Fara beint í efnið

Lýðheilsuvaktin

Um lýðheilsuvaktina og túlkun talna

Nánar um lýðheilsuvaktina

Lýðheilsuvaktin fylgist með heilsuhegðun og líðan fullorðinna og þróun helstu áhrifaþátta heilbrigðis. Þær mælingar sem eru birtar í mælaborði Lýðheilsuvaktarinnar hafa margar hverjar áður verið birta í Lýðheilsuvísum og/eða í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.

Byggt er á reglubundnum netkönnunum sem Gallup framkvæmir fyrir embætti landlæknis (mánaðarleg vöktun og árlegar sveitarfélagakannanir). Mánaðarlega er tekið slembiúrtak, 18 ára og eldri, úr viðhorfahópi Gallup. Ef ekki er hægt að taka nógu stórt úrtak fyrir hvert heilbrigðisumdæmi er tekið slembiúrtak úr þjóðskrá innan þess svæðis. Í hverjum mánuði veljast um 800 einstaklingar til þátttöku og hefur þátttökuhlutfallið verið rúmlega 50% undanfarin ár sem hefur skilað um það bil 5.000 svörum árlega síðustu ár. Auk þess byggja þær greiningar sem birtar eru í Lýðheilsuvaktinni á svörum ríflega 5.000 einstaklinga árlega við spurningum úr sveitarfélagakönnunum Gallup.

Túlkun á niðurstöðum

Við túlkun á niðurstöðum Lýðheilsuvaktarinnar ber að hafa í huga að um úrtakskönnun er að ræða. Í úrtakskönnunum getur komið fram flökt enda innihalda niðurstöðurnar ekki mælingar á öllum landsmönnum heldur á slembiúrtaki sem á þó að endurspegla þjóðina. Þá getur kerfisbundin skekkja einnig verið fyrir hendi, t.d. ef þeir sem hafna þátttöku eru að einhverju leyti frábrugðnir þeim sem taka þátt. Rétt er að taka fram að spurningalistinn er einungis sendur út á íslensku og nær Lýðheilsuvaktin því einungis til þeirra sem geta svarað spurningalista á íslensku.

Í Lýðheilsuvaktinni eru hlutföll vigtuð til að endurspegla aldurs- og kynjasamsetningu landsmanna. Eru niðurstöður sýndar með 95% vikmörkum til að gefa til kynna óvissuna að baki mælingunni. Fjöldi í hóp/úrtaki hefur áhrif á stærð vikmarka.

Dæmi um túlkun: Ef hlutfall mælist 8,0% og vikmörkin +/-1,3% þá er hægt að fullyrða með 95% vissu að hlutfallið í þýði sé á bilinu 6,7% (8,0-1,3) til 9,3% (8,0+1,3).

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis