Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Meðganga, líðan og félagslegar aðstæður

Gæta ber að ýmsu til að tryggja hreysti og velferð verðandi móður og barns hennar. Þar má nefna mataræði, andlega líðan og aðstæður daglegs lífs.

Mataræði og lífshættir

Hollt mataræði, hvíld og hreyfing er mikilvæg fyrir heilsu og vellíðan barnshafandi konu og nauðsyn fyrir vöxt og þroska barns í móðurkviði.

Forðast ætti að neyta sumra matvara á meðgöngu, svo sem hrárra fisk- og kjötafurða.

Reykingar, óbeinar reykingar, áfengi, vímuefni og sum lyf geta haft skaðleg áhrif á fóstur.

Ávallt ætti að ráðfæra sig við lækni eða ljósmóður áður en lyfja eða fæðubótarefna er neytt og upplýsa lækna og lyfjafræðinga um þungun við ávísun lyfja.

Fæðingarþunglyndi

Mikilvægt er að þekkja einkenni fæðingarþunglyndis en talið er að allt að sjöunda hver íslensk kona finni fyrir andlegri vanlíðan eftir barnsburð.

Einkenni koma oftast fram 6–8 vikum eftir fæðingu en geta birst á seinni hluta meðgöngu eða allt að ári eftir fæðingu.

Móðir sem telur sig hafa fæðingarþunglyndi ætti að leita hjálpar hið fyrsta. Aðstandendur ættu einnig að hafa gát á líðan móður og aðstoða eftir mætti.

Nærtækt er að leita ráðgjafar hjá læknum, ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum á heilsugæslustöðvum en meðferð við fæðingarþunglyndi er mismunandi eftir alvarleika þess.

Ómeðhöndlað þunglyndi móður getur haft skaðleg áhrif á þroska barns, tengslamyndun og andlega heilsu móður til frambúðar.

Félagslegar aðstæður

Ef barnshafandi kona glímir við persónulega erfiðleika, eins og fjárhagsvanda, erfiðar fjölskylduaðstæður eða þunglyndi, má leita ráða hjá þeim sem annast mæðravernd.

Félagsráðgjafar, sálfræðingar og starfsfólk hjá velferðar-/félagsþjónustum sveitarfélaga bjóða viðtöl og veita ráðgjöf um réttindi og félagslega aðstoð.

Dæmi um félagslega ráðgjöf hjá sveitarfélögunum:

Til minnis

  • Hjá þeim sem annast mæðravernd má leita ráða og aðstoðar vegna heilsufars og félagslegra aðstæðna.

Vert að skoða