Fara beint í efnið

Kvörtun vegna skoðunar ökutækis

Kvörtun vegna skoðunar ökutækis

Upp kemur ágreiningur

Upp getur komið álitamál eða ágreiningur milli viðskiptavinar og skoðunarstofu eða endurskoðunarverkstæðis um framkvæmd eða niðurstöðu skoðunar á ökutæki hans.

Lausna leitað

Viðskiptavini ber ætíð skylda til að bera kvörtun sína fyrst upp við skoðunarstofuna eða endurskoðunarverkstæðið og leita lausnar (stjórnendur þeirra). Bæði skoðunarstofur og endurskoðunarverkstæði skulu hafa ferla í gæðakerfum sínum til að móttaka og bregðast við öllum kvörtunum og svara viðskiptavini eins og fljótt og vel og unnt er.

Kvörtun (málskot) til Samgöngustofu

Gefi stjórnendur skoðunarstofu eða endurskoðunarverkstæðis ekki fullnægjandi svör að mati viðskiptavinar getur hann leitað til Samgöngustofu varðandi úrlausn. Slík ósk skal þó hafa borist Samgöngustofu innan mánaðar frá því skoðun fór fram til að hún verði tekin til afgreiðslu undir málskotsrétti.

Við afgreiðslu slíkra mála hjá Samgöngustofu er byggt á þeim gögnum sem fylgja beiðninni. Leitað er sjónarmiða hjá málsaðilum eftir því sem þörf er á. Meðal annars kann að verða óskað eftir því að skoðun ökutækisins verði endurtekin. Niðurstaða umfjöllunar getur leitt til þess að niðurstaða skoðunar standi óhögguð eða að henni þurfi að breyta.

Gildir aðeins um skylduskoðanir

Hafa ber í huga að málsmeðferð Samgöngustofu tekur aðeins til skylduskoðana. Hún tekur ekki til aukaskoðana, söluskoðana eða ástandsskoðana af einhverju tagi. Ekki er tekin afstaða til mögulegs bótaréttar í einstökum málum.

Ábendingar eða kvartanir af öðrum toga

Samgöngustofa tekur einnig á móti ábendingum eða kvörtunum af öðrum toga en að ofan er lýst. Dæmi um það er þegar þriðji aðili eignast ökutæki og finnst eitthvað athugavert við skoðun þess eða þegar verkstæði hefur athugasemdir við skoðun ökutækis sem það hefur fengið til viðgerðar. Slíkar ábendingar fara þó ekki í málskotsmeðferð samkvæmt reglugerð um skoðun en geta verið grundvöllur að úrbótum á skoðunarkerfinu.

Kvörtun vegna skoðunar ökutækis

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa