Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Meðganga, mæðravernd og fæðing

Barnshafandi konur fá ókeypis mæðravernd hafi þær átt skráð lögheimili hér á landi undangengna sex mánuði. Tilgangurinn er að stuðla að heilbrigði móður og barns með faglegri umönnun, stuðningi og fræðslu.

Mæðravernd

Heilbrigðar barnshafandi konur sækja skoðanir í mæðravernd á nærliggjandi heilsugæslustöð.

Mæðravernd er tilvonandi móður að kostnaðarlausu sé hún sjúkratryggð á Íslandi.

Konum sem taldar eru í áhættumeðgöngu er sinnt á kvennasviði Landspítalans (LS) og kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Öllum konum sem geta orðið eða eru barnshafandi er eindregið ráðlagt að taka daglega inn fólat (fólasín/fólínsýru) og neyta fólatríkrar fæðu.

Fyrsta skoðun fer fram við 8–12 vikna meðgöngu. Gert er ráð fyrir að konur sem eru að eignast sitt fyrsta barn fari í 10 skoðanir fram að fæðingu en aðrar í 7 skipti.

Ljósmæður annast mæðravernd í nánu samstarfi við lækna og aðra sérfræðinga.

Barnshafandi konum er boðin ómskoðun við 19–20 vikna meðgöngu. Sé meðgangan áhættusöm á einhvern hátt getur ómskoðun farið fram fyrr og oftar og fleiri rannsóknir gerðar eftir þörfum.

Eftirskoðun hjá lækni eða ljósmóður er æskileg 6–10 vikum eftir fæðingu. Þá er almennt heilsufar móður metið og ráðgjöf veitt.

Víða er verðandi foreldrum boðið upp á námskeið. Upplýsingar þar um er að fá hjá heilsugæslustöðvum og Mæðravernd.

Fæðing

Konum er frjálst að fæða börn sín á hvaða sjúkrahúsi sem er, sé þar veitt fæðingarþjónusta. Ekkert gjald er tekið fyrir fæðingar sé móðirin sjúkratryggð á Íslandi.

Sængurlega er mislöng eftir eðli fæðingar, allt frá sólarhring upp í nokkra sólarhringa.

Eftir fæðingu vitja hjúkrunarfræðingar móður og barns á heimili þeirra en við 6 vikna aldur taka við skoðanir á heilsugæslustöðvum.

Hægt er að fara heim innan sólarhrings frá fæðingu ef skilyrði um heilsu móður og barns eru uppfyllt. Hún nýtur þá heimaþjónustu ljósmóður næstu daga sér að kostnaðarlausu. Hafa þarf í huga að heimaþjónustu er ekki sinnt í öllum byggðarlögum landsins.

Heimafæðing

Kona getur fætt í heimahúsi ef heilsa hennar og barns og aðrar aðstæður leyfa. Ljósmæður sem annast mæðravernd veita upplýsingar um tilhögun heimafæðinga.

Móðir sem fæðir í heimahúsi á rétt á sjúkradagpeningum í 10 daga frá fæðingu barns.
Um sjúkradagpeninga á vef Sjúkratrygginga
Þjónusta í heimahúsum á vef Sjúkratrygginga
Um ung- og smábarnavernd á vef Heilsugæslunnar

Til minnis

  • Fara helst í fyrstu mæðraskoðun fyrir 13. viku meðgöngu.

  • Öll mæðravernd og ungbarnaeftirlit er ókeypis/án endurgjalds.

  • Taka inn fólínsýru minnst 12 fyrstu vikur meðgöngu.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir