Prentað þann 4. nóv. 2024
414/2017
Reglugerð um skotelda.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
- II. KAFLI Notkun og sala skotelda.
- III. KAFLI Skoteldasýningar.
- IV. KAFLI Framleiðsla, innflutningur og verslun.
- 16. gr. Leyfi til framleiðslu.
- 17. gr. Skyldur framleiðanda.
- 18. gr. Umsókn um framleiðsluleyfi.
- 19. gr. Gildistími framleiðsluleyfis.
- 20. gr. Leyfi til innflutnings.
- 21. gr. Tollafgreiðsla.
- 22. gr. Skyldur innflutningsaðila.
- 23. gr. Umsókn um innflutningsleyfi.
- 24. gr. Gildistími innflutningsleyfis.
- 25. gr. Gerðarviðurkenning.
- 26. gr. CE-samræmismerking.
- 27. gr. CE-staðlar.
- 28. gr. Sérstakar takmarkanir.
- 29. gr. Leyfi til smásölu.
- 30. gr. Öryggisreglur á sölustöðum.
- 31. gr. Umsókn um smásöluleyfi.
- 32. gr. Leyfi til útflutnings.
- 33. gr. Umsókn um útflutningsleyfi.
- 34. gr. Skyldur útflytjanda.
- 35. gr. Sérstök notkun skotelda.
- 36. gr. Eyðing skotelda.
- V. KAFLI Skráning, eftirlit og refsingar.
- Viðauki
I. KAFLI Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið.
Markmið með reglugerð þessari er að tryggja svo sem kostur er heilsuvernd manna, almannaöryggi og vernd og öryggi notenda.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um flugeldavörur sem ætlaðar eru til skemmtunar, flugeldavörur fyrir leikhús, á sviði innan húss eða utan, þ.m.t. fyrir sjónvarps- eða kvikmyndaframleiðslu, blys, reyk-, lita-, lyktar- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrautelda.
Þá gildir reglugerðin, eftir því sem við á, um flugeldavörur fyrir ökutæki og loftför. Með flugeldavörum þessum er átt við viðurkennda íhluti í öryggisbúnaði til notkunar í ökutækjum eða loftförum sem innihalda skoteldaefni sem notuð eru til að virkja hann eða annan búnað.
Reglugerðin gildir ekki um sérbúna skotelda, svo sem neyðarblys, flugelda í geimiðnaði og skotelda hernaðarlegs eðlis. Nú er neyðarblys ekki notað í neyðartilgangi og gildir þá reglugerð þessi um notkun þess.
Leiki á því vafi hvort vara teljist til skotelda eða sprengiefnis og/eða í hvaða flokk skoteldavara skuli falla þá sker ríkislögreglustjóri úr því, að fenginni umsögn Vinnueftirlits ríkisins (sjá viðauka).
3. gr. Skilgreiningar.
Skoteldar og flugeldavörur: Hvers kyns hlutir sem innihalda efni eða efnablöndu sem getur sprungið og ætlað er, með íkveikju eða á annan hátt, að gefa frá sér hita, ljós, hljóð, lofttegund eða reyk með útvermum og sjálfbærum efnaferlum.
Framleiðandi: Með framleiðanda er átt við einstakling eða lögaðila sem framleiðir skotelda eða lætur framleiða eða hanna slíka vöru og setur vöruna á markað undir eigin nafni eða vörumerki.
Innflytjandi: Með innflytjanda er átt við einstakling eða lögaðila með staðfestu hér á landi sem setur skoteldavörur frá þriðja landi á markað hér á landi.
4. gr. Flokkun skotelda.
Skoteldum sem ætlaðir eru til skemmtunar er skipt upp í fjóra flokka, skoteldum fyrir leikhús upp í tvo flokka og skoteldum, öðrum en fyrir leikhús upp í tvo flokka. Flokkarnir skiptast með eftirfarandi hætti:
1. flokkur: | Skoteldar sem mjög lítil hætta stafar af, hávaðastig er óverulegt og sem eru ætlaðir til notkunar á lokuðum svæðum, þ.m.t. skoteldar sem eru ætlaðir til notkunar inni í íbúðarhúsum. |
2. flokkur: | Skoteldar sem lítil hætta stafar af, hávaðastig er lágt og sem ætlaðir eru til notkunar utan húss á lokuðum svæðum, í húsagörðum eða öðrum minni svæðum. |
3. flokkur: | Skoteldar sem miðlungs hætta stafar af, sem eru ætlaðir til notkunar utan dyra á stórum opnum svæðum og með hávaðastig sem er ekki skaðlegt heilbrigði manna. |
4. flokkur: | Skoteldar sem mikil hætta stafar af, sem ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings og eru aðeins ætlaðir til notkunar af einstaklingum með sérfræðiþekkingu (almennt þekktir sem skoteldar til faglegra nota) og með hávaðastig sem ekki er skaðlegt heilbrigði manna. |
Flokkur T1: | Flugeldavörur til notkunar á sviði sem lítil hætta af stafar. |
Flokkur T2: | Flugeldavörur til notkunar á sviði þar sem notendur eru einstaklingar með sérfræðiþekkingu. |
Flokkur P1: | Flugeldavörur, aðrar en flugeldavörur fyrir leikhús, sem lítil hætta stafar af. |
Flokkur P2: | Flugeldavörur, aðrar en flugeldavörur fyrir leikhús, eingöngu til meðhöndlunar eða notkunar hjá einstaklingum með sérfræðiþekkingu. |
Um innihald, merkingar, prófun skotelda o.fl. gilda CE-samræmingarstaðlar sem vistaðir eru hjá Staðlaráði Íslands, sjá 25.-27. gr. reglugerðar þessarar.
II. KAFLI Notkun og sala skotelda.
5. gr. Sala skotelda.
Aðeins er heimilt að setja á markað hér á landi skotelda sem hlotið hafa gerðarviðurkenningu og bera CE-samræmismerki og framleiddir eru samkvæmt viðeigandi stöðlum sem getið er í 26. gr., sbr. og 27. gr.
Heimilt er að selja skotelda í flokki 1, 2 og 3 til almennra notenda. Skotelda í flokki 4 er aðeins heimilt að selja þeim sem sýnt geta fram á með fullnægjandi hætti að þeir hafi sérfræðiþekkingu á skoteldum, enda hafi viðkomandi ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingafélagi vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns af völdum skotelda.
Smásala á skoteldum í flokki 1 er heimil allt árið en smásala skotelda í flokki 2 og 3 til notenda er aðeins heimil á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum. Í sérstökum tilvikum, og að fenginni rökstuddri tillögu þar um, er þó lögreglustjóra heimilt að leyfa sölu á skoteldum í einn dag á tímabilinu eftir þrettánda dag jóla og fram að sunnudegi þar á eftir. Smásala í flokki 2 og 3 er aðeins heimil á viðurkenndum sölustöðum.
Heimilt er að markaðssetja skotelda á netinu með rafrænum hætti á tímabilinu frá 20. desember til 6. janúar, enda sé varan afhent á viðurkenndum sölustað skv. 3. mgr. á tímabilinu 28. desember til 6. janúar. Óheimilt er að senda skotelda sem seldir eru á netinu heim til kaupanda. Þó er heimilt að senda skotelda til notenda í dreifbýli enda er enginn viðurkenndur sölustaður í nálægu þéttbýli. Um flutninginn gildir reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi.
6. gr. Almenn notkun.
Almenn notkun á skoteldum er óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum nema á skoteldum í flokki 1 sem nota má allt árið.
Undanþegnir hinu almenna banni um notkun skotelda utan tímamarka, sbr. 1. mgr., eru framleiðendur og innflytjendur vegna prófunar á skoteldum, þeir sem hafa fengið leyfi fyrir skoteldasýningum og þeir sem hafa fengið sérstakt leyfi lögreglustjóra til að nota skotelda við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar.
Nú hefur lögreglustjóri leyft sölu á skoteldum í einn dag á tímabilinu eftir þrettánda dag jóla og fram að sunnudegi þar á eftir og er þá notkun heimil þann dag.
Á því tímabili sem almenn notkun skotelda er leyfð er meðferð þeirra þó alltaf bönnuð frá kl. 22.00 til kl. 10.00 daginn eftir að undanskilinni nýársnótt.
7. gr. Aldur notenda.
Skoteldar skulu ekki seldir einstaklingum undir eftirfarandi aldurstakmörkunum:
- Skoteldar í flokki 1, 12 ára.
- Skoteldar í flokki 2, 16 ára.
- Skoteldar í flokki 3, 18 ára.
Öll meðferð barna yngri en 18 ára á skoteldum skal vera undir eftirliti fullorðinna.
8. gr. Merkingar á skoteldum.
Skoteldar skulu vera með álímdum eða áprentuðum leiðbeiningum á íslensku þar sem fram kemur stutt lýsing á eiginleikum þeirra og hvernig beri að nota þá þannig að sem minnst hætta stafi af. Heimilt er að víkja frá þessari reglu þegar um smáa og hættulitla skotelda er að ræða, enda séu þeir seldir nokkrir saman í merktri pakkningu. Leiðbeiningarnar mega ekki draga úr sýnileika og læsileika CE-merkisins. Um efnisinnihald merkinga vísast til ÍST EN 15947-3:2015, lágmarkskröfur um merkingar.
Innlendum framleiðendum og innflutningsaðilum er skylt að útbúa til dreifingar á sölustöðum almennar leiðbeiningar um notkun skotelda og til hvaða varúðarráðstafana skuli grípa ef skoteldur reynist gallaður eða springur ekki eftir tendrun. Í leiðbeiningum skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:
- Hvernig tendra skuli í skoteldum,
- almennar varúðarreglur um notkun skotelda,
- notkun öryggisbúnaðar, svo sem öryggisgleraugna, vettlinga o.fl.,
- hvenær heimilt er að skjóta upp skoteldum,
- hvert skuli leita reynist skoteldur gallaður eða slys ber að höndum,
- neyðarnúmerið 112.
9. gr. Breytingar á skoteldum.
Óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að eiginleikar hans verði aðrir en framleiðandi hans ætlaðist til.
10. gr. Notkun skotelda við brennur.
Við brennu og í næsta nágrenni við hana er öll meðferð skotelda sem hætta stafar af vegna ferils þeirra eftir tendrun bönnuð. Þar er aðeins leyfilegt að nota stjörnuljós og blys, þó ekki skotblys. Við notkun stjörnuljósa og blysa skal gæta að öryggi fólks og að þeir kveiki ekki í sinu og valdi gróðureldum.
11. gr. Notkun skotelda við stofnanir o.fl.
Notkun skotelda er bönnuð við staði þar sem þeim er pakkað, þeir seldir eða geymdir og í nálægð við aðra staði þar sem eldfim efni eru.
Skotelda má ekki nota innan þeirra fjarlægðarmarka sem hér greinir:
- 100 metra frá mannvirkjum sem gerð eru úr sérstaklega eldfimum efnum, stöðum þar sem eldfim efni eru geymd, timburgeymslum, geymslum með brennanlegar umbúðir og þess háttar og geymslustöðum fyrir eldfima vökva og gaskúta.
- 200 metra frá skóglendi, lynggrónu landi eða öðrum viðkvæmum gróðri.
Notkun stærri skotelda en þeirra sem falla undir 2. flokk er bönnuð innan eftirgreindra marka:
- 50 metra frá mannvirkjum sem gerð eru úr sérstaklega eldfimum efnum, stöðum þar sem eldfim efni eru geymd, timburgeymslum, geymslum með brennanlegum umbúðum og geymslustöðum fyrir eldfima vökva og gaskúta.
- 100 metra frá skóglendi, lynggrónu landi eða öðrum viðkvæmum gróðri.
Almenn notkun skotelda á lóðum elliheimila og sjúkrahúsa er bönnuð.
Undanskildir ofangreindum fjarlægðarmörkum eru smærri skoteldar, svo sem stjörnuljós, handblys og slíkar vörur sem hægt er að hafa fulla stjórn á, en við notkun þeirra skal hafa sérstaka gát í nánd við eldfim svæði.
Taka skal sérstakt tillit til dýra við meðferð skotelda. Við gripahús er notkun skotelda bönnuð.
12. gr. Öryggisreglur við almenna notkun.
Við meðferð og vörslu skotelda skal ítrustu varúðar gætt og ætíð farið eftir skráðum leiðbeiningum. Huga skal að geymslustað skotelda frá því þeir eru keyptir og þar til þeir eru notaðir m.t.t. hitastigs í geymslu, rakastigs og rafmagns. Heimilt er að flytja skotelda í flokki 1, 2 og 3 á milli staða í bifreið án sérstakra varúðarráðstafana, enda eru skoteldarnir ætlaðir til einkanota.
Gæta skal að öryggisfjarlægðum sem mælt er með við notkun á skoteldum. Öryggisfjarlægðir eru eftirfarandi:
- Fyrir flokk 1 verður öryggisfjarlægð að vera 1 m hið minnsta; hins vegar má öryggisfjarlægð vera styttri, eftir því sem við á, t.d. ef um er að ræða mjög hættulitla skotelda.
- Fyrir flokk 2 verður öryggisfjarlægð að vera 8 m hið minnsta en má þó vera styttri, eftir því sem við á.
- Fyrir flokk 3 verður öryggisfjarlægð að vera 15 m hið minnsta; hins vegar má öryggisfjarlægð vera styttri, eftir því sem við á.
Leitast skal við að nota viðeigandi hlífðarbúnað til að verja sjón og heyrn notenda og þeirra sem njóta eiga skoteldanna.
Varast skal að skjóta upp skoteldum undir áhrifum áfengis eða lyfja sem slæva dómgreind og viðbragðsflýti.
13. gr. Tilkynningaskylda.
Nú verður alvarlegt slys af völdum skotelda og skal þá bráðamóttaka sjúkrahúss þegar í stað tilkynna það til lögreglu og Neytendastofu. Skylt er að tilkynna Neytendastofu þegar vart verður gallaðra skotelda í umferð.
III. KAFLI Skoteldasýningar.
14. gr. Almenn skilyrði.
Lögreglustjórum er heimilt að veita sérstök leyfi til skoteldasýninga til sveitarfélaga eða skráðra félagasamtaka, enda er skoteldasýning liður í opinberum hátíðarhöldum. Útgáfa leyfis til sýningar er bundin því skilyrði að ákveðinn aðili hafi umsjón með sýningunni og að sérstakur skotstjóri annist framkvæmd hennar. Umsjónaraðili, sem jafnframt er ábyrgðarmaður skoteldasýningar, skal hafa ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingafélagi vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns af völdum skoteldanna. Skotstjóri skal að lágmarki vera fullra 18 ára og hafa víðtæka þekkingu á skoteldum og reynslu til að annast skoteldasýningar. Vinnueftirlitið getur sett sérstakar reglur um hæfnismat skotstjóra.
Umsóknum um leyfi til skoteldasýninga skal beina til lögreglustjóra í því umdæmi sem sýning er fyrirhuguð. Í leyfisumsókn skal tilgreina nafn umsjónaraðila, skotstjóra, fyrirhugaðan sýningarstað, hvenær sýning hefst og hvenær henni lýkur. Tilgreina skal heildarmagn skotelda sem nota á, hvernig það skiptist eftir tegundaheitum og frá hvað framleiðanda og/eða innflutningsaðila þeir eru.
Lögreglunni ber að tilkynna slökkviliði, stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, hafnar- og flugstjórnaryfirvöldum um skoteldasýningar. Jafnframt skal senda lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu afrit af þeim leyfum sem gefin eru fyrir skoteldasýningum.
Skilyrði til að veita leyfi fyrir skoteldasýningu er að fyrir liggi samþykki heilbrigðisnefndar fyrir sýningunni, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft mengun í för með sér. Einnig skal fylgja umsögn sveitarstjórnar og slökkviliðsstjóra.
Lögreglustjóri getur takmarkað leyfi til sýninga við ákveðið magn og gerðir skotelda, afturkallað leyfi til sýninga hvenær sem er, eða gefið fyrirmæli um að sýningu skuli frestað.
15. gr. Öryggisreglur.
Við framkvæmd skoteldasýninga gilda eftirfarandi reglur:
- Leyfishafi skal, ef þess er krafist af lögreglustjóra, auglýsa fyrirhugaða sýningu með sólarhrings fyrirvara í fjölmiðlum samkvæmt nánari fyrirmælum hans. Leyfishafa ber að tilkynna lögreglu og flugstjórnaryfirvöldum að minnsta kosti 15 mínútum áður en skoteldasýning hefst.
- Skoteldasýningar skulu ekki haldnar eftir kl. 23.00 virka daga og ekki eftir kl. 24.00 um helgar.
- Aldrei skulu færri en tveir menn sjá um framkvæmd sýninga.
- Áður en undirbúningur skoteldasýningar hefst skal afmarka öryggissvæði með áberandi hætti, t.d. plastrenningum, í a.m.k. 18 metra fjarlægð.
-
Á meðan skotið er skal afmarka öryggissvæðið frá áhorfendum með eftirfarandi hætti:
- 30 metrar ef notaðar eru "skotkökur og gos".
- 100 metrar ef notaðar eru "bombur" 150 mm (6 tommur) eða minni að þvermáli.
- A.m.k.130 metrar ef notaðir eru stærri skoteldar en um getur í lið b.
- Leyfishafa er skylt að vakta öryggissvæði á tryggan hátt samkvæmt fyrirmælum lögreglu.
- Innan afmarkaðs öryggissvæðis skulu ekki vera byggingar eða starfsemi þar sem eldhætta er mikil eða hætta á skemmdum, sbr. ákvæði 11. gr.
- Skothólkar skulu vera úr pappa, plasti, trefjaplasti, eða öðrum sambærilegum efnum og þannig gerðir að ekki stafi hætta af hlutum þeirra ef þeir springa. Endurhleðsla í skothólka og notkun járnhólka er bönnuð.
- Skothólka skal skorða vandlega.
- Á skotstað skal vera fullnægjandi slökkvibúnaður, minnst tvö slökkvitæki fyrir A-elda, til dæmis 9 lítra vatnsslökkvitæki með slökkvimátt 13A samkvæmt staðlinum ÍST EN3.
- Allir sem starfa á skotsvæði skulu vera búnir hjálmi með andlitshlíf og fatnaði úr tregtendranlegum efnum.
- Reykingar eru bannaðar á skotstað.
- Sýningu má ekki hefja fyrr en skotstjóri hefur yfirfarið öryggisþætti og gefið leyfi fyrir skotum.
- Að sýningu lokinni skal gengið úr skugga um að engir ósprungnir skoteldar séu eftir á svæðinu. Ósprungnum skoteldum skal eytt, sbr. 36. gr. Leyfishafa ber jafnframt að sjá um hreinsun þess svæðis þar sem skoteldasýning hefur farið fram.
IV. KAFLI Framleiðsla, innflutningur og verslun.
16. gr. Leyfi til framleiðslu.
Enginn má framleiða skotelda hér á landi í atvinnuskyni nema með leyfi lögreglustjóra í því umdæmi sem framleiðslan fer fram. Framleiðsluleyfi felur í sér rétt til heildsölu og innflutnings á hráefni til vinnslunnar að því tilskildu að sala og innflutningur viðkomandi efna sé ekki takmarkaður samkvæmt öðrum reglugerðum.
Leyfi til að framleiða skotelda í atvinnuskyni verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé skráð fyrirtæki með virðisaukaskattsnúmer og tilgreindan ábyrgðarmann sem hefur sérþekkingu á skoteldum og hefur náð 20 ára aldri. Jafnframt að fyrirtækið hafi gilt starfsleyfi, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og að húsnæði til framleiðslunnar standist kröfur Mannvirkjastofnunar að mati slökkviliðsstjóra.
Nú lætur framleiðandi framleiða eða hanna skoteldavöru og setur hana á markað undir eigin nafni eða vörumerki hér á landi nægir að sækja um innflutningsleyfi fyrir skoteldana.
17. gr. Skyldur framleiðanda.
Leyfishafa ber að fylgja fyrirmælum lögreglu um framleiðsluna, sem skal standast sömu gæðakröfur og áskilið er um innflutta skotelda, sbr. 25. gr.
Framleiðanda er aðeins heimilt að ráðstafa skoteldum til þeirra sem hafa leyfi til verslunar með skotelda og til þeirra sem hafa fengið sérstakt leyfi lögreglustjóra til að nota skotelda utan sölutímabils, sbr. 6. gr., enda framvísi kaupandi gildu leyfi.
Framleiðandi skal geyma skotelda og hráefni til framleiðslunnar við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra að því er varðar öryggi, svo sem gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða og svo framvegis. Heimilt er að takmarka magn skotelda sem má geyma á sama stað og sýningarvörur í flokki 4 skal geyma aðskildar frá öðrum skoteldum. Þar sem ekki er sólarhringsvöktun skal framleiðslustaður og birgðageymsla tengd eftirlitsmiðstöð. Um varðveislu og flutning á sprengjanlegum efnum, svo sem púðri, fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um sprengiefni og reglugerðar um flutning á hættulegum farmi.
18. gr. Umsókn um framleiðsluleyfi.
Umsókn til lögreglustjóra um framleiðsluleyfi skal undirrituð af forráðamanni fyrirtækis og árituð af ábyrgðarmanni ef hann er annar en forráðamaður. Í umsókn skal greina frá eftirfarandi:
- Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi fyrirtækis.
- Staðsetningu framleiðslu og birgðastöðvar.
- Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi ábyrgðarmanns framleiðslunnar.
- Nöfnum og kennitölum stjórnarmanna fyrirtækis.
- Hvað fyrirhugað er að framleiða.
- Hvaða faglegu þekkingu ábyrgðarmaður býr yfir vegna fyrirhugaðrar framleiðslu.
Umsókn skal fylgja staðfesting Hagstofu Íslands um skráningu fyrirtækisins, staðfesting frá skattstjóra um virðisaukaskattsnúmer og vottorð frá vátryggingafélagi um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki eða tjóns á munum vegna framleiðslunnar.
Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra.
19. gr. Gildistími framleiðsluleyfis.
Gildistími leyfis skal ekki vera lengri en 5 ár.
Um gjald fyrir framleiðsluleyfi og endurnýjun þess fer skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
20. gr. Leyfi til innflutnings.
Enginn má flytja inn skotelda í atvinnuskyni nema með leyfi lögreglustjóra að undanskildum skoteldum í flokki 1. Innflutningsleyfi felur jafnframt í sér leyfi til heildsölu á skoteldum, en vilji innflytjandi koma upp smásölustað, sbr. 3. mgr. 5. gr., skal sækja um slíkt leyfi til lögreglustjóra ár hvert, sbr. 29. gr. Innflutningur einstaklinga á skoteldum til eigin nota er bannaður.
Leyfi til að flytja inn skotelda í atvinnuskyni verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé fyrirtæki eða félagasamtök með virðisaukaskattsnúmer, tilgreindan ábyrgðarmann sem hefur náð 18 ára aldri og hafi til umráða geymslu sem stenst kröfur Mannvirkjastofnunar að mati slökkviliðsstjóra.
21. gr. Tollafgreiðsla.
Þegar vara, sem fellur undir flokk 1-4 skv. 4. gr. reglugerðarinnar, er tollafgreidd skal tollstjóri þegar í stað senda tilkynningu um það til lögreglustjórans á höfuðborgarvæðinu. Áður en vara er tollafgreidd skal innflytjandi framvísa innflutningsleyfi, sbr. 20. gr. reglugerðarinnar, við tollayfirvöld.
Innflytjandi skal senda lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vörureikning, ásamt nánari sundurliðun samkvæmt sérstöku eyðublaði sem lögreglustjórinn lætur í té, a.m.k. 48 klst. fyrir tollafgreiðslu vörunnar.
Í vörureikningi skal m.a. tilgreina tegundir skotelda, magn einstakra tegunda, stærð og samsetningu. Sérstaklega skal tilgreina þá skotelda sem eingöngu er leyft að nota til skoteldasýninga og skotelda sem eingöngu eru notaðir við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar. Einnig skal þess sérstaklega getið ef um er að ræða tegundir skotelda sem ekki hafa verið fluttar inn áður, sbr. 25. gr.
22. gr. Skyldur innflutningsaðila.
Innflutningsaðili skal geyma skotelda við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra að því er varðar öryggi, s.s. gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða o.s.frv. Heimilt er að takmarka magn skotelda sem geymt er á sama stað og sýningarvörur í flokki 4 skal geyma aðskildar frá öðrum skoteldum. Þar sem ekki er sólarhringsvöktun skal birgðageymsla tengd eftirlitsmiðstöð. Um varðveislu og flutning á sprengjanlegum efnum, svo sem púðri, fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um sprengiefni og reglugerðar um flutning á hættulegum farmi.
Innflytjanda er óheimilt, utan eigin smásölu skv. 20. gr., að selja skotelda öðrum en þeim sem hafa leyfi til heildsölu eða smásölu.
Óheimilt er að selja skotelda sem eingöngu eru leyfðir til skoteldasýninga (flokkur 4) öðrum en þeim sem hafa fengið leyfi lögreglustjóra fyrir sýningu og ber seljanda að krefjast framvísunar á slíku leyfi áður en sala fer fram. Hið sama gildir um skotelda sem ætlaðir eru til nota við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar, sbr. 35. gr.
Nú er framleiðandi staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins og skal innflytjandi ábyrgjast að skoteldarnir samrýmist öryggiskröfum, m.a. um CE-samræmismerkingu skv. reglugerð þessari.
23. gr. Umsókn um innflutningsleyfi.
Umsókn til lögreglustjóra um leyfi til að flytja inn skotelda skal undirrituð af forráðamanni fyrirtækis/félagasamtaka og árituð af ábyrgðarmanni ef hann er annar en forráðamaður. Í umsókn skal greina frá eftirfarandi:
- Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi fyrirtækis.
- Staðsetningu framleiðslu og birgðastöðvar.
- Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi ábyrgðarmanns framleiðslunnar.
- Nöfnum og kennitölum stjórnarmanna fyrirtækis.
- Hvað fyrirhugað er að framleiða.
- Hvaða faglegu þekkingu ábyrgðarmaður býr yfir vegna fyrirhugaðrar framleiðslu.
Umsókn skal fylgja staðfesting Hagstofu Íslands um skráningu fyrirtækisins, staðfesting frá skattstjóra um virðisaukaskattsnúmer og vottorð frá vátryggingafélagi um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki eða tjóns á munum vegna framleiðslunnar.
Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra.
24. gr. Gildistími innflutningsleyfis.
Gildistími leyfis skal ekki vera lengri en 5 ár.
Um gjald fyrir leyfi til að flytja inn skotelda og endurnýjun þess fer skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
25. gr. Gerðarviðurkenning.
Óheimilt er að markaðssetja eða hafa undir höndum skotelda sem ekki hafa hlotið gerðarviðurkenningu og bera CE-samræmismerki samkvæmt 26. gr. Viðurkenndir skoteldar skulu standast grunnkröfur þær sem tilgreindar eru í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/29/ESB frá 12. júní 2013.
Gerðarviðurkenning skal fara fram hjá tilkynntum aðila sem hefur rétt til að veita slíka viðurkenningu á grundvelli tilskipana, laga og reglugerðar sem um hana gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við viðurkenningu skal farið eftir þeirri aðferð sem tilgreind er í viðaukum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/29/ESB frá 12. júní 2013.
Skoteldar sem hlotið hafa viðurkenningu í öðru ríki til notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu eru sjálfkrafa viðurkenndir til notkunar hér á landi. Skoteldar sem framleiddir eru eftir samræmdum evrópskum staðli skulu enn fremur hljóta viðurkenningu, enda teljist slíkir staðlar standast grunnkröfur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/29/ESB frá 12. júní 2013.
Neytendastofu er falið að annast eftirlit með að skoteldar standist gæðakröfur og meta hvort merkingar á þeim séu fullnægjandi. Neytendastofa gefur jafnframt út leiðbeiningar um lágmarksmerkingar á skoteldum. Við matið skal Neytendastofa hafa hliðsjón af reglugerð þessari og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/29/ESB frá 12. júní 2013.
Ef um er að ræða nýjar tegundir skotelda sem ekki hafa verið fluttar inn áður skulu þær sérstaklega tilgreindar á innflutningsskjölum.
26. gr. CE-samræmismerking.
Viðurkenndir skoteldar skulu bera CE-samræmismerkið, sbr. viðauka IV tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB, sbr. ákvörðun 93/465/EBE. CE-merkingin skal fest á skoteld með sýnilegum, læsilegum og óafmáanlegum hætti. Ef það er ekki hægt þá skal það fest á auðkenniplötu sem fest er þar á eða á umbúðirnar. Auðkenniplatan verður að vera þannig hönnuð að ekki sé unnt að nota hana aftur.
Ekki er heimilt að festa neinar merkingar eða áletranir sem geta villt um fyrir þriðja aðila að því er varðar þýðingu CE-merkisins á skoteldavörum. Allar aðrar merkingar má festa á skoteldavörur að því tilskildu að þær dragi ekki úr sýnileika og læsileika CE-merkisins.
27. gr. CE-staðlar.
Skoteldar sem getið er í 3. og 4. gr. reglugerðar þessarar skulu vera framleiddir í samræmi við CE-staðla og merktir CE-samræmingarmerkinu að undanskildum flugeldum fyrir loftför.
Um skotelda í flokki 1, 2 og 3 gilda eftirfarandi staðlar:
- ÍST EN 15947 - 1:2015, gildistaka 1. júní 2016. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur í flokki 1, 2 og 3 - Hluti 1: Íðorð.
- ÍST EN 15947 - 2:2015, gildistaka 1. júní 2016. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur í flokki 1, 2 og 3 - Hluti 2: Flokkar og tegundir flugelda.
- ÍST EN 15947 - 3:2015, gildistaka 1. júní 2016. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur í flokki 1, 2 og 3 - Hluti 3: Lágmarkskröfur um merkingar.
- ÍST EN 15947 - 1:2015, gildistaka 1. júní 2016. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur í flokki 1, 2 og 3 - Hluti 4: Prófunaraðferðir.
- ÍST EN 15947 - 1:2015, gildistaka 1. júní 2016. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur í flokki 1, 2 og 3 - Hluti 5: Kröfur um samsetningu og nothæfi.
Um skotelda í flokki 4 gilda eftirfarandi staðlar:
- ÍST EN 16261 - 1:2012, gildistaka 15. nóvember 2012. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldar, flokkur 4 - Hluti 1: Íðorð.
- ÍST EN 16261 - 2:2012, gildistaka 15. nóvember 2012. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldar, flokkur 4 - Hluti 2: Kröfur.
- ÍST EN 16261 - 3:2012, gildistaka 15. nóvember 2012. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldar, flokkur 4 - Hluti 3: Prófunaraðferðir.
- ÍST EN 16261 - 4:2012, gildistaka 15. nóvember 2012. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldar, flokkur 4 - Hluti 4: Lágmarksmerkingarkröfur og notkunarleiðbeiningar.
Um skotelda í flokki T1 og T2, þ.e. skoteldar til notkunar á sviði, í leikhúsi, við töku kvikmynda og sjónvarpsþátta o.fl. gilda eftirfarandi staðlar:
- ÍST EN 16256 - 1:2012, gildistaka 10. desember 2012. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur og sprengibúnaður til notkunar í leikhúsi - Hluti 1: Íðorð.
- ÍST EN 16256 - 2:2012, gildistaka 10. desember 2012. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur og sprengibúnaður til notkunar í leikhúsi - Hluti 2: Flokkar flugeldavarnings og sprengibúnaðar til nota í leikhúsi.
- ÍST EN 16256 - 3:2013, gildistaka 5. apríl 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur og sprengibúnaður til notkunar í leikhúsi - Hluti 3: Kröfur um samsetningu og nothæfi.
- ÍST EN 16256 - 4:2013, gildistaka 5. apríl 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur og sprengibúnaður til notkunar í leikhúsi - Hluti 4: Lágmarksmerkingarkröfur og notkunarleiðbeiningar.
- ÍST EN 16256 - 5:2013, gildistaka 5. apríl 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Flugeldavörur og sprengibúnaður til notkunar í leikhúsi - Hluti 5: Prófunaraðferðir.
Um skotelda í flokki P1 og P2, þ.e. skoteldar aðrir en sem greindir eru hér gilda eftirfarandi staðlar:
- ÍST EN 16263 - 1:2015, gildistaka 15. desember 2015. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Aðrar flugeldavörur og sprengibúnaður - Hluti 1: Íðorð.
- ÍST EN 16263 - 2:2015, gildistaka 15. desember 2015. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Aðrar flugeldavörur og sprengibúnaður - Hluti 2: Kröfur.
- ÍST EN 16263 - 3:2015, gildistaka 15. desember 2015. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Aðrar flugeldavörur og sprengibúnaður - Hluti 3: Flokkar og tegundir.
- ÍST EN 16263 - 4:2015, gildistaka 15. desember 2015. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Aðrar flugeldavörur og sprengibúnaður - Hluti 4: Prófunaraðferðir.
- ÍST EN 16263 - 5:2015, gildistaka 15. desember 2015. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Aðrar flugeldavörur og sprengibúnaður - Hluti 5: Lágmarksmerkingarkröfur og notkunarleiðbeiningar.
Um flugelda fyrir ökutæki gilda eftirfarandi staðlar:
- ÍST EN ISO 14451 - 1:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 1: Íðorð.
- ÍST EN ISO 14451 - 2:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 2: Prófunaraðferðir.
- ÍST EN ISO 14451 - 3:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 3: Merking.
- ÍST EN ISO 14451 - 4:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 4: Kröfur varðandi örgassprengibúnað og flokkun hans.
- ÍST EN ISO 14451 - 5:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 5: Kröfur varðandi gassprengibúnað líknarbelgja og flokkun hans.
- ÍST EN ISO 14451 - 6:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 6: Kröfur varðandi líknarbelgjaeiningar og flokkun þeirra.
- ÍST EN ISO 14451 - 7:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 7: Kröfur varðandi sætisbeltjastrekkjara og flokkun þeirra.
- ÍST EN ISO 14451 - 8:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 8: Kröfur varðandi kveikibúnað og flokkun hans.
- ÍST EN ISO 14451 - 9:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 9: Kröfur varðandi stýrirofa og flokkun þeirra.
- ÍST EN ISO 14451 - 10:2013, gildistaka 30. ágúst 2013. Flugeldavörur og sprengibúnaður - Sprengibúnaður í ökutæki - Hluti 10: Kröfur varðandi hálfunnar vörur og flokkun þeirra.
28. gr. Sérstakar takmarkanir.
Neytendastofa, í samráði við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, skal fara yfir það á hverju ári hvort leyfa eigi tiltekna skotelda sem leyfðir eru samkvæmt reglugerð þessari og skal þá tekið mið af reynslu fyrri ára um öryggi þeirra. Halda skal fund með innflytjendum fyrir lok febrúar ár hvert um mögulegar breytingar. Ef ákveðið verður að gera takmarkanir á skoteldum sem leyfðir eru samkvæmt stöðlum sem getið er í 27. gr. skulu þeir tilgreindir í viðauka við reglugerð þessa.
Ráðuneytinu er heimilt, með umburðarbréfi til allra lögreglustjóra, að takmarka og/eða banna innflutning og sölu á tilteknum tegundum skotelda.
29. gr. Leyfi til smásölu.
Enginn má selja skotelda í smásölu nema með leyfi lögreglustjóra, enda fullnægi sölustaðir öryggisreglum skv. 30. gr. Um geymslu á birgðum skal farið samkvæmt 1. mgr. 22. gr. Á sölustöðum er aðeins heimilt að selja skotelda frá þeim sem hafa leyfi til framleiðslu og innflutnings skotelda í atvinnuskyni. Undanskildir eru skoteldar í flokki 1.
Leyfi til smásölu skotelda verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé fyrirtæki eða félagasamtök með virðisaukaskattsnúmer, fullnægjandi húsnæði og tilgreindan ábyrgðarmann sem hefur náð 18 ára aldri. Þeir sem starfa við skoteldasölu skulu hafa náð 18 ára aldri.
Smásöluleyfi má aðeins veita fyrir það tímabil sem tilgreint er í 4. gr. Þessi tímafrestur gildir þó ekki þegar sótt er um viðbót við leyfi sem þegar hefur verið veitt, sbr. ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 5. gr.
30. gr. Öryggisreglur á sölustöðum.
Um sölustaði skotelda aðra en í flokki 1 gilda eftirfarandi reglur:
- Sé sölustaður hluti af stærri byggingu skal hann vera sérstakt brunahólf með EI60 veggjum sem þurfa að þola mögulegt álag af sprengingu í skoteldum og klæðningu í flokki 1. Hurðir frá sölustað að öðrum hluta byggingar skulu vera EICS60. Staðurinn skal liggja að útvegg með hurð og gluggum á a.m.k. einni hlið. Stærð brunahólfs skal vera af eðlilegri stærð miðað við umfang sölunnar og þar skal ekkert vera sem ekki tilheyrir sölustarfseminni. Sölustaður skal vera á jarðhæð byggingar og með fullnægjandi flóttaleiðir.
- Sé sölustaður stakstæður timburskúr eða stálgámur, þá skal flatarmál sölustaðar vera a.m.k. 25 fermetrar og þar skulu að jafnaði vera óverulegar birgðir. Stakstæðir sölustaðir mega ekki vera nær næstu byggingu en 15 metra.
- Sé birgðageymsla tengd sölustað skal hún vera aðskilin frá honum með vegg EI60 og allar klæðningar skulu vera í flokki 1. Hurðir í slíkum vegg skulu vera EICS30.
- Sölustaðir skulu hafa tvennar dyr sem liggja beint út undir bert loft. Hurðir skulu opnast út, vera með pumpum og opnast án þess að snúa þurfi hurðahúnum, þ.e. að nóg sé að ýta á þær innan frá eða toga í handfang utan frá.
- Ekki er heimilt að vera með laustengd ljós ("hunda") á sölustöðum. Um raflagnir vísast að öðru leyti til úttektar slökkviliðsstjóra.
- Öll meðferð með opinn eld og reykingar eru bannaðar á sölustöðum og skulu varnaðarskilti þar um vera áberandi bæði innan dyra sem utan.
- Ganga skal frá stórum skoteldum á sölustað þannig að þykkt plast sé fyrir framan hillur og magni stillt í hóf.
- Á sölustöðum skulu vera handslökkvitæki og annar slökkvibúnaður sem slökkviliðsstjóri mælir fyrir um.
- Öll sala skotelda er óheimil utan þeirra sölustaða sem slökkviliðsstjóri hefur skoðað og lögreglustjóri samþykkt.
- Sölustaðir skulu tengdir eftirlitsstöð, vaktaðir allan sólarhringinn eða öryggi tryggt með öðrum fullnægjandi hætti að mati lögreglustjóra.
- Lögreglustjóri getur hafnað umsókn um sölustað ef staðsetning skapar hættu fyrir umferð eða af öðrum sérstökum aðstæðum.
31. gr. Umsókn um smásöluleyfi.
Umsókn um smásöluleyfi skv. 29. gr. skal beina til lögreglustjóra undirritaðri af forráðamanni fyrirtækis eða félagasamtaka og áritaðri af ábyrgðarmanni ef hann er annar en forráðamaður. Í umsókn skal greina frá eftirfarandi:
- Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi félags.
- Staðsetningu sölustaðar.
- Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi ábyrgðarmanns.
Umsókn skal fylgja vottorð vátryggingafélags um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns á munum vegna skotelda á sölustað. Þá skal fylgja samþykki lóðareiganda og eftir atvikum húseiganda þess húsnæðis sem skoteldar skulu geymdir í og seldir. Umsóknir um smásöluleyfi skulu berast lögreglustjóra a.m.k. fjórum vikum fyrir áætlað sölutímabil.
Lögreglustjóri kallar eftir umsögn slökkviliðsstjóra um sölustaðinn þegar umsókn hefur borist.
32. gr. Leyfi til útflutnings.
Að undanskildum skoteldum í flokki 1 má enginn flytja skotelda úr landi nema með leyfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins má flytja út skotelda sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur samþykkt til notkunar hér á landi.
33. gr. Umsókn um útflutningsleyfi.
Í umsókn um leyfi til útflutnings skal greina frá eftirfarandi:
- Nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda.
- Staðsetningu birgðastöðvar.
- Nafn og heimili kaupanda eða viðtakanda.
- Tegund, gerð og magn þess sem fyrirhugað er að flytja út.
- Flutningsmáta og brottfarardag.
Umsókn skal fylgja vottorð vátryggingafélags um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns á munum vegna skotelda sem flytja á út og vottorð slökkviliðsstjóra um birgðastöð.
34. gr. Skyldur útflytjanda.
Útflytjandi skal geyma skotelda við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra að því er varðar öryggi svo sem gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða og svo framvegis. Þar sem ekki er sólarhringsvakt skal birgðageymsla tengd eftirlitsmiðstöð. Um varðveislu og flutning á sprengjanlegum efnum, svo sem púðri fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um sprengiefni og reglugerðar um flutning á hættulegum farmi.
Framvísa skal útflutningsleyfi til tollayfirvalda.
35. gr. Sérstök notkun skotelda.
Þeir sem nota skotelda við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar skulu sækja um sérstakt leyfi til lögreglustjóra fyrir slíkri notkun. Öðrum en þeim sem hafa þannig leyfi er óheimilt að nota skotelda, að undanskildum skoteldum í flokki 1, til slíkrar starfsemi.
Fyrirtæki sem sérhæfa sig í viðgerðum á loftförum og ökutækjum og þurfa að flytja inn flugeldavöru sem skilgreind er sem viðurkenndur íhluti í öryggisbúnaði til notkunar í framangreindum tækjum og inniheldur skoteldaefni sem notuð eru til að virkja hann eða annan búnað þurfa að sækja um innflutningsleyfi til lögreglustjóra í því umdæmi sem fyrirtæki hefur aðsetur.
Um skotelda sem ætlaðir eru til framangreindra nota gilda ákvæði reglugerðarinnar eftir því sem við á.
36. gr. Eyðing skotelda.
Öllum skoteldum, sem vegna galla, aldurs, eða af öðrum ástæðum teljast hættulegir skal eytt. Söluaðilum skotelda er skylt að taka á móti skoteldum til eyðingar, sem þeir hafa sannanlega selt, ef kaupandi óskar þess. Framleiðandi og/eða innflytjandi skal bera kostnað af eyðingu skotelda.
Tilkynna skal lögreglustjóra um fyrirhugaða eyðingu, sem eftir atvikum ákveður hvar og hvenær hún fer fram, að höfðu samráði við heilbrigðisnefnd og slökkviliðsstjóra. Kunnáttumaður sem lögreglustjóri viðurkennir skal annast eyðingu skotelda.
V. KAFLI Skráning, eftirlit og refsingar.
37. gr. Skráning.
Ríkislögreglustjóri skal halda skrá um þau félög sem hafa leyfi til að framleiða og flytja inn skotelda í atvinnuskyni og lögreglustjórar um þau fyrirtæki og félagasamtök sem hafa fengið leyfi til smásölu á skoteldum og um fjölda sölustaða. Lögreglustjórar skulu senda lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu afrit af öllum leyfum sem veitt eru fyrir skoteldasýningum og smásölu skotelda.
Leyfishafar skulu halda birgðabókhald yfir vörur sínar og ráðstöfun þeirra og skal sérstaklega aðgreina sölu á skoteldum í flokki 4.
38. gr. Eftirlit.
Lögreglustjórar hver í sínu umdæmi og Neytendastofa annast eftirlit með framleiðslu og verslun með skotelda. Þeir geta hvenær sem er og án sérstakrar heimildar skoðað húsnæði þar sem skoteldar eru framleiddir og seldir eða þar sem birgðir eru geymdar, meðal annars til að kanna ráðstöfun á skoteldum sem eingöngu eru ætlaðir til skoteldasýninga.
Komi í ljós, að mati lögreglustjóra, að húsnæði eða vörslu skotelda sé ábótavant getur hann til bráðabirgða lagt hald á þá. Sama gildir ef vörur eru ekki í samræmi við öryggiskröfur, m.a. um CE-samræmismerkingu.
Ef í ljós kemur að einhver tegund skotelda reynist gölluð eða sérstaklega hættuleg, eftir að sala á henni hefur verið leyfð, getur Neytendastofa bannað frekari sölu, lagt hald á hana og krafist þess að birgðum verði eytt, sbr. lög nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Sama gildir um skotelda í flokki 4 sem boðnir eru almenningi til sölu.
39. gr. Synjun umsókna.
Komi til greina að synja umsókn samkvæmt reglugerð þessari skal gefa umsækjanda kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Sé umsókn samkvæmt reglugerð þessari synjað skal það gert skriflega og skal synjunin rökstudd. Gera skal grein fyrir því að kæra megi synjun til æðra stjórnvalds innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Viðkomandi skal tilkynnt í hverju tilviki hvert æðra stjórnvald er.
40. gr. Afturköllun leyfa.
Leyfi samkvæmt reglugerð þessari getur leyfisveitandi afturkallað ef ekki teljast lengur fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu, leyfishafi hefur ekki farið eftir settum fyrirmælum eða ætla má að leyfishafi muni fara óforsvaranlega með efni eða tæki sem leyfið tekur til.
Leyfisveitanda er heimilt að afturkalla leyfi til bráðabirgða án þess að með mál sé farið samkvæmt reglum stjórnsýslulaga, enda sé hætta á tjóni fyrir menn eða muni.
Um afturköllun leyfis gilda ákvæði 35. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
41. gr. Refsingar.
Brot á reglum varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. VII. kafla vopnalaga nr. 16/1998, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.
42. gr. Innleiðingar.
Með reglugerð þessari eru innleiddar og öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir:
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/29/ESB frá 12. júní 2013 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða flugeldavörur fram á markaði (endurútgefin), sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18, 31. mars 2016, bls. 214.
Framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16, 19. mars 2015, bls. 297.
43. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 40. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 6. gr. d laga nr. 77/2015, öðlast þegar gildi.
Með reglugerð þessari er felld úr gildi reglugerð um skotelda með síðari breytingum nr. 952/2003.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.