Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Námsorlof kennara og stjórnenda framhaldsskóla

Reglur og leiðbeiningar

Námsorlof getur annars vegar falist í fullu leyfi frá störfum í allt að eitt ár eða lækkun á vinnuskyldu innan þeirra marka, og hins vegar í greiðslu mánaðarlauna í allt að eitt ár eða greiðslu hlutfalls þeirra sem svarar til lækkunar vinnuskyldu, ef um slíkt er að ræða. Um mánaðarlaun skólameistara fer samkvæmt ákvörðun Kjararáðs um mánaðarlaun án eininga. Starfshlutfall í ráðningarsambandi stýrir launagreiðslu og því er styrkur í samræmi við starfshlutfall við skólann. 

Ef heimild er veitt til þess að nýta námsorlof til þess að stunda fjarnám við viðurkennda menntastofnun eða þjálfun, t.d. vegna tækniþróunar, án leyfis frá starfi eða lækkunar vinnuskyldu, er heimilt að veita styrk til slíks náms til að mæta útlögðum kostnaði, s.s. vegna skólagjalda og tiltekins ferðakostnaðar.

Umsóknir

Í umsókn um námsorlof skal m.a. taka fram eftirfarandi:

  • hvernig umsækjandi hyggst verja námsorlofinu og hvernig ætlað er að það muni nýtast í starfi,

  • upplýsingar um menntastofnun þar sem ráðgert er að stunda nám á orlofstíma. Sé ekki um reglulegt nám að ræða, heldur styttri námskeið, þjálfun eða annars konar námsdvöl, skal gera ítarlega grein fyrir tilhögun námsins,

  • hvort umsækjandi hefur áður fengið námsorlof kennara,

  • rökstuðningur skólameistara fyrir umsókn um leyfi til endurmenntunar einstakra kennara, náms- og starfsráðgjafa eða stjórnenda sem sótt er um orlof fyrir í nafni skóla,

  • aðrar upplýsingar sem umsækjandi telur skipta máli.

Umsækjandi um námsorlof skal upplýsa skólameistara um umsókn sína.

Skýrsluskil

Orlofsþegi skal senda inn skýrslu um nýtingu námsorlofs í umsýslukerfi Rannís innan sex mánaða frá því að orlofi lýkur, með upplýsingum um störf sín og nám á orlofstímanum. Skýrslan skal miðuð við að unnt sé að birta hana.