Almennt
Leyfið þarf að sækja um á hverju ári, fyrir 30. nóvember.
Skilyrði
Söluaðili er fyrirtæki eða félagasamtök með virðisaukaskattsnúmer.
Tilgreina þarf ábyrgðarmann sem hefur náð 18 ára aldri.
Sölustaður og geymsla fyrir flugelda uppfylla skilyrði sem eru í reglugerð.
Þau sem afgreiða í flugeldasölu eru 18 ára eða eldri.
Fylgiskjöl með umsókn
Vottorð vátryggingafélags um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns á munum vegna skotelda á sölustað.
Samþykki lóðareiganda, og eftir atvikum húseiganda, þess húsnæðis þar sem á að geyma og selja flugelda.
Lögreglustjóri kallar eftir umsögn slökkviliðsstjóra um sölustaðinn þegar umsókn hefur borist.
Leyfilegir flugeldar
Það má bara selja flugelda sem:
hafa gerðarviðurkenningu Neytendastofu,
eru með CE-merki,
eru framleiddir samkvæmt ákveðnum stöðlum sem eru taldir upp í reglugerð.
eru fluttir inn af þeim sem hafa leyfi lögreglustjóra til innflutnings á flugeldum. Þetta skilyrði á ekki við um flugelda í flokki 1.
Hvað má selja hverjum?
Flokkur 1 | Flokkur 2 og 3 | Flokkur 4 |
---|---|---|
Til almennra notenda. Aldurstakmark: 12 ára Tímabil: Allt árið. | Til almennra notenda. Aldurstakmark: 16 ára fyrir flokk 2, 18 ára fyrir flokk 3. Tímabil: 28. desember til 6. janúar, að báðum dögum meðtöldum. Smásala í flokki 2 og 3 er aðeins heimil á viðurkenndum sölustöðum. | Til einstaklinga sem hafa sérfræðiþekkingu. Kaupandi þarf að hafa ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingafélagi. |
Sala og markaðssetning á netinu
Það má auglýsa flugeldasölu á netinu frá 20. desember til 6. janúar ef varan er afhent á viðurkenndum sölustað á tímabilinu 28. desember til 6. janúar.
Heimsendingar
Heimsendingar á flugeldum eru bannaðar. Undantekning er ef kaupandi býr í dreifbýli og enginn viðurkenndur sölustaður er í nálægu þéttbýli.
Eftirlit með sölu
Lögreglustjórar og Neytendastofa sjá um eftirlit með sölu flugelda. Þau mega hvenær sem er, og án sérstakrar heimildar, skoða húsnæði þar sem sem birgðir eru geymdar.
Komi í ljós að húsnæði eða vörslu flugelda sé ábótavant getur lögreglustjóri lagt hald á flugeldana. Sama gildir ef þeir uppfylla ekki öryggiskröfur, til dæmis um CE-merkingu.
Lög og reglur

Þjónustuaðili
Lögreglan