Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 10. sept. 2002
Sýnir breytingar gerðar 10. sept. 2002 af rg.nr. 641/2002

587/2002

Reglugerð um gjöld fyrir skoðun, skráningu, mælingu skipa o.fl.

I. KAFLI

Gjöld skv. 28. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 35/1993.
1. gr.
Skipagjald.

Eigandi skips skal greiða árlega í ríkissjóð sérstakt gjald, skipagjald, af hverju skipi sem skráð er á aðalskipaskrá. Við eigendaskipti ber hinn fyrri eigandi ábyrgð á gjaldinu þar til umskráning hefur farið fram.

Í skipagjaldinu er meðtalinn kostnaður vegna aðalskoðunar skips sé hún framkvæmd hér á landi. Fari skoðunin fram erlendis að beiðni eiganda ber honum að greiða auk skipagjaldsins fargjöld og dagpeninga skoðunarmanns.

Skylda til að greiða skipagjaldið fellur ekki niður þótt eigandi skips færi það ekki til árlegrar aðalskoðunar, né heldur þótt skipið hafi ekki verið í notkun um stundarsakir. Siglingastofnun er þó heimilt að fella niður helming gjaldsins hafi skip ekki verið skoðað né haft haffæri á almanaksárinu. Einnig er stofnuninni heimilt að fella niður hluta skipagjalds afskráningarársins hafi afskráningin verið gerð vegna úreldingar skipsins eða sölu þess úr landi.

Skipagjaldið vegna skipa sem flokkuð eru hjá Siglingastofnun Íslands skal vera sem hér segir:

Kr.
Fyrir skip allt að 8 m að skráningarlengd 12.500
Fyrir skip 8 m að lengd til 15 m mestu lengd 22.400
Fyrir skip 15 m að lengd til 24 m skráningarlengd 50.000
Fyrir skip 24 m að lengd til 45 m skráningarlengd 99.200
Fyrir skip 45 m að lengd til 60 m skráningarlengd 163.800
Fyrir skip yfir 60 m að skráningarlengd 216.800

Vegna skipa sem flokkuð eru hjá viðurkenndu flokkunarfélagi skal greiða 60% af ofangreindum gjaldstofni.

Fyrir flotbryggjur og önnur mannvirki á skipaskrá sem ekki eru háð árlegu eftirliti sem og skoðun flotkvía greiðist samkvæmt reikningi.

Ef óskað er eftir að skoðun fari fram utan dagvinnutíma skal greiða fyrir vinnuna samkvæmt útseldum taxta starfsmanns Siglingastofnunar.

2. gr. Aukaskoðun.

Fyrir aukaskoðun skal greiða skv. reikningi Siglingastofnunar Íslands.

3. gr. Nýsmíðagjald.

Vegna skipa sem eru í smíðum skal greiða nýsmíðagjald. Fyrir yfirferð og samþykkt smíðalýsinga og teikninga, skipamælingar, yfirferð stöðugleikagagna og hleðslu- og stöðugleikaprófun, eftirlit með smíði skipsins, skoðun á skipi og búnaði þess og skráningu skips skal greiða nýsmíðagjald. Gjaldið skal miðast við framlagða vinnu starfsmanna Siglingastofnunar Íslands samkvæmt útseldum taxta stofnunarinnar. Jafnframt skal greiða ferðakostnað og dagpeninga starfsmanna Siglingastofnunar Íslands vegna ferðalaga erlendis vegna nýsmíðinnar. Auk nýsmíðagjalds skal greiða fyrir skírteini og önnur skipsskjöl í samræmi við önnur ákvæði reglugerðar þessarar.

Gjaldið er innheimt að loknum hverjum verkþætti skv. framangreindri upptalningu.

Lokagreiðsla fer fram við afhendingu skírteina skipsins og skipsskjala. Verkkaupi skipasmíðar og eigandi skips að smíði lokinni eru sameiginlega ábyrgir fyrir greiðslu nýsmíðagjalds.

4. gr. Eftirlit með viðgerðum.

Fyrir eftirlit með viðgerðum skal greiða skv. reikningi Siglingastofnunar Íslands.

Fari viðgerð fram erlendis er heimilt að innheimta fyrirfram hjá eiganda skips upphæð sem svarar til fargjalda og áætlaðra dagpeninga skoðunarmanna.

5. gr. Hleðslumerki.

Fyrir hleðslumerkjaútreikninga og útgáfu skírteina ásamt hleðslumerkjaskoðun, sem ekki fellur undir nýsmíði, skal greiða:

Kr.
Skip til og með 500 BT (brúttótonn) 12.900
Skip 501 BT til og með 1000 BT 17.100
Skip 1001 BT til og með 2000 BT 21.400
Skip 2001 BT til og með 5000 BT 25.720

Hleðslumerkjaútreikningar skipa stærri en 5000 BT greiðast eftir reikningi Siglingastofnunar Íslands. Fyrir útgáfu hleðslumerkjaskírteinis sem gefið er út skv. hleðslumerkjaútreikningum frá erlendum stjórnvöldum eða viðurkenndu flokkunarfélagi skal greiða kr. 4.300.

Fyrir árlega áritun hleðslumerkjaskírteinis skal greiða kr. 1.470 fari umrædd skoðun fram um leið og búnaðarskoðun.

Fyrir endurnýjun á skírteini sem glatað er, eða fallið úr gildi, skal greiða kr. 1.260 enda sé sérstakrar skoðunar ekki þörf.

6. gr. Önnur gjöld.

Fyrir skoðun á notuðum skipum sem fyrirhugað er að flytja til landsins skal greiða gjald sem miðast við framlagða vinnu starfsmanna Siglingastofnunar Íslands samkvæmt útseldum taxta stofnunarinnar auk annarra gjalda s.s. fyrir mælingu og útgáfu skírteina og skipsskjala eftir því er við á.

Fyrir framlengingu haffæris án vettvangsskoðunar greiðist kr. 2.500. Fyrir framlengingu haffæris með vettvangsskoðun greiðist samkvæmt reikningi.

Kr.
Leyfi til farþegaflutninga með skipum 4.620
Fyrir skoðun brunaviðvörunarkerfa skipa greiðast eftirtalin gjöld.
0 – 8 metra skip 1.300
8 – 24 metra 2.200
24 – 30 metra 4.400
30 – 45 metra 8.200
45 metra og lengri 11.600

Fyrir eftirfarandi skírteini skipa greiðast eftirtalin gjöld:

Kr.
GMDSS fjarskiptaskírteini, 7.100
ISM skírteini – DOC; 3.900
ISM skírteini – SMC; 3.900
Skírteini fyrir prófun bómu 5.500

II. KAFLI Gjöld skv. 20. gr. laga um skráningu skipa, nr. 115/1985 með síðari breytingum.

7. gr. Skráning skipa og útgáfa skipsskjala.

Fyrir skráningu skips og útgáfu skipsskjala skal greiða:

1. Íslenskt mælibréf og skráningarskírteini fyrir skip Kr.
allt að 15 m að mestu lengd 5.900
2. Þjóðernisskírteini 9.700
3. Mælibréf 5.900
4. Staðfest afrit af mælibréfi, skírteini 1.100
5. Einkaleyfi á skipsnafni 33.300
6. Viðurkenningarskírteini og skilti 950
7. Vottorð um útstrikun skipa af aðalskipaskrá 1.500

Við eigendaskipti og umskráningu skips skulu öll áfallin ógreidd gjöld skv. reglugerð þessari greidd að fullu.

Heimilt er að taka hálft gjald fyrir endurútgáfu íslensks mælibréfs og skráningarskírteinis fyrir skip allt að 15 m að mestu lengd ef um eina breytingu er að ræða er varðar mælinguna og útreikninga er ekki þörf.

III. KAFLI Gjöld skv. 15. gr. laga um skipamælingar, nr. 50/1970.

8. gr. Mæling skipa.

Fyrir endurmælingu skips og útgáfu mælibréfs eða yfirlýsingu skal greiða:

Samkvæmt Oslóarsamþykkt: kr.
Fyrir opna báta 10.400
Þilfarsskip allt að 25 brl. 17.000
Þilfarsskip 25 brl. til og með 100 brl. 23.600
Þilfarsskip 101 brl. til og með 250 brl. 37.600
Þilfarsskip 251 brl. til og með 500 brl. 57.400
Þilfarsskip 501 brl. til og með 1600 brl. 81.600
Þilfarsskip 1601 brl. til og með 5000 brl. 108.100
Þilfarsskip 5001 brl. og stærri greiðist eftir reikningi Siglingastofnunar Íslands.

Samkvæmt íslenskum mælingarreglum og Lundúnasamþykkt frá 1969:

Kr.
Flokkur I. Fyrir skip allt að 15 m mestu lengd 10.400
Flokkur II. A Skip 15,01 m mesta lengd – 24,00 m skráningarlengd.
Mæling í slipp (engin línu- eða bandateikning).
Vinna eftir mælingum og teikningum, útgáfa skírteinis 48.600
II. B Eftirlitsmæling um borð.
Vinna við útreikning eftir línu- eða bandateikningum
og öðrum teikningum 34.000
Flokkur III. A Skip 24,01 m – 45,00 m skráningarlengd.
Mæling í slipp (engin línu- eða bandateikning).
Vinna eftir mælingum og teikningum, útgáfa mælibréfs 88.300
III. B Eftirlitsmæling um borð.
Vinna við útreikning eftir línuteikningu eða bandateikningu
og öðrum stálteikningum og útgáfa mælibréfs 59.000
Flokkur IV. A Skip 45,01 m – 60,0 m skráningarlengd.
Mæling í slipp (engin línu- eða bandateikning).
Vinna eftir mælingum og teikningum og útgáfa mælibréfs 123.000
IV. B Eftirlitsmæling um borð.
Vinna við útreikning eftir línu- eða bandateikningu og
öðrum stálteikningum og útgáfa mælibréfs 88.300
Flokkur V. Skip 60,01 m skráningarlengd og lengri.
Greiðsla samkvæmt reikningi.

Fyrir endurskoðun á mæliskýrslum gerðum af öðrum aðila en Siglingastofnun Íslands samkvæmt Lundúnasamþykkt um mælingu skipa frá 1969 greiðist:

Kr.
Fyrir skip til og með 45 m skráningarlengd 20.300
Fyrir skip yfir 45 m skráningarlengd 33.700

Að auki skal greiða kostnað á ferðalögum innanlands og erlendis vegna mælinga skv. reikningi Siglingastofnunar Íslands.

IV. KAFLI Gjöld skv. 14. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001.

9. gr. Skírteini vegna farþegaskipa og flutningaskipa.

1. Útgáfa alþjóðlegs atvinnuskírteins (STCW) til starfa á farþegaskipum og flutningaskipum kr. 7.900. Hafi umsækjandi gilt íslenskt atvinnuskírteini skal greiða kr. 2.600.
2. Útgáfa áritunar vegna viðurkenningar á erlendu alþjóðlegu atvinnuskírteini (STCW) á farþegaskipum og flutningaskipum kr. 7.900.
3. Útgáfa undanþágu til starfa á farþegaskipum og flutningaskipum til allt að 6 mánaða kr. 7.900.
4. Útgáfa öryggismönnunarskírteinis fyrir farþegaskip og flutningaskip kr. 10.000.
5. Fyrir endurnýjun framantalinna leyfa og skírteina skal greiða kr. 1.600.

V. KAFLI Gjöld skv. 6. gr. laga um köfun, nr. 31/1996.

10. gr. Gjöld fyrir skráningu og skoðun köfunarbúnaðar.

Eigandi köfunarbúnaðar, sem ætlaður er til að nota við köfun í atvinnuskyni, greiðir eftirtalin gjöld fyrir skráningu og skoðun hans:

Kr.
1. Grunngjald skráðs köfunarbúnaðar 7.000
(Skráningarskyldur köfunarbúnaður er lunga, heilgríma,
hjálmur og loftþjappa).
2. Fyrir greiningu lofts (þrjú rör) 4.500
3. Fyrir Dragerrör til loftgreiningar 1.500

11. gr. Gjöld vegna próftöku til köfunarréttinda.

Vegna próftöku til köfunarréttinda greiðast eftirtalin gjöld:

Kr.
1. Fyrir próf til A-réttinda 24.200
2. Fyrir próf til B-réttinda 24.200
3. Fyrir próf til C-réttinda (froskköfun) 12.100
4. Fyrir önnur próf 7.900
5. Fyrir endurtökupróf 7.900

Próftaki skal greiða kostnað vegna próftöku eða hluta hennar sem fram fer utan stofnunarinnar og lækka próftökugjöld skv. 1. mgr. til samræmis við þann kostnað.

12. gr. Gjöld vegna atvinnukafaraskírteina.

Vegna atvinnuskírteina kafara greiðast eftirtalin gjöld:

Kr.
1. Fyrir útgáfu atvinnukafaraskírteinis 5.500
2. Fyrir endurnýjun atvinnukafaraskírteinis 2.100

13. gr. Gjöld fyrir annað eftirlit og þjónustu.

Fyrir annað eftirlit og þjónustu, er köfunarmál varða, skal greiða þóknun samkvæmt reikningi.

VI. KAFLI

 Gjöld skv. lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum.
 14. gr.

 Fyrir veittan frest til þess að gangast undir öryggisfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum aðila skal greiða kr. 2.000.

 VII. KAFLI Önnur gjöld o.fl.

14. gr. Önnur þjónusta.

Fyrir aðra þjónustu Siglingastofnunar Íslands skal greitt skv. reikningi stofnunarinnar.

Siglingastofnun Íslands framkvæmir skoðun á fjarskiptabúnaði smábáta a.m.k. einu sinni á hverju almanaksári. Til smábáta teljast opnir vélbátar 6 metra og lengri og fiskiskip með mestu lengd allt að 15 metrum, enda hafi þessi skip eingöngu VHF-talstöðvar, en ekki millibylgju- og/eða stuttbylgjustöðvar um borð og sigli á hafsvæði STK og A1, sbr. 2. gr. reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa nr. 53/2000.

Gjöld fyrir skoðun skv. 2. gr. hjá bátum með VHF rásir eingöngu skulu vera á ári kr. 1.600.

15. gr. Þjónusta utan skrifstofutíma.

Gjöld samkvæmt reglugerð þessari miðast við að störf hinna fastráðnu starfsmanna Siglingastofnunar Íslands séu unnin á venjulegum skrifstofutíma.

Sé óskað eftir þjónustu utan þess tíma skal að auki greiða fyrir vinnu starfsmanns samkvæmt útseldum taxta stofnunarinnar.

16. gr. Innheimta.

Utan Reykjavíkur skulu gjöld samkvæmt 1. gr. innheimt af sýslumönnum.

Í Reykjavík skulu gjöldin innheimt af tollstjóra.

Gjöldin eru miðuð við skráningu 1. janúar og er gjalddagi og eindagi sá sami hinn 1. apríl sama árs.

Gjöld skv. öðrum greinum reglugerðarinnar skulu innheimt af Siglingastofnun Íslands eftir reikningum sem hún gefur út.

Innheimtumenn skulu skila gjöldum, sem þeir innheimta skv. reglugerð þessari í ríkissjóð.

17. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 28. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 35/1993 með síðari breytingum, 20. gr. laga um skráningu skipa nr. 115/1985 með síðari breytingum, 15. gr. laga um skipamælingar nr. 50/1970, 14. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 og 6. gr. laga um köfun nr. 31/1996 staðfestist hér með til að öðlast gildi 1. janúar 2002 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um gjöld fyrir skoðun, skráningu og mælingu skipa o.fl. nr. 106/2001 með breytingu nr. 491/2001 og gjaldskrá um eftirlit með köfunarbúnaði og aðra þjónustu varðandi köfunarmál nr. 528/2001.

 Samgönguráðuneytinu, 18. júlí 2002. 

 Sturla Böðvarsson. 

 Ragnhildur Hjaltadóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.