili flugvallar ákveður og liggur frammi á skrifstofu viðkomandi flugvallar, hjá rekstraraðila flugvallar eða flugrekanda. Í umsókn skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt 26. gr. til að staðfesta megi bakgrunn viðkomandi umsækjanda. Vinnuveitandi skal sækja um aðgangskort fyrir starfsmann sinn. Rekstraraðila flugvallar er óheimilt að gefa út aðgangskort til einstaklings nema að fenginni jákvæðri umsögn lögreglu úr bakgrunnsathugun.

Flugrekandi sem hyggst gefa út áhafnarkort til einstaklings skal óska eftir því að farið verði fram á bakgrunnsathugun á viðkomandi einstaklingi hjá lögreglu. Í beiðni um bakgrunnsathugun skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt 26. gr. til að staðfesta megi bakgrunn viðkomandi starfsmanns. Flugrekanda er óheimilt að gefa út áhafnarkort til einstaklings nema að fenginni jákvæðri umsögn lögreglu úr bakgrunnsathugun.

Með umsókn um aðgang að haftasvæði flugverndar og beiðni um bakgrunnsathugun frá flugrekanda skal leggja fram skriflega heimild einstaklings fyrir öflun nauðsynlegra gagna t.d. frá lögreglu til að tryggja megi að fullnægjandi bakgrunnsathugun geti farið fram. Rekstraraðili flugvallar og flugrekandi skulu senda beiðni um bakgrunnsathugun til lögreglu, á þar til gerðu eyðublaði sem ríkislögreglustjóri ákveður, til að unnt verði að framkvæma bakgrunnsathugun á einstaklingi í samræmi við 26. gr. Heimilt er að óska frekari upplýsinga ef nauðsyn krefur.

Hafi viðkomandi verið búsettur erlendis á síðastliðnum 5 árum skal hann leggja fram þau gögn sem óskað er til þess að unnt sé að leggja mat á umsókn hans svo sem sakavottorð eða sambærileg vottorð frá erlendu stjórnvaldi þar sem hann hefur verið búsettur eða dvalið. Erlendur ríkisborgari skal leggja fram viðurkennt sakavottorð frá heimaríki eða því ríki sem viðkomandi hefur haft búsetu í, síðastliðin 5 ár áður en hann fluttist til Íslands. Sakavottorð skal dagsett innan þriggja mánaða frá dagsetningu umsóknar.

Nú eru lögð fram gögn sem ekki teljast nægjanleg til að hægt sé að meta viðkomandi og hann hefur ekki sinnt ítrekaðri beiðni um frekari gögn eða upplýsingar og skal þá rekstraraðili flugvallar hafna umsókn.

Óheimilt er að ráða einstakling til starfa, sem þarf starfsins vegna að hafa aðgang að haftasvæði flugverndar, nema að undangenginni bakgrunnsathugun, samkvæmt 26. gr. Rekstraraðili flugvallar sem gefur út heimild til tímabundins aðgangs að haftasvæði flugverndar til einstaklings, skal ábyrgjast að viðkomandi einstaklingur sé ávallt í fylgd með aðila sem hlotið hefur heimild til aðgangs að haftasvæði flugverndar að undangenginni bakgrunnsathugun samkvæmt 26. gr. og heimild rekstraraðila flugvallar til að fylgja einstaklingi um haftasvæði flugverndar.

Einstaklingur skal njóta gagnkvæmrar viðurkenningar á bakgrunnsathugun lögreglu sem hann hefur hlotið í öðru ríki, geti hann sýnt fram á það með viðeigandi gögnum, sé eftir því óskað. Lögregla getur ákveðið að einstaklingur sem hlotið hefur bakgrunnsathugun lögreglu í öðru ríki skuli engu að síður gangast undir bakgrunnsathugun ríkislögreglustjóra hér á landi, áður en hann fær heimild til aðgangs að haftasvæði flugverndar samkvæmt reglugerð þessari.

Kröfur samkvæmt þessari grein gilda um umsóknir inn á haftasvæði flugverndar og um áhafnarkort sem flugrekandi gefur út.

26. gr. Bakgrunnsathugun.

Athuga skal a.m.k. 5 ár aftur í tímann, frá dagsetningu umsóknar, bakgrunn hvers einstaklings sem þarf starfa sinna vegna að hafa aðgang að haftasvæði flugverndar til að unnt sé að leggja mat á hvort heimila eigi aðgang án fylgdar. Athugunin skal framkvæmd af lögreglu og m.a. felast í skoðun á viðkomandi í skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu, skoðun á sakavottorði; upplýsingakerfi Interpol; upplýsingum úr Þjóðskrá; eftir atvikum fyrirspurnum til erlendra yfirvalda; skoðun hjá tollyfirvöldum; héraðsdómi og í öðrum opinberum skrám. Ríkislögreglustjóri ákveður hvaða lögregluembætti fer með framkvæmd bakgrunnsathugana Rekstraraðili flugvallar og flugrekandi skulu tryggja að bakgrunnsathugun sé endurtekin með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en á 5 ára fresti. Að auki er lögreglu heimilt, að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni rekstraraðila flugvallar eða flugrekanda, að gera úrtaksathugun á þeim aðilum sem staðist hafa bakgrunnsathugun, eins lengi og aðgangsheimildir þeirra eru í gildi. Jafnframt er lögreglu heimilt að hafa eftirlit með skráningum bakgrunnsathugaðra einstaklinga í málaskrá lögreglu, eins lengi og aðgangsheimildir þeirra eru í gildi. Rekstraraðili flugvallar og flugrekandi skulu tilkynna lögreglu um starfslok viðkomandi einstaklings sem hlotið hefur bakgrunnsathugun hjá embættinu svo eftirliti með honum í málaskrá lögreglu samkvæmt framangreindu megi ljúka. Nú gefur skoðun lögreglu skv. grein þessari 5 ár aftur í tímann vísbendingar um að nauðsynlegt sé að kanna feril einstaklings frekar og lengra aftur í tímann og hefur lögreglan þá heimild til að kanna feril einstaklings 10 ár aftur í tímann. Vísbendingar þessar geta verið færslur í málaskrá lögreglu, sakavottorði, óvissa um heimili eða dvalarstað o.fl.

Lögregla skal skrá einstakling sem fengið hefur bakgrunnsathugun í málaskrá lögreglu. Komi í ljós að einstaklingur sem hlotið hefur bakgrunnsathugun, brýtur af sér eftir að athugun átti sér stað, skal lögregla, þegar í stað, upplýsa rekstraraðila flugvallar eða flugrekanda ef um alvarlegt brot er að ræða sem getur haft áhrif á flugöryggi og, eftir atvikum, afturkalla jákvæða umsögn sem veitt hefur verið vegna bakgrunnsathugunar. Rekstraraðili flugvallar eða flugrekandi skal þá, þegar í stað, gera ráðstafanir til að afturkalla heimild viðkomandi einstaklings til aðgangs að haftasvæði flugverndar, sbr. 7. mgr. Rekstraraðili flugvallar eða flugrekandi getur afturkallað heimild viðkomandi einstaklings til aðgangs að haftasvæði flugverndar tímabundið á meðan kærumeðferð máls fer fram samkvæmt 7. mgr.

Með bakgrunnsathugun skal m.a. kanna og staðfesta:

  1. deili á viðkomandi, t.d. með vegabréfi;
  2. heimili eða dvalarstað 5 ár aftur í tímann;
  3. sakaferil viðkomandi 5 ár aftur í tímann;
  4. þá hættu sem kann að stafa af viðkomandi innan haftasvæðis flugverndar, sbr. ákvæði kafla þessa.

Lögregla skal upplýsa rekstraraðila flugvallar og flugrekanda um niðurstöður úr bakgrunnsathugun með jákvæðri eða neikvæðri umsögn um viðkomandi einstakling.

Komist lögregla að þeirri niðurstöðu að veita beri einstaklingi neikvæða umsögn vegna umsóknar um aðgang að haftasvæði flugverndar, á grundvelli bakgrunnsathugunar, skal lögreglan upplýsa einstakling um fyrirhugaða neikvæða umsögn og gefa honum kost á að óska eftir rökstuðningi lögreglu. Óski einstaklingur eftir rökstuðningi skal lögregla rökstyðja niðurstöðu sína og gefa einstaklingi kost á að neyta andmælaréttar í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Komist lögregla að þeirri niðurstöðu, eftir að einstaklingur hefur veitt andmæli, að umsögnin sé enn neikvæð, skal sú ákvörðun tilkynnt einstaklingi sem og rekstraraðila flugvallar eða flugrekanda. Rekstraraðili flugvallar skal þá þegar tilkynna vinnuveitanda hans að umsókn um aðgang að haftasvæði flugverndar sé hafnað á grundvelli neikvæðrar umsagnar lögreglu. Í ákvörðun lögreglu skal leiðbeint um kæruheimild til ráðherra flugmála samkvæmt 50. gr.

Rekstraraðila flugvallar er óheimilt að veita einstaklingi sem hlotið hefur neikvæða umsögn við bakgrunnsskoðun hjá lögreglu, aðgang að haftasvæði flugverndar og aðgang að upplýsingum um framkvæmd og eftirlit flugverndar. Hafi lögregla veitt einstaklingi neikvæða umsögn vegna bakgrunnsathugunar, er flugrekanda óheimilt að gefa út áhafnarkort til viðkomandi einstaklings sbr. 2. mgr. 25. gr. og veita aðgang að upplýsingum um framkvæmd og eftirlit flugverndar.

Rökstuðningur lögreglu samkvæmt 5. mgr. skal sendur einstaklingi með sannanlegum hætti. Í rökstuðningnum skal lýsa í meginatriðum þeim atvikum sem talin eru leiða til neikvæðrar umsagnar. Lögregla skal veita einstaklingi a.m.k. 15 daga frest, frá póstlagningardegi rökstuðnings, til að tjá sig skriflega um efni máls og, eftir atvikum, leggja fram gögn, áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Sama málsmeðferð gildir leiði neikvæð umsögn lögreglu til þess að einstaklingur fær ekki útgefið áhafnarkort frá flugrekanda samkvæmt reglugerð þessari.

27. gr. Mat á afbrotaferli.

Við ákvörðun um hvort veita beri umsækjanda heimild til að sækja námskeið í flugverndarþjálfun og aðgangsheimild að haftasvæði flugverndar eða aðgang að trúnaðarupplýsingum um flugvernd skal sérstaklega athuga brotaferil einstaklings sem sótt er um heimild fyrir. Leggja skal til grundvallar upplýsingar úr sakaskrá til yfirvalda og eftir atvikum málaskrá og öðrum skrám löggæsluaðila um viðkomandi einstakling. Leitast skal við að afla upplýsinga úr skrám lögreglu, einungis að því marki sem talið er að geti haft vægi við mat á hæfi viðkomandi einstaklings til að njóta aðgangs að haftasvæði flugverndar og fá aðgang að upplýsingum um framkvæmd og eftirlit flugverndar, sbr. 2.-4. mgr.

Hafi einstaklingur, hérlendis eða erlendis, verið dæmdur í fangelsi fyrir brot gegn tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga, sbr. A-lið viðauka II við reglugerð þessa, eða lögum um ávana- og fíkniefni, skal synja honum um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, sbr. þó ákvæði 28. gr., enda gefi brotið vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi og almannahagsmunum kunni að stafa hætta af.

Hafi einstaklingi, hérlendis eða erlendis, verið ákvörðuð sekt fyrir brot á þeim lögum sem tilgreind eru í 2. mgr. hvort sem er fyrir dómstólum eða stjórnvaldi eða hann eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi er lýtur að brotum á þeim lögum sem tilgreind eru 2. mgr. er heimilt að synja honum um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, sbr. þó ákvæði 28. gr., enda gefi brotin vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af. Sama gildir ef einstaklingur hefur ítrekað gerst brotlegur gegn öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga en þeirra sem getið er í A-lið viðauka II eða öðrum lögum sem getið er í B-lið viðauka II við reglugerð þessa eða brotið stórfellt.

Sama gildir hafi einstaklingur, hérlendis eða erlendis, verið dæmdur í fangelsi, dæmdur til greiðslu sektar eða gert að greiða sekt af hálfu stjórnvalds, fyrir tilraun eða hlutdeild til brota skv. 2. og 3. mgr. eða verið sýknaður af brotum og gert að vistast á viðeigandi stofnun með vísan til 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við mat á brotaferli einstaklings í þeim tilvikum þar sem ekki er skylt að synja um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, skal leggja heildstætt mat á það hvort öryggi flugsamgangna eða almannahagsmunum geti stafað hætta af einstaklingi. Sérstaklega skal meta hugsanlega hættu sem af viðkomandi kann að stafa gagnvart íslenska ríkinu og erlendum ríkjum, öryggi þeirra, flugstarfsemi og öðrum almannahagsmunum.

Komi í ljós við bakgrunnsathugun samkvæmt kafla þessum að einstaklingur hefur ítrekað gengist undir sektargreiðslur vegna fíkniefnalagabrota eða hafi lögregla rökstuddan grun um að viðkomandi neyti ólöglegra ávana- og fíkniefna, getur lögregla ákveðið að skilyrða umsögn bakgrunnsathugunar því, að hann gangist undir fíkniefnapróf, þar á meðal blóð- og þvagrannsókn. Neiti einstaklingur að undirgangast slíka rannsókn eða komi í ljós við rannsóknina að hann neyti eða hafi neytt ólöglegra ávana- og fíkniefna, er lögreglu heimilt að veita neikvæða umsögn um viðkomandi vegna bakgrunnsathugunar. Fíkniefnapróf skal framkvæmt af heilbrigðisstarfsmanni og skal kostnaður vegna framkvæmdar þess greiðast af umsækjanda. Þeim sem sætir bakgrunnsathugun er skylt að hlíta nauðsynlegri meðferð heilbrigðisstarfsmanns.

Komi í ljós við bakgrunnsathugun að lögregla hefur þurft að hafa endurtekin afskipti af einstaklingi vegna meintra brota af hans hálfu, getur lögregla ákveðið að veita honum neikvæða umsögn vegna bakgrunnsathugunar.

28. gr. Tímafrestir.

Nú hefur einstaklingur lokið afplánun og/eða innt sektargreiðslur af hendi vegna brota samkvæmt 27. gr. og er þá heimilt að taka tillit til þess í eftirfarandi tilvikum:

  1. þegar 5 ár eru liðin frá lokum afplánunar eða dæmdri skilorðsbundinni fangelsisvist eða lokum reynslulausnar;
  2. þegar 3 ár eru liðin frá því aðili var dæmdur til eða gekkst undir greiðslu sektar; eða
  3. þegar 3 ár eru liðin frá síðustu færslu í málaskrá eða aðra skrá lögreglu varðandi málefni sem gefa vísbendingu um að öryggi flugsamgangna eða almannahagsmunum stafi hætta af,

enda hafi viðkomandi ekki gerst sekur um ítrekuð brot og sýnt þyki að af honum stafi ekki lengur hætta fyrir íslenska ríkið eða erlend ríki, öryggi þeirra, flugstarfsemi eða almannahagsmuni.

28. gr. a Svipting aðgangsheimilda.

Heimilt er rekstraraðila flugvallar að svipta einstakling aðgangsheimild að flugsvæði, tímabundið eða að fullu, vegna brota gegn lögum og reglum ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans varhugavert að hann noti heimildina. Ákvörðun um sviptingu skal rökstudd og starfsmanni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Sé um alvarlegt brot að ræða er rekstraraðila flugvallar heimilt að svipta einstakling aðgangsheimild að flugsvæði tímabundið, þá þegar, á meðan niðurstöðu kærumeðferðar er beðið samkvæmt grein þessari.

Rekstraraðila flugvallar er jafnframt heimilt að afturkalla útgáfu leyfisbréfs fyrir ökutæki eða vinnuvél samkvæmt 24. gr. sé skilyrðum greinarinnar ekki fullnægt eða hafi ökutækið eða vinnuvélin ekki verið notuð í samræmi við lög og reglu.

VI. KAFLI Skimun.

29. gr. Almennt.

Um skimun starfsmanna, hluti sem þeir bera með sér, farþega, farangurs (hand- og lestar-) ásamt leit í ökutækjum og vinnuvélum gilda Evrópureglugerðir flugverndar sem innleiddar eru með reglugerð þessari, sbr. 53. gr.

30. gr. Skimun farþega.

Farþegar skulu skimaðir með a.m.k. einni af eftirfarandi aðferðum:

  1. handleit;
  2. málmleitarhliði (WTMD);
  3. sprengjuleitarhundi, ásamt aðferðinni í a-lið;
  4. öryggisskanna sem ekki notar jónandi geislun; eða
  5. snefilgreiningartæki fyrir sprengiefni (ETD).

Farþegar skulu fara úr yfirhöfnum s.s. frökkum og jökkum áður en skimun fer fram og skal skima þá sem handfarangur. Vopnaleitarmaður getur óskað eftir að farþegi fækki klæðum frekar, eins og við á.

Þegar vopnaleitarmaður getur ekki staðfest hvort farþeginn beri á sér bannaða hluti eða ekki skal farþeganum synjað um aðgang að haftasvæðum flugverndar eða hann endurskimaður með fullnægjandi hætti að mati vopnaleitarmanns.

Aðeins er heimilt að nota sprengjuleitarhunda og snefilgreiningartæki sem viðbótarúrræði við skimun.

Áður en farþegi er skimaður með öryggisskanna skv. d-lið 1. mgr. skal hann upplýstur um tæknina sem notuð er, skilyrði sem tengd eru notkun hennar og um val á því að hafna skimun með öryggisskanna. Farþegi skal eiga rétt á að hafna skimun með öryggisskanna. Í slíkum tilvikum skal farþegi skimaður með skimunaraðferð skv. a-c-lið 1. mgr., þar með talið a.m.k. handleit. Þegar öryggisskanni gefur frá sér viðvörun skal finna orsök viðvörunarinnar.

31. gr. Handleit og líkamsleit.

Þegar handleit og/eða líkamsleit fer fram skal hún framkvæmd með þeim hætti að hægt sé að tryggja, með nokkurri vissu, að einstaklingurinn beri ekki á sér bannaða hluti.

Leit skal framkvæmd með svo mikilli tillitssemi sem unnt er og má hún aldrei vera víðtækari en nauðsynlegt er. Leit skal ætíð framkvæmd af einstaklingi af sama kyni. Sá sem sætir leit getur krafist þess að vitni sé tilkvatt. Líkamsleit skal aðeins framkvæmd af lögreglu.

32. gr. Leit hafnað.

Sérhverjum aðila sem neitar að undirgangast leit í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar eða neitar að láta skoða handfarangur sinn skal synjað um að fara inn á haftasvæði flugverndar og í loftfar.

Ákvörðun samkvæmt 1. mgr. telst endanleg og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

33. gr. Skimun handfarangurs.

Fartölvur og önnur stór raftæki skulu fjarlægð úr handfarangri áður en skimun fer fram og skulu þau skimuð sérstaklega.

Handfarangur skal til dæmis skimaður með:

  1. handleit;
  2. röntgenbúnaði;
  3. búnaði til greiningar sprengiefnis (EDS); eða
  4. sprengjuleitarhundum, ásamt aðferðinni í a-lið.

Þegar vopnaleitarmaður getur ekki staðfest hvort handfarangur innihaldi bannaða hluti eða ekki er handfarangri ekki hleypt í gegn eða hann endurskimaður þannig að fullnægjandi sé að mati vopnaleitarmanns.

Sérhver taska, sem inniheldur stórt raftæki, skal endurskimuð þegar raftækið hefur verið fjarlægt úr töskunni og skal það skimað sérstaklega.

Aðeins er heimilt að nota sprengjuleitarhunda sem viðbótarúrræði við skimun.

34. gr. Leitarhundar.

Rekstraraðila flugvallar er heimilt, í samráði við ríkislögreglustjóra, að þjálfa og nota leitarhunda til aðstoðar við framkvæmd flugverndar á flugvöllum, svo sem við leit að sprengiefnum eða öðrum bönnuðum hlutum á flugvallarsvæði, í flugstöð eða um borð í loftfari eftir atvikum.

35. gr. Vökvi, úðaefni og gel.

Farþega er heimilt að hafa með sér vökva, úðaefni og gel inn á haftasvæði flugverndar og um borð í loftfar að því tilskildu að efnin uppfylli einhver eftirfarandi skilyrða:

  1. ef vökvinn, úðaefnið og gelið eru í aðskildum ílátum, sem rúma að hámarki 100 ml, eða sambærilegt í gagnsæjum, endurlokanlegum plastpoka sem rúmar að hámarki einn lítra þannig að nægilegt rými sé fyrir innihald plastpokans og pokanum sé tryggilega lokað,
  2. ef vökvanum, úðaefninu og gelinu er komið fyrir í sérstökum (e. dedicated) poka með innsigli, sem sýnir hvort lokun hans hafi verið rofin, þegar það er keypt á flugsvæði viðkomandi flugvallar,
  3. ef vökvinn, úðaefnið og gelið, sem eru í poka sem sýnir hvort lokun hans hafi verið rofin, eru upprunnin frá öðrum flugvelli í Evrópusambandinu eða frá loftfari flugrekanda í Evrópusambandinu þar sem pokanum hefur verið lokað á ný með innsigli, sem sýnir hvort lokun hans hafi verið rofin, áður en farið er með pokann af haftasvæði flugverndar á flugvellinum,
  4. ef vökvinn, úðaefnið og gelið eru skimuð á flugsvæði viðkomandi flugvallar með búnaði til greiningar sprengiefnis í fljótandi formi og síðan komið fyrir í sérstökum (e. dedicated) poka með innsigli sem sýnir hvort lokun hans hafi verið rofin.

Sérstakir pokar með innsigli, sem sýna hvort lokun þeirra hafi verið rofin, sem um getur í b- til d-lið 1. mgr., skulu:

  1. vera auðgreinanlegir sem pokar með innsigli, sem sýnir hvort lokun þeirra hafi verið rofin, sem notaðir eru á viðkomandi flugvelli,
  2. innihalda sönnun um að vökvinn, úðaefnið eða gelið hafi verið keypt eða endurinnsiglað á viðkomandi flugvelli innan síðastliðinna þriggja klukkustunda.

Vökvi, úðaefni og gel skal fjarlægt úr handfarangri áður en skimun fer fram og efnin skimuð sérstaklega.

Vökvar, úðaefni og gel taka til maukkenndra efna, fljótandi krema, blandna í föstu eða fljótandi formi, innihalds þrýstiumbúða, t.d. tannkrems, hárgels, drykkja, súpa, síróps, ilmvatns, raksápa og annarra efna af sambærilegum þéttleika.

36. gr. Meðferð bannaðra hluta.

Nú hefur fundist bannaður hlutur eða hlutir sem ekki eru ólögmætir á farþega eða í handfarangri og skal þá farþega gefinn kostur á að innrita bannaða hlutinn eða hlutina sem lestarfarangur, enda séu þeir heimilaðir til flutnings sem lestarfarangur.

Bannaða hluti sem lagt er hald á og ekki er ráðstafað í samræmi við 1. mgr. er heimilt að geyma í viðeigandi aðstöðu fyrir bannaða hluti til endurkomu farþega, heimsenda bannaða hlutinn í pósti, fara með hlutinn sem óskilamun eða eyða honum. Eigandi hins bannaða hlutar skal upplýstur um rétt hans. Við ákvörðun um það hvað eigi að gera við hinn bannaða hlut skal tekið tillit til óskar eiganda, gætt hófs og litið til verðmætis hlutarins.

Skrá yfir bannaða hluti er að finna í viðauka I við reglugerð þessa. Heimilt er að veita undanþágu frá viðauka I að því tilskildu að:

  1. Samgöngustofa hafi veitt samþykki sitt fyrir því að hafa megi hlutinn meðferðis og
  2. flugrekandanum hafi verið tilkynnt um farþegann og hlutinn sem hann hefur meðferðis áður en farþegarnir fara um borð í loftfarið og
  3. að gildandi öryggisreglum sé fylgt.

Framangreindar ráðstafanir skulu gerðar á kostnað farþega.

VII. KAFLI Ráðning og þjálfun starfsfólks.

37. gr. Ráðning og þjálfun.

Um ráðningu og þjálfun starfsmanna gilda Evrópureglugerðir flugverndar sem innleiddar eru með reglugerð þessari, sbr. 53. gr. og kröfur þjálfunaráætlunar Íslands

Með umsókn um námskeið í flugverndarþjálfun þar sem koma fram upplýsingar sem ekki eru aðgengilegar almenningi skal liggja fyrir staðfesting lögreglu á jákvæðri umsögn um umsækjanda við bakgrunnsathugun.

VIII. KAFLI Ákvarðanir varðandi framkvæmd flugverndar sem leynt skulu fara.

38. gr. Leynilegar ákvarðanir.

Mikilvægt er að unnt sé að birta einungis hluta þeirra reglna sem varða ákveðna þætti flugverndar. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að unnt sé að nýta sér upplýsingar um framkvæmd flugverndar til að vega að öryggi flugs. Birtur er listi yfir þær ákvarðanir sem leynt skulu fara samkvæmt reglugerð þessari í 2. mgr. 53. gr. Ákvarðanir samkvæmt þessum kafla skulu vera leynilegar og hafa ígildi reglugerðar gagnvart þeim aðilum sem þær beinast að.

39. gr. Birting leynilegra ákvarðana.

Ákvarðanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem vísað er til í 2. mgr. 53. gr. um viðbótaraðgerðir við innleiðingu sameiginlegra grundvallarviðmiða um flugvernd, skulu öðlast gildi hér á landi en verða á grundvelli öryggissjónarmiða einungis birtar þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni þeirra.

40. gr. Efni ákvarðana.

Efni leynilegra ákvarðana, sbr. 53. gr., sem verður hluti af reglugerð þessari, varðar beina flugverndarhagsmuni. Öryggi og leynd varðandi efni ákvarðananna leiðir af þjóðréttarlegum skuldbindingum á sviði flugverndar.

