Námsmenn með börn, upplýsingar um réttindi
Námsmenn fá dagvistun barna sinna niðurgreidda, hvort sem er hjá dagforeldrum eða á leikskólum.
Fæðingarorlof
Við fæðingu barns eiga námsmenn rétt á fæðingarstyrk, það er greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði. Auk þess eiga foreldrar rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem þeir geta ráðstafað sín á milli að vild.
Skila þarf umsókn til Fæðingarorlofssjóðs síðasta lagi þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.
Fæðingarorlof og fæðingarstyrkur á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytis
Barnabætur
Barnabætur eru til þess ætlaðar að létta undir með barnafólki og jafna stöðu þess. Ákveðin upphæð er greidd til foreldra með hverju barni fram að 18 ára aldri.
Dagvistun barna
Námsmenn eiga rétt á niðurgreiðslu daggæslu- og leikskólagjalda barna sinna. Skila þarf inn vottorði skóla um fullt nám. Nánari upplýsingar um gjaldskrár og niðurgreiðslur ásamt umsóknareyðublöðum fást á vefjum leikskóla og sveitarfélaga og hjá dagforeldrum.
Námsmenn sem eiga lögheimili í einu sveitarfélagi en ætla að stunda nám í öðru geta fengið undanþágu og sótt um leikskólapláss og dvöl hjá dagforeldrum. Skila þarf inn vottorði skóla um fullt nám og staðfestingu heimasveitarfélags.
Félagsstofnun stúdenta rekur nokkra leikskóla fyrir námsmenn við Háskóla Íslands. Þá geta foreldrar sem nema við Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri leitað til viðkomandi sveitarfélags eftir leikskólaplássi. Sveitarfélög reka leikskóla við þrjá háskóla á landsbyggðinni, Háskólann á Hólum, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólann á Bifröst.
Stofnanir á vef stjórnarráðsins
Leikskólar Félagsstofnunar stúdenta
Sveitarfélög á landinu
Til minnis
Listar og upplýsingar um dagforeldra eru á vefjum sveitarfélaga.
Kynna sér aðstæður og aðbúnað hjá dagforeldri. Gjaldskrá dagforeldra er frjáls.
Kynna sér reglur um niðurgreiðslur á daggjöldum á vefjum sveitarfélaga.
Upplýsa dagforeldri um venjur barnsins, heilsu og breytingar á högum.
Sækja um leikskóladvöl í því sveitarfélagi þar sem barn er skráð með lögheimili.
Kynna sér reglur um leikskóla sem eru misjafnar milli sveitarfélaga, meðal annars:
um hvenær má sækja um leikskóladvöl fyrir barn og hvenær búast má við að það fái úthlutað plássi,
um gjaldskrá leikskóla, niðurgreiðslur og aðra afslætti,
um hvernig tilkynna skal breytingar á högum barns.