41. gr. Miðlun upplýsinga.

Samgöngustofa skal sjá um miðlun upplýsinga um framkvæmd flugverndar á grundvelli leynilegrar ákvörðunar, sbr. 53. gr. Stofnunin skal fullnægja upplýsingaskyldu gagnvart þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni ákvarðananna og tryggja að hún berist þeim með sannanlegum hætti.

Skjöl flugverndar sem flokkuð eru sem trúnaðarskjöl skulu send í ábyrgðarpósti eða boðsend. Tryggja skal að trúnaðarskjal sé eingöngu meðhöndlað af þeim sem hefur lögmætan aðgang að trúnaðarupplýsingunum. Óheimilt er öðrum en þeim sem póstinum er beint að, að opna viðeigandi trúnaðarskjöl sem tengjast flugvernd. Um meðferð slíkra gagna gildir 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37, 9. júlí 2009, bls. 264, sbr. a-lið 1. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar.

Trúnaðarskjöl skal varðveita með tryggum hætti. Útbúa skal á hverjum stað verklagsreglur sem tryggja eiga örugga varðveislu trúnaðarskjala og skjalageymslur sem uppfylla kröfur um varðveislu trúnaðarskjala. Hvert eintak trúnaðarskjals er á ábyrgð viðtakanda sem skal tryggja að skjölin séu varðveitt í læstri hirslu og liggi ekki á glámbekk.

Samgöngustofu er heimilt að kanna meðhöndlun á trúnaðarupplýsingum. Skylt er að láta í té upplýsingar sem stofnunin krefst í því skyni.

42. gr. Þagnarskylda.

Gæta skal trúnaðar um allar upplýsingar sem tengjast flugvernd, um starfsemi og aðstæður á flugvelli eða flugvallarsvæði og við mannvirki þeim tengd eða í tengslum við loftför almennt.

Aðgangur einstaklinga að trúnaðarupplýsingum ræðst af störfum þeirra innan flugverndar.

Þeir einstaklingar sem starfs síns vegna fá vitneskju um efni ákvarðana sem leynt skal fara samkvæmt reglugerð þessari skulu gæta fyllsta trúnaðar um efni þeirra í samræmi við ákvæði laga um loftferðir.

Þeir einstaklingar sem starfs síns vegna fá vitneskju um niðurstöðu bakgrunnsathugunar lögreglu um einstakling skulu gæta fyllsta trúnaðar um efni hennar í samræmi við ákvæði laga um loftferðir.

Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

IX. KAFLI Ýmis ákvæði.

43. gr. Skrá yfir samþykkta og tilnefnda aðila vegna flugverndar.

Samgöngustofa skal halda skrá yfir aðila sem hlotið hafa samþykki eða tilnefningu vegna flugverndar í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

44. gr. Neyðaráætlun.

Rekstraraðili flugvallar skal sjá til þess að gerð sé neyðaráætlun vegna flugverndar í samvinnu og samráði við lögregluyfirvöld og þá aðila sem hafa hlutverki að gegna samkvæmt áætluninni. Haldnar skulu reglubundnar æfingar, þ.m.t. samskipta- og skrifborðsæfingar, til að bregðast við hvers konar ógn gegn flugi. Æfingar skulu haldnar að jafnaði annað hvert ár þó er heimilt að halda æfingar í tengslum við æfingar skv. reglugerð um flugvelli og skv. flugverndaráætlun Íslands. Rekstraraðili flugvallar skal tryggja þátttöku þeirra aðila sem hafa hlutverki að gegna við slíkar æfingar. Þeir aðilar sem rekstraraðili flugvallar boðar til slíkrar æfingar eru skyldir til þátttöku nema að fenginni undanþágu rekstraraðilans. Um frekari kröfur til neyðaráætlunar vegna flugverndar vísast til flugverndaráætlunar Íslands.

45. gr. Flugverndarnefnd flugvalla.

Rekstraraðili flugvallar skal koma á fót flugverndarnefnd flugvallar. Flugverndarnefnd skal koma saman minnst tvisvar á ári og fjalla um skipulag flugvallar, samráð og mat á flugverndarráðstöfunum á flugvellinum og taka virkan þátt í skipulagi og framkvæmd æfinga á neyðaráætlun samkvæmt 45. gr.

46. gr. Flugverndarráð Íslands.

Samgöngustofa setur reglur um skipan og starfsemi flugverndarráðs sem skal vera stjórnvöldum til ráðuneytis um flugverndaraðgerðir sem nauðsynlegar eru til að mæta hættu gegn almenningsflugi. Reglurnar skulu settar að höfðu samráði við ráðherra flugmála. Flugverndarráð skal koma saman minnst tvisvar á ári.

47. gr. Gjaldtaka vegna flugverndar.

Rekstraraðila flugvallar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir kostnaði við flugvernd á flugvelli í samræmi við ákvæði laga um loftferðir. Gjaldið skal ákvarðað í gjaldskrá sem skal auglýst á heimasíðu rekstraraðila flugvallar eða með öðrum tryggum hætti.

48. gr. Tilkynningar.

Hver sá sem verður þess áskynja að einstaklingur eða hlutur sem talið er að veruleg hætta geti stafað af sé staðsettur á flugsvæði flugvallar, í flugstöð eða um borð í loftfari, verður á annan hátt var við ólögmæt afskipti af flugi, tilraun til slíkra afskipta eða ásetning um slíkt, skal þegar í stað tilkynna um slíkt til flugvallaryfirvalda, flugstjóra, lögreglu eða ríkislögreglustjóra, auk Samgöngustofu.

Rekstraraðili skal tilkynna um flugverndarleg atvik í samræmi við reglugerðir um tilkynningu atvika í almenningsflugi.

49. gr. Kæruheimildir.

Sé niðurstaða bakgrunnsathugunar vegna flugverndar neikvæð getur aðili óskað eftir rökstuðningi lögreglu. Ef niðurstaðan er enn neikvæð er aðila heimilt að kæra þá ákvörðun til ráðherra flugmála í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Stjórnvaldsákvarðanir Samgöngustofu sæta kæru til ráðherra flugmála í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

50. gr. Áhættumat og vástig vegna flugverndar.

Ríkislögreglustjóri framkvæmir áhættumat vegna flugverndar gagnvart flugvöllum, flugvélum og flugrekstri almennt. Á grundvelli áhættumats er vástig skilgreint. Að lágmarki einu sinni á ári skal fara fram endurskoðun á áhættumati vegna flugverndar. Endurskoðunin skal unnin í samvinnu við Samgöngustofu, flugvelli og flugrekendur eftir því sem við á.

Ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um breytingar á vástigi vegna flugverndar. Hann skipar sérstaka vástigsnefnd vegna flugverndar, sbr. reglur þar um. Hlutverk hennar er að vera ríkislögreglustjóra til aðstoðar við mat á ógn gegn flugvernd. Nefndin skal hittast að lágmarki tvisvar á ári.

51. gr. Refsingar.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

52. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins og ráðsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008 frá 11. mars 2008 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2320/2002, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 37, dags. 9. júlí 2009, bls. 264-276, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 69/2009 frá 29. maí 2009;
  2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 272/2009 frá 2. apríl 2009 um viðbót við sameiginlegar grunnkröfur um flugvernd í almenningsflugi sem mælt er fyrir um í viðaukanum við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 21, 29. apríl 2010, bls. 73-79, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 98/2009 frá 25. september 2009;
  3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 297/2010 frá 9. apríl 2010 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 272/2009 um viðbætur við sameiginlegar grunnkröfur um flugvernd í almenningsflugi, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 5, dags. 27. janúar 2011, bls. 137-139, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 137/2010 frá 10. desember 2010;
  4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 720/2011 frá 22. júlí 2011 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 272/2009 um viðbót við sameiginlegar grunnkröfur um flugvernd í almenningsflugi að því er varðar að koma á skimun vökva, úðaefna og gels í áföngum á flugvöllum í Evrópusambandinu, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, nr. 24, frá 26. apríl 2012, bls. 1, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins, nr. 148/2011 frá 2. desember 2011;
  5. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 18/2010 frá 8. janúar 2010 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008 að því er varðar forskriftir fyrir innlenda áætlun um gæðaeftirlit á sviði flugverndar í almenningsflugi, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 71, dags. 16. desember 2010, bls. 277-288, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 74/2010 frá 11. júní 2010;
  6. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 72/2010 frá 26. janúar 2010 um verklagsreglur við framkvæmd skoðana á vegum framkvæmdastjórnarinnar á sviði flugverndar, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 71, dags. 16. desember 2010, bls. 289-293, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 75/2010 frá 11. júní 2010;
  7. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1254/2009 frá 18. desember 2009 um að setja viðmiðanir sem gera aðildarríkjunum kleift að veita undanþágur frá sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi og að samþykkja annars konar verndarráðstafanir, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 5, dags. 27. janúar 2011, bls. 108, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 107/2010 frá 1. október 2010;
  8. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1141/2011 frá 10. nóvember 2011 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 272/2009 um viðbætur við sameiginlegar grunnkröfur um flugvernd í almenningsflugi að því er varðar notkun öryggisskanna á flugvöllum í Evrópusambandinu, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 67, 29. nóvember 2012, bls. 175-176, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 178/2012 frá 28. september 2012;
  9. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 245/2013 frá 19. mars 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 272/2009 að því er varðar skimun vökva, úðaefna og gels á flugvöllum í Evrópusambandinu;
  10. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2015/1998 frá 5. nóvember 2015 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd;
  11. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2426 frá 18. desember 2015 um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar þriðju lönd sem viðurkennt er að beiti flugverndarkröfum sem jafngilda sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi.
  12. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/472 frá 31. mars 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 72/2010 að því er varðar skilgreininguna "skoðunarmaður framkvæmdastjórnarinnar", sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB, nr. 10/2017, 16. febrúar 2017, bls. 220, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins, nr. 245/2016 frá 3. desember 2016.
  13. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/2096 frá 30. nóvember 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1254/2009 að því er varðar tilteknar viðmiðanir sem gera aðildarríkjunum kleift að veita undanþágur frá sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi og að samþykkja annars konar verndarráðstafanir, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES‑nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins, nr. 63/2017 frá 17. mars 2017. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 31 frá 18. maí 2017, bls. 110.
  14. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/815 frá 12. maí 2017 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar nánari útlistun, samræmingu og einföldun á tilteknum flugverndarráðstöfunum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES‑nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins, nr. 200/2017 frá 27. október 2017. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 74 frá 16. nóvember 2017, bls. 566-633.
  15. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/3030 frá 15. maí 2017 um breytingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/8005 hvað varðar nánari útlistun, samræmingu og einföldun á tilteknum flugverndarráðstöfunum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES‑nefndarinnar nr. 200/2017 frá 27. október 2017.
  16. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/55 frá 9. janúar 2018 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar að bæta Lýðveldinu Singapúr við þau þriðju lönd sem viðurkennt er að beiti flugverndarkröfum sem jafngilda sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 157/2018 frá 6. júlí 2018. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 26. júlí 2018, bls. 379.
  17. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/103 frá 23. janúar 2019 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar nánari útlistun, samræmingu og einföldun sem og styrkingu á tilteknum flugverndarráðstöfunum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 89/2019 frá 29. mars 2019 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37 frá 9. maí 2019, bls. 7.
  18. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/413 frá 14. mars 2019 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar þriðju lönd sem viðurkennt er að beiti flugverndarkröfum sem jafngilda sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 41/2019 frá 29. mars 2019 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 38, frá 16. maí 2019, bls. 32‑38.
  19. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1583 frá 25. september 2019 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd að því er varðar ráðstafanir vegna öryggis á netinu, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44 frá 20. mars 2020. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 29 frá 7. maí 2020, bls. 202.
  20. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/910 frá 30. júní 2020 um breytingu á framkvæmdarreglugerðum (ESB) 2015/1998, (ESB) 2019/103 og (ESB) 2019/1583 að því er varðar endurtilnefningu flugrekenda, rekstraraðila og eininga sem annast flugverndareftirlit vegna flugfarms og flugpósts sem kemur frá þriðju löndum sem og frestun tiltekinna krafna samkvæmt reglum að því er varðar netöryggi, bakgrunnsathugun, staðla um búnað til greiningar sprengiefnis og snefilgreiningartæki fyrir sprengiefni vegna COVID-19 heimsfaraldursins
ú. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/111 frá 13. janúar 2020 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar samþykki fyrir flugverndarbúnaði í almenningsflugi sem og fyrir þriðju lönd sem viðurkennt er að beiti flugverndarkröfum sem jafngilda sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138 frá 25. september 2020, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 69 frá 29. október 2020, bls. 610.
  1. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/255 frá 18. febrúar 2021 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2021 frá 19. mars 2021. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37 frá 27. maí 2021, bls. 111.
  2. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/421 frá 14. mars 2022 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 um ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 220/2022 frá 8. júlí 2022. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 53, frá 11. ágúst 2022, bls. 45-48.
  3. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2022/1174 frá 7. júlí 2022 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/2023 frá 17. mars 2023. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30 frá 20. apríl 2023, bls. 479-486.
  4.  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2023/566 frá 11. mars 2023 um breytingu á framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/1998 að því er varðar ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 289/2023 frá 27. október 2023. Reglugerðin er birt í EES‑viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 83 frá 16. nóvember 2023, bls. 504-509.

Með reglugerð þessari öðlast jafnframt gildi hér á landi eftirfarandi ákvarðanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, settar á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 300/2008 frá 11. mars 2008, um sameiginlegar reglur um flugvernd, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

  1. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 8005/2015 um framkvæmd sameiginlegra grunnkrafna um flugvernd.
  2. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2018) 4857 frá 27. júlí 2018 um breytingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2015) 8005 hvað varðar notkun búnaðar til greiningar sprengiefnis fyrir skimun handfarangurs, vökva, úðaefna og gels;
  3. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2019) 132 frá 23. janúar 2019 um breytingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2015) 8005 að því er varðar nánari útlistun, samræmingu og einföldun, sem og um styrkingu tiltekinna flugverndarráðstafana.
  4. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2020) 4241 frá 30. júní 2020 um breytingu á framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2019) 132 Final hvað varðar frestun tiltekinna reglugerðarkrafna á sviði bakgrunnsathugana vegna COVID-19 heimsfaraldursins.
  5. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2021)996 frá 19. febrúar 2021 um breytingu á ákvörðun C(2015)8005 að því er varðar nánari útlistun flugverndarráðstafana til innleiðingar á sameiginlegum reglum um flugvernd, eins og vísað er til í a-lið 18. gr. reglugerðar (EB) nr. 300/2008.
  6. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/2147 frá 3. desember 2021 um samþykki fyrir flugverndarbúnaði í almenningsflugi með "ESB-stimpli", sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 192/2022 frá 10. júní 2022.
  7. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2022) 4638 frá 7. júlí 2022 um breytingu á framkvæmdarákvörðun C(2015) 8005 að því er varðar tilteknar ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd.
  8.  Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar C(2023)1569 frá 10. mars 2023 um breytingu á framkvæmdarákvörðun C(2015) 8005 að því er varðar tilteknar ítarlegar ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 289/2023 frá 27. október 2023.

53. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 70. gr. og 70. gr. d, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Á sama tíma fellur úr gildi reglugerð um flugvernd nr. 985/2011 ásamt síðari breytingum.

53. gr. a Önnur ákvæði.

  1. Serbía, hvað varðar Belgrad Nikola Tesla flugvöll, bætist við þau lönd sem viðurkennt er að beiti flugverndarkröfum sem jafngildi sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.